20. júní, fimmtudagur.

Engin ganga hjá mér í dag og á morgun. 

Þegar ég opnaði augun kl. 6. í morgun hellirigndi og þá hætti ég við að ganga þá 5. km sem ég hafði hugsað mér að gera.  Ég talaði við Stein húsráðanda hér og spurði hvort hann vissi um einhvern sem gæti ekið mér til Hell. Það vildi svo heppilega til að hann átti tíma hjá tannlækni kl. 9.45 og ég gæti fengið far með honum. Nú var fyrsta "brekkan" sigruð, ég kann nefnilega ekkert á neitt í sambandi við lestar. Ég kvaddi Ger sem hélt út í rigninguna kl. 7.30.

Og við Stein fórum af stað til Hell kl. 9.20. Þar þurfti ég að bíða í hálftíma, ekkert annað að gera en að njóta sólarinnar sem nú sendi geisla sína til mín. Á lestarstöðinni beið líka ungur maður og ég ákvað að spyrja hann aðeins um þetta lestardæmi. Hann upplýsti mig heilmikið um hvernig þetta virkaði og mér leið mun betur. " önnur brekka sigruð ". Þessi ungi maður var ættaður frá nyrstu héruðum í Noregi og bjó þar til átján ára aldurs og hann langar að heimsækja Ísland. 

Jæja,  inn í lestina komst ég og þá þurfti ég að vita hvenær hún yrði í Vikhammer, en þar ætlaði ég út. Starfsmaður í lestinni sagðist láta mig vita þegar að því kæmi og ég fékk ódýrara far þar sem ég er senior. "þriðja brekkan sigruð ".  Þetta gekk eins og í lygasögu. Og ég fór út á réttum stað,glæsilegt hjá mér og mínum . Nú stóð ég þarna á lestarpallinum eins og ég væri ein í heiminum, hugsaði svolítið og hringdi í Olav bónda og hann sagði mér að bíða við Coop verslunina uns hann kæmi.  "fjórða og síðasta brekkan sigruð ". Og ég var bara þokkalega ánægð með mig. 

Bærinn þeirra hjóna   Olavs og Teresu stendur hátt uppi yfir Vikhammer og mikið var gott að þurfa ekki að ganga þangað. Afi og amma Olavs bjuggu þarna og svo tóku foreldrar Olavs  við og þegar Olav tók við af þeim fluttu þau gömlu í lítið fallegt hús hér á jörðinni. 

Hér er ekki lengur hefðbundinn búskapur, heldur er búið að innrétta stóran íþróttasal á eftir hæð gripahúss sem áður var og neðri hæðin er bæði með stórt eldhús og svefnpokagisting.

Þau hjón eru bæði kennarar og eru með börn og unglinga í sérkennslu , krakka sem ekki aðlagast hinu venjulega skólakerfi. Þau nota hesta sem þau eiga við kennslu og ýmsar óhefðbundnar leiðir til að ná til krakkanna. Hér eru allar byggingar mjög fallegar og vel hugsað um allt, ekki erfitt að koma auga á það. Og útsýnið er ótrúlega fallegt, Þrándheimsfjörður og byggðin í Vikhammer, já það er hægt að gleyma sér hér. 

Ég fékk litla hyttu  - en það varði aðeins í nokkra klukkutíma, Olav hafði tvíbókað og nú var þriggja manna "hópur" kominn og að sjálfsögðu flutti ég mig bara í litinn sal, þar verða fjórir pílagrímagöngur í nótt og allt í góðu með það. Olav var alveg miður sín, alltaf að koma til mín og biðjast afsökunar á þessu. Það fjölgaði sem sagt um Kirsten frá Þýskalandi,  Maríu frá Svíþjóð og Larry títtnefnda  frá USA. Og í litlu hyttuna komu þrír pílagrímar frá Hollandi, Daniela, maðurinn hennar og ung stúlka með þeim. Við hittum Daníelu í Munkeby og hin tvö komu og hittu hana fyrir tveimur dögum. Larry varð heldur betur undrandi þegar hann sá mig hérna, því ég var einum degi á eftir honum samkvæmt planinu. 

Við settumst öll út í sólina og spjölluðum og við erum full tilhlökkunnar að ljúka göngunni. 

Olav bóndi ók göngufólkinu svo niður í bæ, þar var verslað og keyptar pizzur enda flestir svangir. Og Daniela hin hollenska bað manninn sinn um að senda mér orku til að reyna að laga hné mitt,(hann er einhvers konar heilari),hann lagði hendur sínar um hnéð í einhverja stund en ég er ekkert betri. En vill maður ekki reyna ALLT ef maður finnur til??

Og kvöldinu lauk með því að Olav kom með langan járnrörbút og lét heilarann hafa. Hann tók sig til og spilaði á bútinn, bara líkt og þeir gera í Perú. Þetta var skemmtileg og það var farið snemma í rúmið eftir ljúfa tóna.

Á morgun verð ég ein eftir, hin ljúka göngunni en ég bíð eftir Ger.

Gott að hvílast, góður dagur að kveldi kominn. 

Í lokin þetta: Dagurinn í gær er liðinn, morgundagurinn er vonandi óvænt ánægja. Dagurinn í dag er gjöf.

Ein sem hlakkar til að sjá ykkur. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband