6. júní - fimmtudagur

Frá Wangen til Mörsil.  Í dag voru það 28,6 kílómetrar.  

Það var glaðasólskin þegar ég vaknaði klukkan 6:15.  Allt gert klárt fyrir langan göngudag.  Morgunverðarborðið var sko vel úti látið - allt fullt af öllu mögulegu.  Það voru þakklátir pílagrímar sem lögðu af stað klukkan 7:15.  Í byrjun var ég í flísinu en það var ekki nema ein klukkustund - þá var það komið í pokann.  Þegar við gengum eftir malbikinu þá var sko flaggað fyrir mér á 6 ljósastaurum.  Já íslenski fáninn blakti fallega og ég held því fram að það hafi verið vegna mín, þó svo að það sé fjöldinn allur af íslenskum hestum á Wangen.  

Jæja leiðin lá til lítils bæjar, Alsen, eftir malarvegi.  Og nú var komið að því, upp og niður dæmi, og þannig var það meira og minna í allan dag.  Ganga upp til þess að fara niður og svo framvegis.  Leiðin var falleg og á hæstu hæðum blöstu við stór vötn, skógi vaxnar hlíðar og fell - fallega lituð hús og sveitabæir, hestar, nautgripir og fiðurfé.  Uglur sá ég fljúga svo fallegar og tignarlegar í loftinu.  

Á leiðinni okkar í dag þurftum við meðal annars að ganga eftir gömlum traktorsvegi, svolítið heimilislegt að sjá svona traktorstroðninga.  Á leið niður traðirnar, niður á E14 hraðbrautina, var kallað á eftir okkur:  "vil du ha kaffe?".  Ég sneri mér við og spölkorn frá stóð eldri maður.  Hann benti okkur á að koma upp eftir til sín og við tylltum okkur niður þarna úti hjá honum.  Þar var hann með borð, stóla, kaffibolla, hitakönnu, te og kaffi.  Svo dró sá gamli upp þessa dásemdar kanilsnúða.  Við Ger þáðum te og ég snúðinn að sjálfsögðu, Ger tók hálfan.  Þarna býr þessi maður aleinn, 79 ára gamall, og hann heitir Bjornfot.  Hann er þarna á stórri jörð með miklu og fallegu útsýni og tvö eða þrjú íbúðarhús þarna.  Við sátum þarna og spjölluðum við hann í hálftíma, hann sýndi okkur myndir, kort og bréf sem hann hefur fengið frá pílagrímum.  Og sá gamli lumar á pínulitlu sauna húsi fyrir utan hjá sér, hann kann að njóta lífsins þessi.  Ger ákvað að taka selfie á fínu myndavélina sína af okkur þremur og þá tók sá gamli sig til og færði stólinn sinn alveg upp að mínum og laumaði handleggnum sínum utan um þessa er hér segir frá.  Þá var brosað í laumi.  Honum var það svosem ekkert of gott að halda utan um mig þarna í smástund.  Góður karl og skemmtilegt að spjalla við hann.  Við kvöddum hann með þakklæti og héldum okkar leið.  

Enn hækkaði hitastigið, nú var það komið í 27 gráður.  Það sem eftir var leiðarinnar skiptust á skógarstígar og E14 og það var farið að styttast í lokin á göngunni.  Það er mér alltaf ótrúlega erfitt að ganga í steikjandi sól og hita.  Svitinn lak af mér og ég var að reyna að drekka vatn og vatnið var bara heitt.  Við vorum búin að bóka gistingu hjá Kerstin Strömberg presti.  Hún starfar sem prestur í Mörsil.  En áður fórum við í búðina því hún var í öfuga átt, við ætluðum ekki að ganga meira en við þyrftum, og versluðum svolítið.  Það eyðist nefnilega af því sem af er tekið, allavega hjá mér, og það er fínt.  

Tylltum okkur niður fyrir utan búðina eftir að hafa verslað og ég úr skónum.  Ég naut þess svo sannarlega í botn að borða ís - já þetta var bara heilög stund eftir allt erfiðið í dag.  Núna erum við komin í gistinguna rétt utan við Mörsil.  Það verður vonandi léttari og kaldari dagur á morgun.  Hér gengu yfir þrumur um allt yfir okkur og allt um kring áðan.  Mér er ekkert sérlega gefið um svoleiðis fyrirbæri - það er gott að þetta er allt yfirstaðið.  Jæja, það verður ljúft að skríða í pokann, hugsa heim og sofna.  Hafið það sem allra best og takk innilega fyrir skrifin ykkar, þið getið ekki ímyndað ykkur hvað það er gott að lesa þetta frá ykkur.  Í lokin þetta:  "að eiga vin er að standa ekki einn þegar eitthvað bjátar á, að eiga vin er líka gleði á góðri stund, gæfa í hversdagsleikanum".  

Þreytt kona í dag, búin að ganga samtals 296 kílómetra. 


Bloggfærslur 6. júní 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband