17. júní - mánudagur, 24. göngudagur

Rigning og logn klukkan 6 í morgun.  Við fengum okkur morgunverð um hálfátta leytið, hann var tilbúinn í eldhúsinu, stelpurnar í gististaðnum höfðu gert allt klárt í gærkvöldi.  

Klukkan átta kom forstöðumaðurinn John og við gengum frá greiðslum og hann ætlar að keyra mig áleiðis til næsta gististaðar.  Ger lagði því einn af stað klukkan hálf níu og ég tók því rólega til klukkan 11.  Þá lögðum við af stað akandi og nú var orðið bara ágætt veður.  

Við ókum fram á Ger þar sem hann var að fá sér að borða og allt í góðu hjá honum.  John lét mig út á gatnamótum og sagði að það væri c.a. 8 km fyrir mig að ganga til Helberg gististaðarins.  Nú var alveg stytt upp og smá sólarglæta, fínt gönguveður.  Ég gekk því í rólegheitunum, stoppaði oft, tók nokkrar myndir, borðaði nestið mitt og regnbuxurnar fóru í pokann.  Nú var ég komin á malarveg, af malbikinu, meðfram sjónum, fallegir bústaðir og íbúðarhús og lítil þorp í fjarska.  Þrándheimsfjörður blasti við mér í allri sinni dýrð - dásamlega fallegt.  

Ger hafði sagt mér í morgun áður en við lögðum af stað að leiðin yrði öll á malbiki, sem og hún var hjá mér í byrjun, en nú fór ég að velta þessu fyrir mér.  Hvort ég væri komin of langt, hefði gengið framhjá gististaðnum.  Ég hafði samband við Ger sem var einhverja kílómetra á eftir mér og það er ekki alltaf auðvelt að eiga samræður við þá sem eru ekki alltaf með þýðingar á enskum orðum á hreinu.  Ýmist var hann undan mér eða á eftir, farinn framhjá skilti með malarvegi.  Ég reyndi að lýsa því sem ég hafði fyrir augum og hann sá þetta allt saman og þannig gekk þetta í dálítinn tíma.  Ég ákvað því að ganga til baka.  Gæti verið að hann hefði farið framhjá mér án þess að ég yrði þess vör á meðan ég var að dunda mér á malarveginum?  Nei það gat bara alls ekki verið.  Ég rölti til baka og eftir dágóða stund birtist hann við gististaðinn sem ég hafði gengið framhjá því hann var ekkert merktur nema með Pilgrimsleden herberge.  Og bílstjórinn minn hann Jon hefur eitthvað misskilið þetta þegar hann sagði að það væru 8 km til gististaðarins.  

Svo ég var bara komin langleiðina á gististaðinn sem við eigum að vera í á morgun.  En allt endaði þetta nú vel.  Gangan mín í dag var ekkert óskaplega löng, einhverjir 5 km, en ágætt ef maður er ekki heill heilsu.  Nú erum við á Herberge gististaðnum við Þrándheimsfjörð og á morgun ætlum við til eyjarinnar Tautra.  

Ég ætla að semja við gistibóndann hérna og vita hvort hann geti skutlað mér áleiðis á morgun.  Það væri rosa fínt að taka kannski 8-10 km því leiðin er 23 km.  Ég er bara ágæt, þarf helst alltaf að vera á röltinu og ef ég sest niður og sit of lengi þá leiðir verkurinn alveg beint upp í hné og ég draghölt en þegar ég er komin á skrið þá er ég bara alveg ágæt.  

Nú skín sólin, blankalogn úti og ég sit inni og vona að þið eigið góðan og ljúfan dag.  Og hamingjuóskir til stelpunnar minnar og mannsins hennar með 19 ára brúðkaupsafmælið - það var góður dagur fyrir 19 árum, gleymist ekki.  Í lokin þetta:  "besta leiðin til að kæta sjálfan sig er að kæta aðra".

Er alltaf að reyna að vera skynsöm og safna kröftum fyrir hnéð mitt, ætla að láta þetta lagast og ég ætla mér að klára - 5 gistinætur eftir.   


Bloggfærslur 17. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband