10. júní - mánudagur

23,4 kílómetrar.  

Við þrjú, ég, Ger og Larry vorum snemma á fótum klukkan 6.  Það lá fyrir að ganga á malbiki í mikilli umferðaræð í mestallan dag.  Frá Tannforsen til Medstugan.  

Við nærðumst og gengum frá í bústaðnum og út í dag sem var grár, þokuslæða til fjalla og smá úði á okkur.  Ég var í úlpu, með buff um hálsinn og ullarvettlinga í allan dag.  Það var vindur, kalt, engin sól, hráslagalegt.  Fólksbílar, húsbílar, mótorhjól og stórir flutningabílar þutu hjá og við máttum sannarlega passa okkur.  Við vorum nefnilega ekki með neinn sérstakan göngustíg í dag, það var bara gatan.  

Útsýni höfðum við í byrjun yfir Tannsjön vatnið sem er mikið fiskivatn og þar voru tveir karlar á sitthvorum bátnum að reyna að fá hann.  Á vegi okkar á leiðinni í dag urðu þrjár hlaðnar steinbrýr frá miðri 18. öld.  Það munu vera til við landamæri Svíþjóðar 20 aðrar álíka brýr.  Ég tyllti mér á eina, einn stöpula á brúnni yfir Asan, en hún var með þrjá boga sem vatn lekur gegnum og er 46 metra löng.  Ég er alltaf svolítið veik fyrir hlöðnum brúm, þær eru svo fallegar og hafa mikla sögu. Ef þær gætu sagt frá.  

Ekki var þessi dagur með mikla tilbreytingu fannst okkur, vegur, endalaus vegur, skógur á báðar hendur þannig að lítið sást.  Hvergi neinir bekkir til að setjast á þannig að Ger bankaði á eitt hús við veginn, hafði komið auga á konu þar fyrir innan og hún bauð okkur að setjast á bekk fyrir utan húsið.  Það var kærkomin hvíld að sitja þar við húsið og borða og láta líða úr sér smá stund.  

Ég get sagt ykkur það að þegar við komum á áfangastaðinn Medstugan klukkan tvö í dag vorum við öll ofboðslega fegin.  Medstugan er fallegur staður, það er snjór í fjöllum ekki svo langt frá okkur, vatn út um gluggann og á liðast niður og við komin inn í hlýjuna.  

Þessi dagur var sá erfiðasti og leiðinlegasti til þessa og vonandi verða ekki fleiri þannig.  Svo bloggið er stutt í dag, vonandi bjartari dagur að morgni með fallegu útsýni.  Hafið það gott elskurnar, hvar svo sem þið eruð, hugsa heim, hlakka til, nú fer þetta að styttast.  Sautjándi dagurinn í dag.  Í lokið þetta:  "leiðin er ekki staður til að masa heldur til að hlusta".

Konan, þreytt í fótum en glöð að enn einn dagur fékkst gefinn. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband