19. júní - miðvikudagur, 26. dagur í göngu

Við áttum pantað far með bát frá Frosta til Steinvikholmen klukkan 10 og því var ég pínu stressuð.  

Vaknaði í Tautra eyjunni klukkan 5, já það tekur mig dálítinn tíma að koma hnénu í gang.  Svona að dunda mér við það í rólegheitum, skipti um á rúmi og gerði tilbúið fyrir næsta gest.  Þá dröslaðist ég niður á fyrstu hæð, hitaði kaffi og von bráðar birtist Ger.  Morgunverðurinn kláraður, komið við í kirkju systranna, settum seðla í bauk og kvöddum rétt fyrir klukkan 7.  

Dásamlegur staður, systurnar yndislegar, ein kom til mín í gær og lét mig hafa ísmola í poka, verkjalyf og krem sem þær búa til sjálfar til að slá á verkinn í hnénu.  Já það var yndislegt að vera þarna, hefði bara viljað vera lengur.  Sól og logn og það gekk ágætlega að ganga þessa 7 km að bryggjunni.  Við vorum komin þangað klukkutíma á undan áætlun, rölti bara um í rólegheitum því það er ekki gott að sitja of lengi, það bara gengur ekki upp fyrir hnéð.  

Ef við færum ekki með bátnum yrðum við að fara með leigubíl og lest til að nálgast Olavsveginn sem við fórum af fyrir þremur dögum.  Þegar við komum í land, handan fjarðarins sem við erum núna, þá bíður okkar bíll og flytur okkur til Stjordal.  Sit ég því og bíð eftir bátnum, við vorum 1 klst og 45 með þessa 7 km og klukkan er bara rúmlega 9.  Frá Stjordal göngum við svo til Ersgard gististaðarins.  

Siglingin gekk vel, allir með björgunarvestin rétt sett á sig og ferðin tók rúman hálftíma.  Skipperinn var með lærling sem ætlar að leysa hann af þegar hann fer í frí, það var kona sem býr í Tautra eyjunni.  Það var gott veður og þá leið mér betur í bátnum, alltaf svolítið óróleg þegar ég þarf að fara á sjó.  Þegar siglingunni lauk (cruiseferðinni) beið leigubíll eftir okkur og ók með okkur til Stjordal.  Í Stjordal búa í kringum 25 þúsund manns.  

Eftir að hafa gert upp við leigubílstjórann leituðum við að kaffihúsi.  Fundum þetta fína bakarí, drifum okkur inn og keyptum kaffi og dísætar tertusneiðar.  Verðlaun fyrir 7 kílómetrana, það verður að vera þannig.  Við settumst út í sólina og horfðum á þessar dásemdartertur, stórar sneiðar, kaffið gott - 1125 krónur á mann.  Það þætti ekki mikið heima.  Eftir slórið okkar var haldið af stað út úr bænum.  Við komum að Værnes kirkju og þar var að hefjast útför.  Ekki datt okkur í hug að fara inn en röltum í kirkjugarðinum sem er mjög stór miðað við þá garða sem við höfum farið hjá, afskaplega fallegur kirkjugarður.  Ung kona kom til okkar og gaf sig á tal við okkur.  Hún vinnur á safni þarna.  Smá spjall við hana, stimpill í aflátsbréfið og hún benti okkur á gönguleið meðfram ánni sem þarna rennur og það var gott að losna við umferðina og malbikið.  

Við komum að steinstöpli með merki Olavsvegarins og þar stóð að væru 47 km til Þrándheims - kemur í ljós hvort þetta er rétt.  Leiðin lá núna í gegnum misþétta og gisna runna, fallegt og friðsælt.  Hittum hundaeiganda með Lassy hvolp.  Hann spurði hvaðan við kæmum, hvar við hefðum byrjað að ganga og fleira og fleira.  Smellti mynd af þeim félögum og áfram héldum við og nú kom hver sveitabærinn á fætur öðrum.  Allt svo snyrtilegt og fallegt.  

Tveir litlir kálfar náðu athygli minni - ungviðið er alltaf einstakt, fallegt og yndislegt.  Loksins sáum við Ersgard gististaðinn. Fín gisting, gamalt hús og hér er mikið umlykis.  Laxveiðileyfi seld, hópar í gistingu, já allt mögulegt.  Við gengum aðra 7 km frá Stjordal til Ersgard þannig að 14 km í dag - er bara sátt við það. Ég hef tekið eftir því að það er mikill munur á snyrtimennsku hér í Noregi annarsvegar og Svíþjóð hinsvegar.  Miklu færri yfirgefin hús hér, engir gamlir ónýtir bílar í haugum sjást hérna og einhvern veginn meiri regla á öllu.  

Og svo er þetta með framhaldið hjá mér!  Næstu tvær leiðir eru mikið upp og niður og inni í skógi og það er erfitt fyrir hnéð mitt að ganga þannig.  Svo ég sleppi þeim.  Staðan er því svona:  Ger gengur þessar leiðir en ég tek 5 km göngu í fyrramálið á lestarstöð í litlum bæ sem heitir Hell, samkvæmt mínum bókum er þetta nafn stytting á orðinu hellir og á ekkert skylt við enska þýðingu á þessu orði.  Á morgun á ég bókaða gistingu tvær nætur í Vikhammer.  Þar ætla ég að hvíla fæturnar þar til 22. júní.  Þá ætlum við Ger að ganga síðasta spölinn til Þrándheims, og það á eftir að takast, ég veit það.  En ég verð að sætta mig við að geta ekki gert þessa tvo daga núna, geri mitt besta til að vera skynsöm þó að það sé rosalega erfitt.  Jæja klukkan hér er 17:30 og ég sit hér í sólinni úti.  Styttist í kvöldmatinn og vonandi verður næsti dagur góður fyrir okkur öll.  Í lokin þetta:  "bros er stysta leiðin milli manna" (og ég ætla að brosa á morgun og vona það besta).

Þokkaleg - bara furðanlega róleg og sátt við þessa ákvörðun.

 


Bloggfærslur 19. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband