30. maí - fimmtudagur

Frá Bracke til Gallö - 24 kílómetrar.  

Vaknaði á sama tíma og venjulega og nú var lúxus, bara gengið að morgunverðarborði - allt tilbúið hjá kellingunni.  Gæti alveg vanist þessu.  

Klukkan 8:20, já merkilegt að þessi tími poppar upp aftur og aftur, var gengið af stað.  Þurrt úti en kaldur vindur sem var í bakið á okkur sem betur fer.  Fæturnir bara góðir og ég er farin að venjast pokaburðinum.  

Hollendingurinn er aðeins að kvarta um eymsli í ökkla en ég get ekkert gert í því svo hann verður bara að meta þetta sjálfur og hana nú - ekkert þýðir að væla í mér.  Við gengum á mjúkum og góðum stígum í c.a. 21 km af þessum 24 svo þetta var frábært.  Ekki eins mikið upp og niður í dag en þannig var það í gær, dálítið mikið upp og niður.  Við stoppuðum eftir c.a. tvo tíma í biðskýli fyrir farþega strætó og nærðum okkur svolítið.  Þá komu eldri hjón gangandi til okkar frá húsi sem var þarna rétt hjá.  Þau sögðu okkur að það kæmi enginn strætó í dag, hahaha, gaman að þessu.  

Eftir smá hvíld héldum við áfram og yfirleitt á göngu erum við ekki að spjalla.  Það er svo gott að upplifa kyrrðina og náttúruna allt í kring.  Fugla, blóm, tré, smádýr sem eru fyrir fótum mínum, allt vekur þetta upp góðar tilfinningar fyrir því sem ég er að gera, að vera úti og ganga.  

Við erum meira og minna í sveitunum, komum inn í einstaka þéttbýli, ekki mörg hús og svo er einn og einn bær sem við göngum hjá.  Áin Giman hefur verið okkur á vinstri hönd meira og minna í dag.  Þegar við komum að langri trébrú, 96 metra langri, og áin frussandi undir henni leist mér ekki á blikuna.  Ég skal segja ykkur það, mikið var ég glöð þegar ég sá að hún var lokuð vegna viðgerðar.  Úff ég er ekkert neitt sérlega hrifin af göngubrúm eins og sumir vita.  Leiðin okkar lengdist aðeins því við gátum ekki farið yfir brúna en það var vel þess virði.  

Um hádegi stoppuðum við við lítið sumarhús við ána, enginn var heima, og við snæddum hádegisverð.  Gott að fara úr skónum smá stund.  Gangan í dag gekk vel hjá okkur.  Við sáum engar kirkjur í dag og höfum ekki séð neina í sveitunum.  Það er öðruvísi en heima - við sjáum aðeins kirkjur í bæjunum.  Og ekki eru bensínstöðvarnar að troða okkur um tær neinsstaðar, þær eru aðeins þrjár sem við höfum séð á þessum sex dögum og engin í strjálbýlinu.  

Við komum hingað á Viking camping klukkan þrjú en hér gistum við.  Þetta er fallegur staður sem stendur við vatnið, fullt af sumarhúsum og mikið um að vera.  Grimnasafjorden heitir vatnið sem við erum hjá núna.  Það var búið að spá rigningu á okkur í dag en eftir að við komum í hús þá fór að rigna.  Það er alveg með ólíkindum hvað við erum heppin.  

Nú ætlar frúin að gæða sér á lasagne og svo beint í rúmið.  Í lokin þetta:  "ég elska ekki manneskjuna minna - en náttúran er stórkostleg".  

Rúna biður fyrir kveðju og er orðin nokkuð góð í fótunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er alveg ótrúlegt hvað þið eruð heppin varðandi rigninguna - já og ekki lítur hún nú neitt skemmtilega út þessi brú svo ég skil þig vel mamma mín.  Kærleikskveðja frá öllum hér í Tjaldó - og SKÁL (hahaha)

Dóttirin (IP-tala skráð) 30.5.2019 kl. 18:45

2 identicon

Elsku Rúna" Alltaf spennt að lesa pistlana. 

Skil vel að þú hafir ekki getað hugsa þér að sofa í þessu gamla, kalda húsi. 

Þú átt betra skilið eftir allt þetta puð. 

Kveðja af Ströndinni :-) 

Guðrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 31.5.2019 kl. 08:34

3 identicon

Elskuleg mín. Ég dáist svo að þér að fylgja eftir draumum þínum. Bíð einnig spennt eftir hverjum pistli. Gaktu áfram á Guðs-vegum. Er með þér í andanum. 

Birna G Konradsdottir (IP-tala skráð) 1.6.2019 kl. 02:00

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband