4. júní - þriðjudagur

Rödenhasten til Vaplangard.  18,8 kílómetrar í dag.

Vaknað á svipuðum tíma og nú skein sólin á okkur.  Ég er nú ekkert sérlega spennt að ganga í sól en svona verður það að vera.  Við nærðum okkur vel, fylltum á vatnsbyrgðir og kvöddum þennan góða gististað með því að læsa hurðinni á eftir okkur því Helena húsráðandi var farin til vinnu - já okkur er treyst.  

Malbikið beið okkar og þetta varð að allnokkrum kílómetrum - eins gott að ég var ekki þreytt í fótunum.  Engar blöðrur núna, aðeins krambúleraðar neglur, flugubit á stöku stað en þetta er ekki svo mikið að einn 3,5% geti ekki lagað það þar til næsta dag.  Nú springa blómin út með vegunum, mauraþúfurnar iða af lífi og margir "englar" (fiðrildi) spruttu fram á leið okkar, gulir, brúnir, hvítir, svartir.  Já þetta eru englarnir mínir á veginum, svo gaman að fylgjast með þeim.  

Bóndi á einum bóndabænum gaf sig á tal við okkur, sagði að við værum á góðum tíma að ganga.  Lítið um moskító enn sem komið er.  Við komum að enn einni vatnslind sem tileinkuð er Ólafi helga.  Þar héngu tvær könnur og ausa á snaga ef einhver vildi fá sér að smakka vatnið.  En ekki hún ég - ég hafði ekki lyst á því en ef til vill hafa einhverjir bjargað sér þar.  

Nú sáum við glitta í Naskodt kirkjuna og við þangað, en hún var lokuð.  Verið að gera við hana að innan og utan sagði okkur maður sem starfar þarna.  Og hann spurði frétta, eins og allir sem við hittum gera.  Hvaðan eru þið að koma og hvert ætlið þið að ganga?  Ætlið þið að ganga alla leið til Þrándheims?  Hvar byrjuðuð þið?  Er lífið ekki bara dásamlegt!  

Við komum til Nalden sem er lítill bær, stendur við vatnið.  Þar fengum við okkur að borða og versluðum fyrir morgundaginn.  Sólin skein sem aldrei fyrr, ég á stuttermabol en Ger kappklæddur.  Já við erum heit íslendingarnir.  

Eftir matinn okkar voru gengnir tveir til þrír km að Vaplansgard.  Þar kom að því - ég vissi ekki í hverskonar gististað ég væri að koma!  Fjörgamalt stórt hús, virtist allt í niðurníðslu en á móti okkur komu þau Doris og Lars brosandi og kát.  Þau leiddu okkur inn í algjöra dásemd, allt svo fallegt og hreint, uppábúin rúm, kvöldmatur, morgunmatur og einn 3,5% með kvöldmatnum.  Og þau eru aldeilis skemmtileg og frábær, vilja allt fyrir okkur gera og hvað haldið þið - Lars ætlar að skutla okkur í hraðbanka á eftir því það er of langt að ganga og í allt aðra átt.  Þetta er flottasta þjónusta ever.  

Ég er glöð, gulrótin búin og ég er þakklát.  Í lokin þetta:  "ef þú getur ekki fundið sannleikann þar sem þú ert, hvar annarsstaðar heldur þú að þú getir fundið hann?"

Glöð og þakklát kona, langt komin á þriðja hundraðið!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Góðan daginn Rúna mín! Alltaf lengist strikið á kortinu hér á borðinu mínu. Svooo meiriháttar gaman að fylgjast með þér, hvernig þú tæklar þetta allt á jákvæðninni og gleðinni. Án þess væri þetta örugglega ekki hægt. Gangi þér vel hér eftir sem hingað til.  

Guðrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 5.6.2019 kl. 08:22

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband