29. maí - miðvikudagur.

Borgsjö til Kungsstugan.  Í dag gengum við 21,5 km.  

Sú er þetta ritar vaknaði nokkrum sinnum síðastliðna nótt við það að það hellirigndi.  Ekki beint spennandi en ég sendi "ferðafélaganum" sem fylgir mér og verndar mig smá skilaboð í huganum að þetta blauta sem kemur að ofan yrði búið klukkan átta.  Klukkan sjö var allt gert klárt, allt blautt úti en engin rigning, so far, so good.  

Þessi leggur sem við göngum í dag hefur þá ókosti að það er ekki um neina gistingu að ræða í lokin.  Aðeins gamalt yfirgefið hús, ekkert vatn eða rafmagn og þar af leiðandi enginn hiti.  Þarna inni eru bara fjögur rúm, tveir stólar og borð og ekkert annað.  Salerni einhversstaðar langt í burtu.  Og þar sem ég er nú uppi á þessari öld, búin að ganga langa leið í dag þá ákváðum við félagarnir í gönguhópnum þetta (og þetta var ákveðið í gær þegar við fengum upplýsingarnar um þennan stað): Dagurinn á morgun frá Kungsstugan til Bracke er ekki neitt spennandi en hann er 22 km og því verðum við sótt í þetta gamla hús og okkur ekið 22 km til Bracke.  Já þetta er kannski talið að við séum að svindla, so what, ég er nú orðin 68 ára.  Við gistum allavega ekki hér í Kungsstugan.  Ég sit þar inni í þessu gamla, kalda og hráslagalega húsi og við bíðum eftir því að verða sótt.  

Nú jæja, koma sér að því sem gerðist í dag.  Okkur leið bara vel þegar við lögðum af stað klukkan 8:05.  Þessi dagur bauð í byrjun upp á mjúka fallega stíga gegnum skóga og runna.  Svo tók við ganga meðfram óslegnum túnum en það var búið að slá braut fyrir okkur, ójá alveg dekrað við mann.  Rigningin hékk yfir allt um kring og sólin braust út á milli.  Og það blés heldur hressilega og hitastigið var ekki hátt, þetta var eins og íslenskt haustveður.  Sem betur fer hafði ég haft vit á að setja á mig húfuna og vettlingana áður en ég lagði af stað í morgun.  

Á einum stígnum okkar inn á milli trjánna komum við auga á dádýrskálf - fallegur. Hann horfði til okkar með þessum stóru fallegu augum sínum og tók svo á sprett inn í skóginn.  Allur göngudagurinn í dag var eingöngu á náttúrunnar jarðvegi.  Ótrúlegt hvað það munar miklu fyrir fæturna.  Í löngu matarstoppunum okkar, sem eru kannski 20 mínútur/hálftími, þá ríf ég mig úr skónum.

Og á leiðinni í dag kom ég að steininum Rassfar.  "Rassfar í steini" er bók með þessum titli sem kom út og er held ég eftir Jón Björnsson ef ég man rétt, en hann hjólaði þessa leið.  Svolítið gaman að finna þennan stein og upplifa rassfar í steini, (rassfar Ólavs helga) segir sagan.  

Jæja bíllinn kom að sækja okkur á Highway E-14 klukkan hálf fjögur.  Hann ók með okkur á 120 km hraða á Hótel Jamtkrogen.  Æðislegt lítið hótel og kostar 5500 krónur með morgunmat.  Góð og heit sturta, engir nýjir "íbúar" á ferðinni en aðeins hefur fjölgað hólunum á hausnum.  En þetta er ekkert sem pirrar mig - þetta hverfur.  Og nú á að kaupa sér að borða og eftir það verður farið í Coop og verslað nesti fyrir morgundaginn.  

Jæja, allt er þetta gott og allt í lagi, mér líður vel og ég vona að þið hafið það gott elskurnar til sjávar og sveita.  Bara sátt og hress eftir daginn.  Og í lokin þetta:  "Skógurinn í kringum heimili okkar er einnig jörðin að vakna"

Rúna, búin að ganga í 5 daga, bara þokkalega hress 


28. maí - þriðjudagur

19 kílómetrar í dag.  Gengum frá Fransta til Traporten í Borgsjö.  

Jæja eftir aldeilis dásemdar svefn var drattast á fætur um sjöleytið.  Blautt úti - hafði greinilega hellirignt.  En vitið þið bara hvað!  Það rigndi ekki meira þennan dag - ég er svo lánsöm.  

Við tókum því rólega og lögðum af stað klukkan 9:05.  Í þrjá og hálfa klukkustund nutum við þess að ganga á mjúkum - já undirmjúkum skógarstígum, með á aðra höndina fallega rennandi á og hina tré upp um allar hlíðar.  Þetta var alveg ótrúlega gott og morguninn var meira og minna genginn í þögn.  

Þegar við lögðum af stað í morgun vorum við mjög vel dúðuð - áttum von á rigningu og kulda.  En það leið ekki á löngu uns íslenska konan fór úr flísinu og var á stuttermabolnum innan undir þunnri úlpunni.  Sá hollenski var hinsvegar áfram í þrennum langerma peysum og skildi ekkert í termostatinu hjá mér hahaha.  

Við stoppuðum annað slagið, svona á eins og hálfs til tveggja tíma fresti.  Fengum okkur að drekka og borða og svo var stoppað inn á milli og teknar myndir.  Fallegar sveitir umluktu okkur í allan dag og nú fórum við að sjá meira líf í kringum bæina.  Það var hlýtt og lognmolla á göngunni og við tókum okkur tvisvar það bessaleyfi og fórum að sumarhúsum sem urðu á vegi okkar, bönkuðum á dyr og kíktum inn um glugga.  Já, af hverju vorum við að þessu?  Okkur vantaði hvíldar og nestisstað og á báðum þessum stöðum: örguðu bekkirnir við bústaðina á okkur.  Gaman að hafa smá spennu í þessu.  En auðvitað skildum við vel við - allt rusl tekið með í bakpokanum.  

Klukkan tvö komum við til lítils bæjar, Borgsjö, og fengum gistingu í litlu sumarhúsi - bara fínt.  Æðislegt að komast í sturtu og stinga á einum íbúa.  Tvö flugnabit er ég búin að fá - hlýtur að vera svona gott bragð af mér því ég bryð Nelfast töflur eins og enginn væri morgundagurinn hahaha.  Núna sitjum við á veitingastað, þeim fyrsta sem við komum á, og ætlum að fá okkur eitthvað gott að borða og hér er eina nettengingin í bænum.  

Úti er blankalogn og klukkan er fimm.  Að sjálfsögðu er ég þreytt eftir hvern dag en það er allt í lagi með mig.  Dag í senn - það er það sem gengur á svona ferðalagi.  "Ferðafélaginn" minn góði sem alltaf heldur utan um mig gengur með mér.  Sendi ykkur hlýjar kveðjur og takk fyrir kveðjurnar ykkar á blogginu - þær ylja og uppörva.  Þar til næst:  Horfðu vel á hvern göngustíg og spurðu sjálfa/n þig aðeins einnar spurningar: hefur þessi stígur hjarta? 

 

Þakklát kona á veginum


Bloggfærslur 29. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband