1. júní - laugardagur

Áttundi dagur í göngu.  

Góður svefn og hvíld síðastliðna nótt og lagt af stað klukkan 7 í morgun.  Já það var langur dagur framundan og því ákváðum við að hafa góðan tíma þennan daginn.  Það var logn og sólarlaust - fínt gönguveður.  Við fengum þessa mjúku undir fæturna í mestallan dag, líka malarvegi og skafarinn (eins og veghefillinn var kallaður í minni sveit) var greinilega nýbúinn að hefla malarveginn og því var jarðvegurinn mjúkur og góður.  

Það er alltaf verið að spá rigningu en ekki kom hún á okkur, sem við erum afar þakklát fyrir.  Jæja það var á stefnuskránni hjá okkur að stoppa á tveggja klukkustundar fresti, nærast og fara úr skónum ef við nenntum því.  Við gengum frammá nokkur hús og þar á lóðinni var kona að sýsla úti.  Það passaði ágætlega að stoppa því það voru tveir tímar síðan við lögðum af stað.  Hún spurði hvort við vildum kaffi og við þáðum það nú heldur betur kát.  Hún er þarna með litla greiðasölu, kaffi og kökur og svo ræktar hún sumarblóm og selur.  Á veturna er hún að vinna allskonar hannyrðir úr ull en hún er líka með kindabúskap.  

Hún sýndi okkur fallega formaða steinplötu sem á var meitlað Trondheim 385 km (ef ég man þetta rétt).  Þennan stein fundu hún og maðurinn hennar ofan í jarðveginum þegar þau voru að jarðraskast þarna í lóðinni.  Þetta var fallegur steinn og þarna eru þau með hann til sýnis við veginn og það var það sem vakti athygli okkar fyrst.  Við fengum okkur sæti þarna úti hjá henni því veðrið var fínt og hún að dúllast þarna í kringum okkur.  Kaffið bragðaðist ótrúlega vel og sætabrauðið - ekki skemmdi það nú fyrir.  Ger valdi sér muffins en ég fékk mér kanilsnúð sem var svo girnilegur, ég tók hann framyfir, og bragðaðist þetta allt óskaplega vel.  Þarna sátum við í rólegheitum, ég fór úr skónum, og við hvíldum okkur þarna í góðan hálftíma.  Í túninu við húsið stóð óskaplega fallegur gamall grænn bíll, ég held það hafi verið Dodge, ég er ekki alveg viss.  Þennan bíl nota þau oft hjónin, skreppa á honum í sveitarúnt.  Þarna var líka allt önnur tegund af bíl, eldgamall Zinger bíldrusla, hjólalaus og öll í klessu.  Konan sagðist hafa fundið hræið á kafi í trjám og drullu í nágrenninu.  Hún lét flytja það heim til sín í lóðina og á hverju sumri setur hún blóm um allt í bílinn og mosa á þakið.  Það voru að byrja að skjótast græn blöð upp úr bílnum sem verða í sumar appelsínugul.  Mikið hefði verið gaman að fá að upplifa það því þetta er örugglega fallegt.  

Og nú var okkur ekki lengur til setunnar boðið og lögðum af stað og gengum meðfram enn einu vatninu.  Fuglasöngurinn var á báðar hendur, alltaf mikið af allskonar söng sem gleður, mörg falleg sumarhús, líka mörg yfirgefin og ótrúlega margir bílar í reiðileysi.  Það er eins og beðið sé eftir því að þeir verði að moldu, sem verður náttúrulega ekki.  Við gengum í kyrrð og ró við Ger - gerum það oftast nær og það er ósköp gott.  Tveimur tímum seinna fórum við að hugsa okkur til setu - sáum eitt sumarhúsið.  Þar var bekkur sem við skelltum okkur niður á.  10 mínútna hvíld, smá vatnssopi og næring - það er allt sem þarf.  Og áfram skyldi halda.  Þegar við vorum að leggja af stað kom ungur maður akandi að okkur.  Hann átti þá þetta sumarhús.  Hann var hinn besti við okkur og hélt það væri nú í lagi að við sætum þarna og hvíldum okkur.  Ég spurði hann að því af hverju vötnin væru alltaf nefnd með "sjön" í endingu.  Ég taldi að þetta þýddi sjór (ekki nógu góð í sænskunni).  Hann sagði að sjön væri vatn en havet væri sjór.  Og nú vitum við þetta.  Við kvöddum þennan unga mann og héldum af stað, veðrið lék enn við okkur.  

Klukkan tvö komum við til Brunflo.  Bæjar sem hefur hraðbanka og matvörubúðir og það var gott því nestið var orðið að skornum skammti og nú var bætt aðeins í pokann.  Þá var farið í hraðbankann og rifið út eitthvað af aurum, eins gott að vera nýbúin að fá greitt fyrir að gera ekki neitt.  Eða allavega að gera lítið.  Við settumst á bekk í bænum og borðuðum ótrúlega gott bláberjajógúrt.  Á leiðinni út úr Brunflo stóð kirkjan sem tilheyrir bænum og liggur Olavsvegurinn okkar þar hjá.  Þessi kirkja er í tveimur hlutum, turninn stendur einn og sér og kirkjuhúsið sjálft við hliðina.  Turninn er 16,5 metra hár.  Þegar við tókum í hurðina á kirkjunni þá vorum við heppin - hún var opin.  Þessi kirkja er stór og falleg og þarna var ung stúlka að vinna og hún spjallaði við okkur og sagði að þarna hefði verið skírn í dag, tónleikar með barnakór í kvöld og messa og skírn á morgun.  Já það var nóg að gera hjá henni og þeim sem þarna starfa.  

Við héldum áfram og nú var víðsýni til allra átta.  Við sáum fallegar sveitir og langt í fjarska snævi þakin fjöll.  Ég velti því fyrir mér hvort snjórinn sem hefur verið á þessari leið sem er framundan hjá okkur verði farinn þegar við komum?  Það verður seinnitíma vandamál - nú eða skemmtun.  

Þegar við vorum búin að ganga einhverja 3-400 metra frá kirkjunni komum við að skilti sem á stóð að væri einhver vatnsuppspretta sem Ólafur helgi átti að hafa komið við.  Og við þangað.  Gengum niður 74 tröppur og skoðuðum þessa litlu lækjarsytru.  Og svo þurfti að ganga 74 tröppur upp aftur!  Það er alveg ótrúlegt að það var bara ekkert erfitt.  Eftir svolitla göngu, kannski einn km komum við á yndislegan stað þar sem við ætlum að gista.  Þessi staður heitir Sörbygarden.  Við erum hér með heila hæð, útsýni sem er fegurðin ein, vatn og hús og bæir hinum megin við vatnið sem heitir Storsjön.  Sólin farin að skína og við komum í þetta fallega hús klukkan þrjú.  Við höfum verið 8 tíma á ferðalagi í dag og þar af 7 klukkustundir á göngu.  Og heyrið þið nú 27,1 km í dag á göngu.  

Á morgun mun verða stuttur dagur, 13-15 kílómetrar.  Þessi dagur var góður og ég er ágætlega stemmd og eftir góðan svefn og hvíld held ég áfram og vonandi fáum við ekki of mikið af sól.  Helst af öllu vildi ég hafa veður eins og var í dag.  Smá gola af og til, hlýtt, kyrrt og gott að vera úti.  Sendi kærar kveðjur heim.  Sakna og hugsa hlýtt til ykkar og til litlu systur minnar:  "ég er enn að leita að ísbúð" hahaha.  Í lokin þetta:  "fetaðu veginn í kyrrð jafnvel þótt þú sért með öðrum í för".  

Sæl og sátt en stundum svolítið einmana þó Ger sé ágætur smilewink 


Bloggfærslur 1. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband