27. maí - mánudagur

Þegar ég leit út í morgun kl 7 skein sólin yfir allt og það var stafalogn.  Við fengum okkur morgunmat, reimuðum á okkur skóna, pokinn settur á bakið - úff aðeins þyngri en í gær.  Nestið tekur sinn toll - ójá - en ef ekkert er etið og drukkið þá verður engin ganga.  

Lagt af stað klukkan 8:20.  Við gengum með Ljungan ánni, alger kyrrð og villt blóm við veginn.  Falleg eru þau mörg blómin og mikil litadýrð í görðum við hús á leiðinni.  Það hefur vakið spurnir hjá okkur hversu lítið við verum vör við fólk svona hér og þar.  Veltum því fyrir okkur hvort allir væru í vinnu eða bara inni.  Í dag gengum við miklu meira inni í landinu í sveitum og það er næstum eins og enginn búi á bæjunum.  Svo rákumst við á tvo eða þrjá sem gáfu sig á tal við okkur.  Alltaf gaman að hitta fólk og spjalla.  En það er mikið um það að bílstjórar sem aka framhjá okkur veifi - það er skemmtilegt.  

Um hádegisbil sáum við stóra byggingu í fjarska umlukta trjám og sólin skein yfir allt.  Ég ímyndaði mér náttúrulega að þetta væri einhver höll sem kóngurinn ætti kannski.  En á leið okkar var maður sem tók okkur tali og við spurðum hann um þetta stóra hús.  Hann sagði okkur að þetta hefði verið notað sem hús fyrir geðsjúka og þeir sem þarna voru og gátu unnið fengu vinnu á bóndabænum við hliðina.  Hann sagði að það hefði verið gott fyrir fólkið að vinna og þarna hefði þeim liðið vel.  En þessi staður var lagður niður 1985 og núna er rekið farfuglaheimili þarna.  Við ákváðum því að kanna málið um leið og við gengum framhjá bóndabýlinu.  Og viti menn, þarna var ungt fólk sem tók elskulega á móti okkur.  Gaf okkur kaffi og vildi allt fyrir okkur gera.  Það var sko vel þegið að fá kaffi því ótrúlegt en satt höfðum við ekki drukkið kaffi síðan á flugvellinum í Stokkhólmi.  Eingöngu drukkið te og stöku bjór.  Þarna settumst við út í blíðuna með kaffið góða og fengum okkur af nestinu okkar.  

Að lokinni góðri hvíld var haldið aftur af stað og ekki var laust við að heyrðust smá stunur og stirðleikinn var auðsjáanlegur eftir setuna.  Allt fór þetta þó batnandi og á leið okkar urðu svanir og mávar, hestar og hænur, geltandi hundar í búrum (sem betur fer því ekki voru þetta allt smáhundar).  Nú fór leiðin að styttast og á leið okkar urðu heilu akrarnir af fíflablómum (þorði ekki að skrifa fíflum - gæti misskilist).  Og þetta var fallegt þó ég sé ekkert sérlega hrifin af þessari jurt.  

Í dag var undirlag fótanna 60% malbik eða harður jarðvegur en afgangurinn möl og skógarstígar.  Við komum til bæjarins Fransta um klukkan hálf fjögur.  Rukum í búðina og keyptum í matinn og einn 3,5%.  Þegar við komum út úr búðinni kom smá demba, alltaf heppin hún ég, kemur á réttum tíma.  

Og núna erum við í því flottasta sem ég hef gist í - heil stór hæð fyrir okkur.  Uppábúin rúm, handklæði, þvottavél og þurrkari, já bara að nefna það - við höfum það í Villa Stenhuset Kantofsgatan 11.  Þetta er aldeilis dásamlegt að vera hérna.  Jæja, nú fer að halla á daginn.  Ég er tveimur tímum á undan ykkur heima og ég fer alltaf snemma að sofa.  Í dag gengum við 26,6 kílómetra. 

Og meðan ég man, ég er búin að segja íbúunum upp húsnæðinu (blöðrunum).  En þegar ég kíkti eftir göngu dagsins var einn íbúi mættur óboðinn.  Hann var snarlega fjarlægður úr íbúðinni og vonandi fæ ég frið fyrir þeim það sem eftir er.  

Jæja elsku þið sem lesið bullið í mér, hugsið bara hlýlega til mín, þá veit ég að þetta verður í lagi.  Hafið það gott og í lokin þetta: "Sumarblærinn blíði hann beri til þín inn, frá mér kærsta kveðju og koss á vanga þinn."

Sátt kona og þreytt á Olavsvegi. 


Bloggfærslur 27. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband