5. júní - miðvikudagur

17,8 kílómetrar - tólfti dagurinn.  

Við gengum frá Vaplangord til Wangen, tveimur kílómetrum áður en við komum að Alsen.  Í gærkvöldi borðuðum við með Doris og Lars, hjónunum sem við gistum hjá og Göran, bróðir Lars, bættist í hópinn.  Þetta varð hið skemmtilegasta matarboð, kjötbollur úr Elgskjöti - smakkaðist vel.  Það var margt spjallað, þau hjónin búa á jörð sem langalangafi Lars átti og hér eru mörg stór hús, mikið af þeim eru í niðurníðslu en þau hjónin eru smám saman að endurgera húsið sem þau búa í og við gistum í.  

Það var farið á kristilegum tíma í rúmið, um níuleytið.  Svaf eins og engill og vaknaði undir morgun við sólina.  Það var ekkert stress á mér en við áttum morgunmat klukkan átta.  Allt var uppdekkað, allt til alls og meira en það því þau buðu okkur að taka með nesti.  Elskuleg hjón, kát og hress.  

Lögðum í hann klukkan hálf níu í kyrru, hlýju og fallegu veðri - stuttur dagur, 17,8 km.  Þegar við komum að gatnamótunum komum við að E14 hraðbrautinni og næstu kílómetrarnir voru á hraðbrautinni.  Úff en gott að fá malbikið í byrjun áður en þreytan segir til sín.  Við komum að skilti við veginn sem á stóð Islands hastar.  Þetta skilti benti á bæ sem stóð uppi í hlíðinni og þar býr íslendingur sem eftir því sem ég best veit heitir Guðmundur Einarsson, þarna býr hann með konu sinni og rekur þarna tamningarstöð.  Þetta er stærðarinnar býli, útsýni vítt og breitt, græn tún og fallegar byggingar.  Þessi bær er ekki langt frá Valne sem leið okkar lá um í dag. Ekki hitti ég þennan Gumma en íslensku hestana sá ég og það virtist fara vel um þá.  

Kílómetrarnir fimm á malbikinu voru tilbreytingarlitlir en þó sáum við eitt og annað sem gladdi augun.  Býflugur þeyttust um á milli blóma og hávaðinn eins og í þyrlu, þvílík læti, og stærðarinnar hlussur voru þær.  Fuglar syngja fyrir okkur alla daga í trjánum og nú erum við farin að sjá fjöllin, sem voru í fjarska fyrir nokkrum dögum, færast nær.  

Jæja eftir 5 km komum við að mjúkum stígum.  Til þess að komast þangað urðum við að ganga dálítið upp í móti og nú kom hin eina sanna Hvítárbakkaþrjóska í ljós, sem betur fer.  Ger vildi fara malbikið áfram, það væri styttra en ég sagðist heldur vilja góða stíga sem væru eitthvað lengri og hafa fæturna í lagi í stað þess að þurfa ef til vill að hætta eða hvíla einn dag eftir að ganga á malbikinu.  Hann sættist á þetta og sá ekki eftir því í lok göngunnar.  Þetta var frábært göngusvæði, bæir, skepnur á beit, hundar geltandi, galandi hanar og undurfallegt folald.  Allt var þetta á leiðinni minni.  Komum að litlum kofa í skóginum og þar héngu Elgslappir uppi (mynd af þessu fylgir í albúminu).  Sólin skein af og til, dögg í grasi, skóför og hjólför í moldinni, þögn í kyrrðinni.   Já það er bara alls ekki hægt að lýsa þessu, maður verður að upplifa það.  Á einu enginu sem við gengum hjá reyndi ég allt hvað ég gat til að finna fjögurra blaða Smára en það gekk ekki þó nóg væri af Smárunum um allt.  

Það var mjög hlýtt í dag þó ekki væri sól stanslaust og ég var meiripartinn af deginum á stuttermabolnum.  Ger kappklæddur eins og áður, ég skil ekki hvernig þetta er hægt og hann skilur ekki þetta með mig.  Svolítið gaman að velta þessu fyrir sér.  Jæja það komu dropar úr lofti rétt áður en við komum í náttstað.  

Komin til Wangen sem er bæði hótel, hostel, hús og litlar hyttur.  Þar er fjöldinn allur af hestum og meðal annars íslenskum og þarna gistum við í nótt.  Við áttum að gista í húsi með stúdentum sem hér eru staddir en stelpurnar í mótttökunni og kokkurinn sáu aumur á okkur því eitthvað mikið stendur til í kvöld hjá unga fólkinu og það yrði líklega lítill svefnfriður.  Við fengum því herbergi á hótelinu og morgunmaturinn mun bíða okkar í eldhúsinu því enginn verður kominn á morgunvaktina fyrr en klukkan átta.  Þannig að það verður bara allt sett í eldhúsið fyrir okkur í kvöld - við ætlum snemma af stað á morgun.  Langur dagur bíður okkar frá Vangen sem er uþb 2 km áður en við komum til Alsen og engin gisting er til fyrir okkur fyrr en við komum til Mörsil sem er 28 km héðan.  Svo nú reynir á fallegar hugsanir til okkar elsku þið.  

Nú er klukkan að ganga 8, kvöldmaturinn búinn, allt rólegt hér og fallegt að líta út á Alsen vatnið.  Þessi kona ætlar að ljúka þessu með þessum orðum:  "njóttu augnarbliksins, brostu framan í heiminn og elskaðu af öllu hjarta".  

Sæl, sátt, pínu lúin en á morgun kemur nýr dagur ef Guð lofar.    


Bloggfærslur 5. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband