18. júní þriðjudagur - 25. dagur í göngu

Fyrst aðeins frá gærkvöldinu.  Pöntuðum kvöldmat hjá Anne Grete og Per Arne, húsráðendum á Hellberg herberge.  Klukkan sjö var boðið til veislu, steiktur lax með öllu - mmmm svo gott en rúsínan í pylsuendanum var - já það var rabbarbaragrautur.  Eitthvað sem lét huga minn hverfa til elsku ömmu minnar á Hvítárbakka.  Grauturinn var svo góður að ég fékk mér tvisvar á diskinn.  Sofnaði því vært fljótlega upp úr níu en vaknaði um þrjúleytið við að rigningin buldi á þakinu.  Ég sneri mér bara á hina hliðina og treysti á góða fylgdarmanninn minn eins og venjulega.  

Vaknaði aftur rúmlega sex og þá var hætt að rigna.  Við gerðum allt klárt fyrir gönguna, krem á hnéð og lyf tekin inn og farið í veislumorgunverð hjá þeim hjónum.  Sátum í rólegheitum yfir heimagerðum sultum, fjórum tegundum, heimagerðum eplasafa ásamt öllu mögulegu.  Það var sko engin hætta á að við færum með innfallnar kinnar eða maga frá þeim.  Við Ger sömdum við Per að keyra okkur c.a. helminginn af gönguleiðinni - allt gert til að ég sé nú ennþá með í ferðinni.  Það fór að rigna þegar við lögðum af stað en það stóð ekki lengi.  Per ók okkur að Logtun kirkjunni og þar kvöddumst við.  Við fórum inn í kirkjuna sem var mjög falleg og sérstök steinkirkja.  Altaristafla sem var skorin út 1652 og máluð 1655 - ótrúlega falleg.  Það er talið að þessi kirkja hafi verið byggð í kringum 1500.  Svo sáum við þarna skilti utan á húsi sem á stóð Tourist information, og við þangað.  Ætluðum að reyna að fá stimpil í vegabréfið okkar en allt lokað.  Svo ég smellti bara einni mynd af þessari krúttlegu byggingu.  

Leiðin í dag var falleg, víðsýn.  Við sáum út um allt, til Þrándheims, stór svæði um allar jarðir með ýmisskonar ræktun, kartöflur, kál, gulrætur og allt á góðri leið að vaxa í blíðunni.  Við vorum bara harla káta því sólin skein ekkert of mikið, alltaf annað slagið og útsýnið var eins og á fallegu póstkorti.  

Nú fórum við að sjá til Tautra eyjunnar en þangað var ferðinni heitið.  Leiðin að henni eru 3 km frá landi, uppfylling, brú og uppfylling.  Það gekk nú bara furðuvel að koma sér yfir, ekkert verið að horfa beint niður út fyrir vegriðið.  En staldrað við og notið - horft til lands og til Tautra.  Á þessari brú er læst rafmagnshlið og við urðum að ýta á takka og sjá - það kom grænt ljós - Sesam opnist þú.  Svo var lokað á eftir okkur - sem sagt rautt og grænt umferðarljós báðum megin.  Þetta er nefnilega einbreið brú og þarna var heilmikil umferð meðan við röltum þessa þrjá kílómetra.  

Það kom mér á óvart hvað er mikil byggð á eyjunni, mörg íbúðarhús og mikil garðræktun.  Tautra eyjan sem er í Þrándheimsfirði er þekkt fyrir klausturminjar og Maríuklaustur sem stofnað var 1999 en byggingin sjálf var tekin í notkun 2003 og fullgerð 2006.  Þar munu búa 14-15 nunnur frá amk. 7 löndum.  Þegar við vorum komin út í eyjunni ákváðum við að fara fyrst á veitingastað þar og fá okkur að borða.  Og veitingastaðurinn er í þveröfuga átt við gististaðinn okkar í Maríuklaustrinu.  En þetta var allt í fínu lagi, við vorum heldur í fyrra fallinu, sólin skein og við fengum góðan mat á Klostergarden.  Það passaði vel að setjast niður, klukkan var að verða 12.  

Eftir góða hvíld og tíma þarna í sólinni röltum við að rústum klausturs sem er frá 1207.  Við tókum myndir þar og skoðuðum okkur um og svo lauk ferðum okkar á þessum hluta af Tautra.  Nú var 1,9 km að Maríuklaustrinu og klukkan að ganga 14.  Þegar við komum að dyrunum  á klaustrinu hringdum við á takkaborði og fengum rödd sem vildi vita erindið.  Allt stóð þetta heima, við gerðum grein fyrir okkur og við áttum bókaða gistingu. Von bráðar birtist lítil, krúttleg, brosandi nunna.  Hún var voða kát, spurði hvaðan við værum og fylgdi okkur í aðra byggingu þar sem við gistum.  Ég skal segja ykkur það, bara VÁ, þetta var æði, heilt hús fyrir okkur á tveimur hæðum.  Eldhús fullt matar - uppbúin rúm - allt frítt!!  Eina sem við mættum gera í fyrramálið væri að taka af rúmunum og setja nýtt á.  Ég borga nú með gleði einhverjar krónur fyrir allt þetta.  

Nunnan sem fylgdi okkur hingað, systir Gilchrist, elskuleg nunna, kemur frá Kanada, frá Montreal eins og hún sagði mér.  Hún sagði okkur að við værum velkomin í kirkjuna og vera þar við vespers og completorium, það verður gaman að upplifa það.  Nú erum við hér í rólegheitunum, það er frekar hráslagalegt að líta út á fjörðinn.  Flissandi öldugjálfur og rigning.  Svo styttir upp og sólin fer að skína.  Meira hvað heppnin er með okkur.  

Ég er svona þokkaleg á göngu, góð ef ég sit eða ligg en það er alltaf erfitt að taka fyrstu skrefin.  Þá hugsa ég til þeirra sem gengu hér fyrr á öldum við misjafnar aðstæður og þá hætti ég að vorkenna sjálfri mér.  Ég vona bara og bið að ég geti klárað þessa göngu þó að hver dagur sé styttur.  

Það er svo lítið eftir.  Verðum hér í nótt, förum svo á næsta gististað Esgard, daginn þar á eftir förum við til Falden og svo er það Vikhammer og Þrándheimur.  Sendi ykkur hlýjar kveðjur heim.  Hlakka mikið til að hitta ykkur aftur.  Í lokin ætla ég að tileinka veru minni hér í klaustrinu móður Teresu og orðum hennar:  "Guð er vinur þagnarinnar.  Tré, blóm, gras vex í þögn.  Sjáið stjörnurnar, tunglið og sólina hvernig þau hreyfast í þögn."

Glöð kona í sveitum Noregs.         


Bloggfærslur 18. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband