28. maí - þriðjudagur

19 kílómetrar í dag.  Gengum frá Fransta til Traporten í Borgsjö.  

Jæja eftir aldeilis dásemdar svefn var drattast á fætur um sjöleytið.  Blautt úti - hafði greinilega hellirignt.  En vitið þið bara hvað!  Það rigndi ekki meira þennan dag - ég er svo lánsöm.  

Við tókum því rólega og lögðum af stað klukkan 9:05.  Í þrjá og hálfa klukkustund nutum við þess að ganga á mjúkum - já undirmjúkum skógarstígum, með á aðra höndina fallega rennandi á og hina tré upp um allar hlíðar.  Þetta var alveg ótrúlega gott og morguninn var meira og minna genginn í þögn.  

Þegar við lögðum af stað í morgun vorum við mjög vel dúðuð - áttum von á rigningu og kulda.  En það leið ekki á löngu uns íslenska konan fór úr flísinu og var á stuttermabolnum innan undir þunnri úlpunni.  Sá hollenski var hinsvegar áfram í þrennum langerma peysum og skildi ekkert í termostatinu hjá mér hahaha.  

Við stoppuðum annað slagið, svona á eins og hálfs til tveggja tíma fresti.  Fengum okkur að drekka og borða og svo var stoppað inn á milli og teknar myndir.  Fallegar sveitir umluktu okkur í allan dag og nú fórum við að sjá meira líf í kringum bæina.  Það var hlýtt og lognmolla á göngunni og við tókum okkur tvisvar það bessaleyfi og fórum að sumarhúsum sem urðu á vegi okkar, bönkuðum á dyr og kíktum inn um glugga.  Já, af hverju vorum við að þessu?  Okkur vantaði hvíldar og nestisstað og á báðum þessum stöðum: örguðu bekkirnir við bústaðina á okkur.  Gaman að hafa smá spennu í þessu.  En auðvitað skildum við vel við - allt rusl tekið með í bakpokanum.  

Klukkan tvö komum við til lítils bæjar, Borgsjö, og fengum gistingu í litlu sumarhúsi - bara fínt.  Æðislegt að komast í sturtu og stinga á einum íbúa.  Tvö flugnabit er ég búin að fá - hlýtur að vera svona gott bragð af mér því ég bryð Nelfast töflur eins og enginn væri morgundagurinn hahaha.  Núna sitjum við á veitingastað, þeim fyrsta sem við komum á, og ætlum að fá okkur eitthvað gott að borða og hér er eina nettengingin í bænum.  

Úti er blankalogn og klukkan er fimm.  Að sjálfsögðu er ég þreytt eftir hvern dag en það er allt í lagi með mig.  Dag í senn - það er það sem gengur á svona ferðalagi.  "Ferðafélaginn" minn góði sem alltaf heldur utan um mig gengur með mér.  Sendi ykkur hlýjar kveðjur og takk fyrir kveðjurnar ykkar á blogginu - þær ylja og uppörva.  Þar til næst:  Horfðu vel á hvern göngustíg og spurðu sjálfa/n þig aðeins einnar spurningar: hefur þessi stígur hjarta? 

 

Þakklát kona á veginum


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Yndislegt að lesa og gott að allt gengur vel 

Farðu varlega elsku mamma 

Davíð H (IP-tala skráð) 29.5.2019 kl. 14:48

2 identicon

Gaman að lesa ferðasöguna þína elsku Rúna. 

Unnur Guðlaugsd (IP-tala skráð) 29.5.2019 kl. 18:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband