Föstudagur 31. maí

Góðan daginn héðan frá Viking Camping í Gallö.  Klukkan er 04:30 þegar ég skrifa þetta.  Sólin vakti mig og hún skín hér yfir vatnið beint á gluggann á litla sumarhúsinu.  Svo nú verður lesið eitthvað um leiðina sem verður verkefni huga og fóta í dag.  Meira skrifað í lok göngudags, ætla að reyna að sofna aftur.

 

Jæja eftir að hafa upplifað sólarupprásina í nótt tókst mér að sofna aftur eftir að ég hafði farið út og tekið sólarmynd.  Í gærkvöldi hellirigndi hérna og þá var enn eitt samtal tekið við þann sem fylgir mér.  Ég vaknaði klukkan korter fyrir sjö og allt gekk sinn vanagang nema nú lögðum við í hann klukkan 7:45.  Það var kalt, 5 stiga hiti og kaldur vindur en það var þurrt, já ég var bænheyrð.  Við höfðum hugsað okkur að koma við í einu búðinni í Gallö en hún opnaði ekki fyrr en klukkan 9.  Og við vorum þar klukkan 8.  Nú voru góð ráð dýr:  bíða - eða halda áfram.  Það var haldið áfram.  

Fyrstu kílómetrarnir voru á malbiki en svo tók við malarstígur og tré á báða vegu.  Þau skýldu okkur þó að nokkuð vel fyrir vindinum.  Og þau héngu yfir okkur í langan tíma mörg dökk ský,léku sér á himninum og svo kom smá skúr.  Við tókum engan séns, fórum í regnbuxurnar, ullarvettlingarnir á hendurnar mínar og húfa ofan í augu.  Já það var ansi napurt og ótrúlegt en satt, það kom haglél.  Ég fór nú bara að hlæja, sólin heima á landinu mínu og ég hér í hagléli í Svíþjóð.  En sem betur fer var þetta bara smá sýnishorn, en vindurinn hvarf ekki.  Alltaf þegar við komum niður úr skóginum og að Anvik vatni var ískalt.  Og vötnin hér eru stór og löng og því var oft kalt á okkur.  Við hittum elskuleg hjón sem gáfu okkur gott ráð, ganga malarveginn, ekki með vatninu.  En það voru þessar tvær leiðir sem við gátum valið um og voru c.a. 5 km.  Ég var bara kát með að ganga malarveginn því hann lá að mestu í gegnum skóg og þá var skjól.  Sólin sýndi sig af og til og það var gaman að sjá og finna geislana milli trjánna.  

Um klukkan 10 komum við að kirkjunni í Revsund.  Falleg kirkja á fallegum stað.  Við gengum í kringum hana en allar dyr læstar. Þá kallaði til okkar maður sem var að vinna í skúr rétt við kirkjuna og spurði hvort okkur vantaði vatn. Hann sagði okkur að það væri ekki óhætt að drekka vatnið sem væri úti í garði í krananum.  Nei okkur langaði bara að skoða inn í kirkjuna sögðum við.  Hann var svo elskulegur að opna fyrir okkur, sagði að kirkjan tæki um 600 manns í sæti og við skyldum bara hafa allan þann tíma sem við vildum.  Það skorti ekki plássið fyrir okkur!  Ekki get ég neitað því að það var gott að koma inn í hlýjuna.  Kirkjan er alveg ótrúlega stór og hún var byggð aftan við kirkju sem þarna stóð, en sú kirkja er ekki lengur hér.  Í nýju kirkjunni er altari úr gömlu kirkjunni sem er alveg með ólíkindum fallegt, ég var alveg bergnumin.  Þarna var gott að vera og við tókum okkur langa pásu.  Fengum okkur að borða áður en við fórum út í rokið, kvöddum manninn góða og héldum af stað.  

Og nú tóku við stígar sem voru upp og niður, upp og niður.  Mjúkir voru þeir en einhvern veginn endalausir.  Ég varð að hafa augun opin svo ekki rækjust fætur í tré eða rætur eða annað sem er á skógarstígum.  Við komum síðan að svæði sem var allt niðurrifið.  Öll tré höfðu verið söguð niður örugglega fyrir löngu, löngu síðan.  Þarna var einhvern veginn grár litur á öllu.  Dálítið skrítið að ganga í gegnum þennan "ekki skóg".  Þarna á göngustígunum urðu á vegi okkar margir glitrandi bleikir steinar.  Ég hefði svo verið tilbúin að taka einn með mér handa litlum steinasafnara, en þeir voru allir svo stórir og þungir.  

Eftir þessa gráu trjáboli komum við að stóru engi.  Iðagrænt og fallegt og bíður eftir að láta slá og heyja.  Þar í skógarjaðrinum dálítið frá okkur stóð fallegt dádýr og sólin skein svo fallega á það.  En dádýrið var ekki lenga að láta sig hverfa þegar það kom auga á okkur, stökk fimlega inn í skóginn.  

Enn var sami kuldinn á okkur og við stoppuðum því ekki nema einu sinni eftir kirkjuheimsóknina.  Þa uppi í skógi stóð gamalt hrörlegt kofaræskni með smá verönd fyrir framan, borði og bekk.  Ekki sérlega spennandi en það veitti skjól.  Svo lá leið okkar niður á við og ég varð einhvern veginn á undan Ger.  Ég sá að hann var eitthvað upptekinn við símann sinn svo ég hélt bara áfram niður á við niður að vatni.  Þegar ég er komin niður á veg eru tveir slóðar sem lágu í sitthvora áttina.  Annar slóðinn var með merki Olavsvegarins en hinn var merkjalaus.  Ég tók straujið á merktu leiðina og var komin svolítinn spotta og ekki birtist Ger.  Þá byrja ég að kalla og hann svaraði í fjarska.  Ég gekk því til baka að vegvísinum og þá kom karlinn til baka frá ómerktu leiðinni.  Hann sagðist ekki hafa séð neina merkingu. Ég benti honum á merkið rétt fyrir framan hann, æji sagði hann, ég var að skoða símann minn og tók ekki eftir merkinu.  Ótrúlegur að lesa á símann sinn, feisbúkkina, það var það.  Ég bað hann vinsamlegast að lesa ekki á símann á meðan hann væri á göngu.  Það er hættulegt og síminn getur alveg beðið og þetta er algjör óþarfi.  Hann tók þessu öllu vel og við hlógum bara að þessu.  

Og nú vorum við komin til gististaðarins sem er Pilgrimstade.  Þangað vorum við komin klukkan tvö og 21 km að baki.  Þó dagleiðin væri ekki löng þá var hún upp og niður, mikill vindur og kuldi og það var það sem gerði þetta ef til vill erfiðara.  En svona bara til að lofa ykkur að vita, þegar við vorum komin í hús þá kom rigningin - æðislegt.  Sjöundi göngudagurinn að baki og allt í lagi með heilsufarið.  Við erum búin að panta okkur gistingu á morgun og sunnudaginn.  Og hér er yfirleitt beðið um greiðslur í peningum - á flestum stöðum.  Þeir eru ekkert hrifnir af því að taka við kortum.  Svo nú þarf að bæta við seðlum þegar við finnum banka eða hraðbanka, þeir eru nú ekki á hverju strái hér.  Við alltaf í sveitinni - Innland, eins og einn Svíi sagði við okkur í dag:  "þið eruð Innland".  

Í lokin þetta:  "hlýddu á veröldina í kringum þig, hlýddu á sál þína, hlýddu á Guð".

Góða nótt þið sem þetta lesið og hjartans þakkir til ykkar sem nennið að senda mér línu á bloggið mitt.  Það er mikið gott og gaman að lesa.  

Veðurbarna konan á veginum.


Bloggfærslur 31. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband