9. júní - hvítasunnudagur

Við gengum frá Fjallgarden hótelinu til Tannfossen, 23,2 kílómetrar.  Flottur staður.  

Það hellirigndi í nótt, stytti upp klukkan hálf sjö, sól og logn.  Morgunmatur á hótelinu klukkan átta, svo gott að ganga að borði með öllu mögulegu, góðu og orkuríku.  Klukkan 8:30 hófum við göngu niður slönguveginn og fórum að gömlu Are kirkjunni sem var reist um 1100.  Eina miðalda steinkirkjan í fjöllum Skandinavíu.  Klukkuturninn var settur á kirkjuna 1750.  Þetta er fallegt hús og við gátum skoðað hana að innan, opin var hún.  Stytta er af heilögum Ólafi er þar inni, búin til úr tré og hann hafður með hatt á höfði - ekki kórónu.  

Við gengum frá kirkjunni og leiðin lá um græn svæði, yfir brautarteina og meðfram Aresjön vatninu allt til lítils bæjar Duved.  Þar keyptum við inn til næstu daga og ég reyndi að velja allt sem léttast.  Komum við hjá kirkjunni í bænum, hún var læst.  Falleg ljósgrá timburkirkja frá 1894 með þremur turnum.  Við tókum myndir og fengum okkur hádegissnarl.  

Á leið okkar þegar við héldum áfram voru fullorðnir menn á hjólaskíðum, ekki slegið slöku við þó enginn sé snjórinn.  Krakkar í fótbolta, úti að hjóla, já líf í litla bænum.  Við héldum nú áfram göngunni og næsti áfangastaður var minnimerki um stríð sem háð var 1718-19.  Þar létust eða frusu í hel meira en 3000 hermenn.  Þetta er kallað minnisvarði um Carolean death Arch.  Ég á eftir að lesa meira um þetta þegar ég kem heim - mig langar að vita meira um hvað þetta var.  

Sólin skein, smá andvari og malbik, er bara farin að venjast því svolítið en ekki þessum hita.  Nú varð okkur gengið framhjá stórum golfvelli og þá var von um kaffi.  Við gatnamótin niður á gatnamótunum hittum við Larry frá San Diego.  Hann er einn á ferð, lét skipuleggja gönguna fyrir sig og byrjaði gönguna í Are í morgun.  Hann sagði að gott kaffi og sætt væri í golfskálanum og við þangað.  Hann gistir á sama stað og við næstu tvær nætur.  

Við Ger áttum góða hvíldarstund við kaffidrykkju áður en síðustu 8 kílómetrarnir yrðu kláraðir.  Það var allt á malbiki og er á leið göngu var mér orðið svo heitt að ég tók aðra vatnsflöskuna mína og hellti úr henni yfir höfuðið á mér, vá hvað það var gott og hressandi, stelpan mín hún kannast við þessa líðan.  

Klukkan 15:30 komum við í Tannfossen, lítill bústaður en notalegur og allt til alls nema netið.  Þá var Larry mættur þar og við spjölluðum öll mikið saman á milli þess sem einhver skolaði af sér ferðaryk og svita.  Þá var komið að því að skoða stærsta foss Svíþjóðar, Tannfossen fossinn.  Hann var í 650.m göngufæri frá okkur og þvílíkur foss, ég var orðlaus.  Samkvæmt minni bók var talað um 800 cubis metrar á sekúndu.  Ég veit ekkert hvað það þýðir.  Vegur var lagður upp að fossinum 1906 og hingað kemur fjöldinn allur af ferðafólki, innlendu og erlendu, enda ótrúlegur foss að sjá og heyra drunurnar og kraftinn.  

Við gengum til baka og á leiðinni, já hvað haldið þið, það fór að hellirigna.  Við náðum að taka þvottinn inn og þá var allt í góðu.  Svo bíðum við Ger eftir því að vita hvort við getum fengið far í bíl með Larry á þriðjudagsmorgun 10-15 kílómetra.  Eina gistingin sem er í boði á þriðjudag, það svarar aldrei neinn þar.  Svo nú verðum við að bíða og sjá.  

Í lokin þetta:  "það er gott að geta glaðst af öllu smáu, leiftrandi daggperlur á laufi, lækjarins niði".

Pílagrími, glöð að skríða í pokann sinn.      


Bloggfærslur 10. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband