Framhald frá sunnudegi

Við fórum að borða á veitingastað og fengum okkur bara góðan mat.  Svo fórum við að rölta um bæinn og klukkan sjö römbuðum við á gömlu kirkjuna sem svo er kölluð.  Við fórum inn og þar sátum við notalega helgistund með 19 öðrum kirkjugestum og starfsfólki.  Þar á meðal var ung kona sem spilaði undurfallega á fiðlu og organisti lék undir.  Þetta toppaði alveg endirinn á góðum degi.  Núna er klukkan hálf níu og ég á leið í rúmið og það er eitthvað svolítið spennandi að gerast hjá okkur - kannski viðtal á morgun.  Það gæti verið, þið og við verðum að bíða og sjá.  Góða nótt.


2. júní - sunnudagur

Fyrst langar mig að setja niður falleg orð sem ég sá á spjaldi á leiðinni okkar í gær og þar stóð - snælda fannst 1960 í Lume og á hana var rúnaletur sem þýddi þetta: "peace to who ever wear it, luck for the one who has it" og undir var skrifað Ingevald.  Ég varð bara að setja þetta hér inn - finnst þetta fallegt.

Jæja eftir langan svefn og hvíld fengum við morgunverð klukkan átta í fallega eldhúsinu á Sörbeygarden.  Allt gert svo fallega fyrir okkur af ungum hjónum sem eru nýbúin að kaupa þennan stað.  Þarna var áður einhverskonar hestabúgarður og þar voru meðal annars íslenskir hestar.  Sólin skein við okkur er við lögðum af stað en golan var köld.  Storsjöen var mestan hluta göngunnar með okkur og það var notalegt að heyra gjálfrið í vatninu á leiðinni.  

Nú var mikið útsýni, lítið um skógarrölt og ýmist voru stígarnir steyptir eða malargötur.  Það er alveg ótrúlegt hvað það er VONT fyrir fæturna mína að ganga á steypunni - allskonar stingir og verkir poppa upp.  Þá seilist ég í vasann, ein eða tvær hvítar gleyptar og svo smá lagast þetta.  Á leiðinni í dag blöstu við okkur fallegir sveitabæir, lítil þorp, vatnið stóra og mikla.  

Nú fórum við að sjá fleira fólk á gangi með hunda, börn í kerrum, hlaupandi fólk á öllum aldri og þónokkrir heldri borgarar brostu fallega er við gengum hjá - hey hey var kveðjan yfirleitt sem við fengum frá þeim.  Þegar við vorum eitt sinn alveg komin nálægt vatninu sáum við mann koma út úr bíl með golftösku.  Hann tók kylfurnar sínar upp úr töskunni og lagði þær í flæðarmálið og vatnið gutlaðist upp á miðjar kylfur.  Þetta skildi eftir spurningu í höfðinu á mér. Hvað er hann að gera?  Þvo kylfurnar eða???  Allavega vissi hann alveg hvað hann var að gera, það sást á öllu og hann var bara kátur, kallaði til okkar eitthvað sem ég skildi ekki.  

Á leiðinni í dag tókum við eitt hvíldarhlé við vatnið því þetta var stuttur dagur og sólin vermdi okkur þó að hitinn frá henni kæmi í bakið.  Og nú blasti Östersund bærinn við okkur.  Fallegur, stendur í hlíð eða hæð eða kannski undir litlu fjalli og tré allt í kring.  

Við stefndum að kirkjunni sem er víst nefnd hérna Stóra kirkjan.  Já hún er stór og hún er falleg og þegar við gengum upp tröppurnar til að athuga hvort hún væri opin kom aðvífandi að okkur enn einn vinur pílagríma.  Kona á besta aldri hvatti okkur til að koma inn, vildi endilega að við kæmum inn.  Það var messa í gangi og langt liðið á hana, við settumst niður og nutum.  Og þarna gat ég raulað með, Ó heyr mína bæn.  Þetta var bara notalegt.  

Og í altarisgönguna fórum við þó við værum ekki í sunnudagsfötunum.  Eftir messuna var okkur boðið í kaffi og brauð - allir svo elskulegir.  Presturinn sem heitir Hanna hefur starfað þarna í fimm ár og kom og heilsaði upp á okkur og spurði um ferðalag okkar.  Fannst þetta merkilegt að við ætluðum að ganga alla leið til Þrándheims.  Hún sagði mér að hún þekkti tvo presta á Íslandi, þær Örnu og Guðrúnu Karls.  Gaman að þessu.  

Við vorum bara fjarska glöð þegar við héldum síðasta spölinn að gististaðnum.  Vorum komin þangað korter fyrir eitt og gengum inn í Ledkrysset hostel og það var gott að vera með einn svona stuttan dag.  Það voru aðeins litlir 14,1 km.  Það sem eftir lifir af deginum ætlum við að kíkja í miðbæinn og skoða mannlífið.  Og í dag á hann Ingi Ragnar minn ömmstrákur 18 ára afmæli og hann fær hamingjuóskir og hlýjar kveðjur frá ömmu.  Í lokin þetta:  "við þiggjum með því að gefa".

Létt yfir konunni á sólríkum degi 


Bloggfærslur 2. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband