22. júní - lokadagur.

Það var farið snemma í háttinn í gærkvöldi,  19.30. Og ég svaf vel til 06.30.  Þá var tekin tími í að koma sér á fætur, hægt og rólega. Tók nokkur dansspor fram og tilbaka til þess að koma sársaukastuðlinum á hnénu mínu í eins gott horf og hægt var. 

Eftir smástund skrölti ég um,  nærðist og gekk frá dótinu í pokann. Það var þokkalegt veður,  vindur og sól af og til  en dökk ský vofðu yfir.

Við Ger lögðum af stað o8. 30,  hann var búinn að finna leið sem gæti stytt leiðina úr 16.km í 14. km, munar um það þegar hvert skref er erfitt.  Leiðin okkar á þessum síðasta degi  var úr einum bænum í annan, eða kannski bara úr einu úthverfi í annað.  Malbikið var að mestu undir fótum og ég orðin sjóuð með það að undirlagi.

Við röltum þetta í rólegheitunum, aðeins tekið vatnssopastopp í strætóskýlum, og haldið áfram. Ég tók ekki áhættu á að setjast, þá væri ekki öruggt að ég héldi áfram. En það hvarflaði nú að mér þegar ég sá strætó að "hoppa" um borð, (mjög  freistandi), en Hvítárbakkaþrjóskan réði miklu um að það var ekki gert.

Kl. 12.30, já  eftir rúmlega 4. klst. göngu komum við að Niðarósdómkirkjunni og það var mikið glöð,  meir og þakklát kona sem stóð við steinstöpulinn með tölunni 0. á, ég var komin á leiðarenda og þetta hafði tekist.

 Eftir stund á torginu héldum við á pílagrímaskrifstofuna en hún var lokuð til kl.14.00. Við settumst því niður í setustofu pílagríma og hvíldum okkur.  Og þar birtust þau hollensku og það var skemmtilegt, spjölluðum og drukkum te. Ekki löngu síðar kom Larry og var glaður að fá gleraugun sín. 

 Klukkan tvö fórum við inn á skrifstofuna  fengum stimpla í vegabréfin okkar og aflátsbréfin góðu og ég stakk títuprjóni á Ísland á heimskortinu sem hékk uppi á vegg. Og þessi prjónn var sá eini sem kominn var á landið mitt eins og 2017, ekki margir landar að þvælast þessar leiðir gangandi.

Að þessu loknu fórum við á gististaðinn, sturta og hvíld í góða stund og kl.18.00 var pílagrímahelgistund í kapellu Niðarósdómkirkjunnar. Falleg og góð stund, 18 pílagrímar luku mislöngum göngum á  föstudag og í dag  frá 12 löndum,  nöfn landanna lesin upp og alltaf fer einhver sælutilfinning um mig þegar nafnið á landinu mínu,Ísland hljómar. 

Við Ger héldum að þessu loknu á veitingastaðinn sem við borðuðum á síðasta kvöldið fyrir 2 árum en þá vorum við þar ásamt Daníel frá Sviss og Lárusi mínum besta.

Þarna sátum við nú tvö, við sama borðið og 2017, borðuðum ljúffengan mat og rifjuðum upp ferðalagið.

Þessi dagur hefur verið takmarkið frá upphafi göngunnar  sem hófst 25. maí.  29 dagar að baki, hér verð ég fram á þriðjudag en þá tek ég flugið til Stokkhólms og verð þar í dekri í nokkra daga í góðum félagsskap. 

 

24. júní. 

Mér líður betur í hnénu eftir að hafa fengið sterk lyf og áburð og svo er ég ekki að burðast lengur með pokann á bakinu. 

Að lokum þetta:  Dag í senn, eitt andartak í einu,eilíf náð þín faðir gefur mér. 

 

Þakka ykkur sem hafið fylgt mér hér fyrir samfylgdina. Það var gott að vera ykkur samferða. 

Sjáumst síðar  - takk, takk.

Hamingjusöm göngukona.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með að vera búin að ljúka þessu mín kæra.

Allt er gott sem endar vel eða sææmilega.

Vertu velkomin heim í heiðardalinn aftur vonandi ferðu að róast úr þessu.

Kveðja vinkona Helga.

Helga Jörgensen (IP-tala skráð) 24.6.2019 kl. 15:24

2 identicon

elskuleg, hvort sem það var Hvítárbakkaþrjóskan eða eitthvað annað, þá óska ég þér innilega til hamingju með að hafa náð lokamarkinu. þú ert sannarlega hetja... og svo þarf að skoða þetta hné þegar þú kemur heim. Ljúfar kveðjur yfir hafið...

Birna G. Konráðsdóttir (IP-tala skráð) 24.6.2019 kl. 16:41

3 identicon

Til hamingju með árangurinn duglega stelpa og hvíldi þig nú vel á eftir.

Sigga H (IP-tala skráð) 24.6.2019 kl. 21:50

4 identicon

Glæsilegt systir góð💖💖

gunnþórunn gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 25.6.2019 kl. 13:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband