8. júní - laugardagur

Gengnir voru 23,2 kílómetrar.  Við gengum frá Ristafallet Camping til Stora Are.  

Við nærðumst og klukkan 7:30 var lagt á brattann.  Hlýtt og fallegt og fuglasöngurinn sendi okkur fallega morgunkveðju.  Það var strax upp og meira upp í byrjun - erfitt já - en svo fórum við að sjá yfir landið.  Eftir um klukkutíma vorum við komin upp og þá gátum við séð árangur erfiðisins.  Það var sviti og ör hjartsláttur, sjóðandi fætur í skónum, allt var þetta sem fylgdi en það var gaman að fá að njóta þessa útsýnis sem blasti við okkur.  Ólýsanlega falleg náttúra, tré upp um allar hlíðar og öll fjöll, hús og sveitabæir kúrandi í hlíðunum.  E14 langt fyrir neðan, járnbrautarteinar og Indals áin, skýjahnoðrar á himni og af og til geislar sólarinnar.  Allt þetta fengum við þegar við vorum búin að erfiða þessa morgungöngu.  Við hefðum svo sem alveg getað gengið meðfram E14 umferðinni, stytt okkur leið og losnað við þessar uppgöngur en ég hefði ekki viljað skipta.  Þar að auki var alltaf mjúkt undir fæti, æðislegt, skógarstígar, tún, þéttir runnar, algjör sæla fyrir fætur og huga.  

En svo þurfti að fara aftur niður!  Já það getur nú líka verið erfitt, reynir á hnén og þarf að gæta sín svo ekki fari illa.  Ofan úr hlíðunum horfðum við á Aresjön í þessu dýrðarinnar veðri.  Það liðaðist áfram í fallegri grænni náttúrunni.  Framhjá einum bónabænum sem við gengum var búið að setja upp skilti þar sem var bannað að ganga, pílagrímar og hjólreiðafólk átti ekki að ganga þarna, þannig að við urðum að taka á okkur krók.  Það var svo sem allt í lagi.  Þegar við vorum búin að taka þennan krók á okkur komum við að stóru tjaldsvæði og þar var á stóru skilti auglýst kaffi og allt mögulegt og við ætluðum aldeilis að gæða okkur á því.  En nei, allt lokað.  Ég tók af mér pokann og sagði Ger að ég ætlaði aðeins að hvíla mig, allt í góðu með það.  

Meðan við hvíldum okkur þarna örskamma stund kom til okkar kona sem spurði hvort við værum að ganga Olavsveginn, við sögðum svo vera.  Hún var sænsk og heitir Agneta og hún var búin að taka eina og eina leið en hafði svo tekið strætó eða lest og þannig hafði þetta gengið hjá henni koll af kolli.  Hún var orðin slæm í hnénu og tók því þessa ákvörðun - að dúllast þetta í rólegheitunum.  Eftir svolítið spjall kvöddumst við og við héldum okkar leið og nú var gengið á grjóthörðum - já í alvöru - grjóthörðum malarvegi síðustu kílómetrana til Are.  Á þeirri leið barst ilmurinn af kúamykju sem dansaði til okkar í golunni.  Það var eitthvað svolítið heimilislegt við þetta.  

Og nú var farið að hitna vel.  Já sú gula braust fram úr skýjabólstrunum og skein yfir okkur og allt.  Nú var enginn skógur, bara örmjór stígur til hliðar við E14 - ekkert sérlega hressandi við það.  Are bærinn stendur á óskaplega fallegum stað og þetta er þekktur skíðabær.  Þar hafa meðal annars verið haldin nokkur heimsmeistaramót á skíðum.  Hingað flykkjast íbúar frá Stokkhólmi á skíði - það þykir eitthvað voðalega mikið fínt.  

Nú jæja, það var hvergi pláss fyrir okkar í gistihúsunum niðri í bænum og fengum við gistingu á skíðahótelinu Fjall hotelet sem er í 800 metra hæð fyrir ofan bæinn.  Áður en við fórum þangað var haldið á veitingastað og við fengum okkur að borða ásamt Agnetu, konunni sem gengur þetta í pörtum, hún birtist þarna allt í einu.  Ég var alls ekki tilbúin að leggja á mig 800 metra uppgöngu í þessum hita með pokann á bakinu.  Ger stökk til, stoppaði leigubíl og talaði við bílstjórann og það var samþykkt að hann næði í okkur eftir hálftíma.  Og þetta var nú meiri ökuferðin.  Slönguvegur liðaðist upp fjallið, krappar beygjur, mér leist bara ekkert á þetta.  En upp komumst við heilu og höldnu og inn á hótelið vorum við komin klukkan fjögur.  

Nú er bara verið að hvíla sig, sólin skín hér eins og hún hafi aldrei gert það áður, ég ætla aðeins að kíkja út á eftir.  Á morgun þurfum við að kaupa nesti fyrir fjóra daga því hvergi er hægt að kaupa nesti þessa fjóra daga.  Engar verslanir eða sjoppur, því verður keypt inn og þá þyngist nú pokinn eitthvað.  Er svolítið þreytt í fótunum í dag, læt þessu lokið í bili en annars er ég bara góð.  Í lokin þetta:  "hamingjan vex í okkar eigin garði og hana er ekki hægt að tína í öðrum görðum".

Bara góð - miðað við aldur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband