12. júní - miðvikudagur

Nítjándi dagur á göngu, 23,4 kílómetrar.  

Gengum frá gistiheimili indjánans til Vuku.  Við Ger lögðum af stað klukkan 6:45 í þurru og sólarlausu veðri.  Larry ætlaði að láta aka sér hálfa leiðina því eins svo oft áður var mikið um malbik og hann er ekkert sérlega hrifinn af því.  En við félagarnir ákváðum í morgun að ganga malbikið mín vegna, það væri styttra og ekki miklar upp og niður göngur og þetta var ákveðið vegna þess að hægra hnéð er aðeins að kvelja mig og vonandi gengur þetta til baka.  

Veðrið lék við okkur, allhvass vindur í bakið, umferðin ekkert of mikil og þéttur skógur á báða vegu lengi framan af.  Þegar maður er svona "einn" með Guði þá er nú ýmislegt sem kemur í hugann, t.d. að fá smá aðstoð við að minnka sársauka í hné, þakka fyrir hvíldina síðastliðna nótt og að fá að vakna til nýs dags.  Ég hlakka til hvíldar í Stokkhólmi þegar þessu líkur.  Við stoppuðum þó reglulega og hvíldum okkur, alveg nauðsynlegt.  

Á leið okkar í dag sáum við kýr og kindur og bjölluhljómurinn ómaði frá þeim svo fallega, bara eins og á Jakobsveginum á Spáni.  Þegar nær dró Vuku bænum opnaðist landið, stór og falleg býli, stórar grænar sléttur og nýræktir.  Mikið að gerast hjá bændum allsstaðar þar sem við fórum hjá.  Við áttum leið framhjá bæ einum Stene Garde og þar kom Ger auga á bekk og borð.  Hann sveif því á mann sem var þarna á hlaðinu og við fengum leyfi til að tylla okkur.  Og ekki nóg með það, maðurinn Egil, náði í kaffi, mjólk og bolla og konan hans, Ase, bættist í hópinn í hlýjunni því nú hafði lygnt og sólin skein.  Þarna sátum við lengi og þau sögðu okkur ýmislegt um staði sem við eigum eftir að ganga hjá og þetta varð hið besta kaffiboð.  Yndisleg stund með þeim hjónum.  Ase kom með krem, lét mig fara inn á klósett og bera á hnéð, þetta var eitthvað bólgueyðandi frá Tælandi.  Ég held að það hafi bara virkað vel.  Við kvöddum þessi elskulegu hjón eftir myndatöku og gengum síðustu þrjá kílómetrana niður í fallegan dal.  

Efst í hæðinni áður en við gengum niður blasti Vuku bærinn við, fallegur, lítill bær.  Þegar niður var komið kíktum við í búðina, það var keypt í matinn og smá nesti fyrir morgundaginn.  Við hittum Larry í búðinni en hann gekk 14 km í dag og við förum öll til Stiklestad á morgun, ef allt gengur vel.  

Við erum komin í gistinguna og hún heitir Auskin Kreative Senter.  Ótrúlega fallegt allt, hreint og vel um gengið.  Yndisleg hjón Mona og Kai.  Hún kom með kaldan bakstur á auma hnéð og lét mig hafa það hér inn í rúm, ég er ekki frá því að mér líði betur.  Hún er öll af vilja gerð að hjálpa mér og ég er afskaplega þakklát.  Þessi gististaður er svolítið fyrir utan bæinn og hún kom til mín áðan hún Mona og spurði hvort ég vildi koma að skoða handverksverkstæði þeirra hjóna.  Við, ég, Ger og Larry fórum með og hittum manninn hennar, þar sem hann var að vinna/leika sér.  

Þvílíkt ævintýri sem er þarna inni.  Kai er handverksmaður á Stiklestad, þar sem Ólafur helgi var drepinn.  Hann fræddi okkur um ýmislegt sem þar er í gangi. 

Þarna áttum við heillanga stund með þeim og ótrúlega gaman að fræðast um það sem þetta fólk er að gera.  Kai ætlar að taka bakpokann minn til Stiklestad í fyrramálið svo ég þarf ekkert að bera á morgun, bara nota göngustafinn, vonandi get ég klárað þetta.  Þetta eru ekki nema 11 eða 12 kílómetrar.  Nú er kvöldmaturinn að baki, heitur og góður kjúklingaréttur og svo er að hvíla sig til morguns.  Í lokin er það þetta:  "eitt mesta leyndarmál lífsins er, að allt sem einhverju máli skiptir - er það sem við gerum fyrir aðra".

Hlakka til að hvíla mig og vonandi verður líkaminn góður á morgun,

góða nótt elskurnar.


Bloggfærslur 12. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband