3. júní - mánudagur

Frá Östersund til Rödenhaste, aðeins lengra en Röden.  23,4 km í heildina.  

Jæja það rigndi í alla nótt og ég vaknaði um fjögurleytið, leit út, logn og rigning.  Smá bón sendi ég út í hugann og klukkan sjö var allt blautt en stytt upp.  Og svo að þessu viðtali sem ég nefndi við ykkur í gær.  Ung kona að nafni Sonja vinnur að hluta fyrir samtökin um Olavsveginn og hún hafði samband við okkur fyrir nokkrum dögum og bað um að fá að hitta okkur þegar við kæmum til Östersund.  Eftir morgunmatinn hittum við hana fyrir utan hostelið þar sem við gistum.  Hún fór með okkur á kaffihús og þar spurði hún okkur um ýmislegt frá göngunni okkar.  Hvernig við hefðum kynnst og fleira og fleira.  Hún ætlar að vinna úr þessu og birta á vefsíðu Olavsleiðarinnar.  Kaffisopinn var góður, gaman að eiga eina klukkustund með henni og í lokin gekk hún með okkur að vatninu og tók mynd af okkur í fallegum garði.  Já ævintýrin eru allsstaðar og þetta var eitt slíkt.  Ég vona bara að ég hafi ekki orðið mér til skammar í viðtalinu, allavega var ég róleg með þetta.  

Klukkan níu lögðum við svo af stað.  Það var hlýtt en rigndi á okkur fyrsta hálftímann.  Steyptur stígur í byrjun en svo komu þessir góðu.  Leiðin lá yfir brú til Frösön og þar gengum við um sveitina upp hæðir og fallegt var að líta til baka yfir Östersund.  Sjá turnana á ráðhúsinu og kirkjunni gnæfa yfir og það var ótrúlega fallegt.  Það var gaman að ganga með Storsjöen, algjör stilla og hætt að rigna, 15 gráðu hiti.  

Við komum að Frösön kirkju klukkan 11 eftir góða skógargöngu en í skóginum hittum við konu með tvo hunda og hún sagði okkur að kirkjan væri opin.  Við vorum nú heldur betur kát með að geta komist inn, setið og hvílt okkur.  Skoðað og myndað ótrúlega stóran og mikinn klukkuturn sem er allur úr timbri og var reistur 1754, ótrúleg bygging.  Kirkjan sjálf stendur spölkorn frá, hvít og falleg að innan og utan.  Þarna vorum við í rúman hálftíma og héldum svo áfram í hlýju og góðu veðri.  

Og nú var það malbikið í einhverja kílómetra og þá varð að takast á við það.  Við gengum framhjá Hembygdsgarden sem er einskonar Árbæjarsafn en mun minna í sniðum.  Þar var meðal annars lítið hús sem hafði verið skóli fyrir drengi, bókasafnshús frá 1830 og kaffihús.  Einn bolli og kanilsnúður - ekki hægt að sleppa því.  Frá kaffihúsinu lá leiðin framhjá flugvellinum sem stendur á eyjunni Frösen, en eyjan er sú stærsta í Storsjön.  Það var bara heilmikið um að vera á flugvellinum og gnýr yfir höfðum okkar í alllangan tíma.  Nú var ég farin að finna til þreytu í fótunum því malbikið var búið að vera í einhverja kílómetra og þá verður allt einhvern veginn erfiðara.  

En það birtir alltaf, skógarstígur meðfram Storsjön og þar stoppuðum við í flæðarmálinu.  Fallegir hvítir og svartir steinar fönguðu augu mín, ég tók fáeina lauflétta í vasann fyrir ömmusnáða.  Og við horfðum á útsýnið yfir þetta stóra og mikla vatn - allt til lands hinum megin þangað sem ferðinni var heitið í dag.  

Þá kom ég auga á þessa risastóru brú, hún blasti við.  Átti ég semsagt eftir að ganga yfir hana??  Já, það var ekki um neitt annað að ræða.  Og engin aðskilin gönguleið fyrir fólk á göngu á brúnni!  Hún lá í stórum boga og ekki hægt að sjá umferð á móti þér koma fyrr en á hæsta punkti.  Þetta var í lagi í byrjun en svo fór hún hækkandi.  Mér fannst þetta erfitt, ég gekk eins hratt og ég gat, leit aldrei niður, gaut augunum rétt aðeins til hliðar en ekki of oft og tók enga mynd fyrr en ég var næstum komin yfir.  Þessi brúarganga tók mig 11 mínútur.  Ég get sagt ykkur það algjörlega í einlægni að mikið ofboðslega var ég fegin þegar ég fann mjúkan jarðveginn aftur undir fótunum.  

Nú fór þetta að styttast hjá okkur en samt áttum við eftir að kíkja í kirkjuna í Röden.  Hún var lokuð en þarna hvíldum við okkur í blíðunni og ekkert rignt á okkur síðan í morgun.  2-3 kílómetrar í náttstað á Rödenhaste 146 og tveir hestar bakvið húsið.  Þannig var lýsingin á gististaðnum okkar þegar við töluðum við konuna sem þar býr:  "It is a red house number 146 and two horses in the back".  Helena býr þarna með hestana sína og hún tók vel á móti okkur.  Uppábúin rúm, okkur leyft að þvo þvottinn okkar og það kostaði okkur ekki neitt því nettengingin hennar var biluð og við máttum vasast í eldhúsinu eftir þörfum.  Já það er alltaf jafn ofboðslega gott að koma í gististað, fara úr rykugum og svitablautum fötum, skola af sér, þetta er svo sannarlega gulrótin í dag sem og alla aðra daga.  Nú er klukkan að verða sjö, sólin skín og það er logn í sveitinni.  Milli átta og níu fer ég í rúmið og í lokin ætla ég að senda ykkur þetta:  "láttu þér aldrei finnast að þú hafir ekkert að gefa"

Ein sem er þakklát fyrir enn einn gefinn daginn.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hahahahaha ég efast nú um að þú hafir orðið þér til skammar mamma í þessu viðtali hahaha.  Já og þið bara að nálgast þriðja hundrað kílómetrana, þvílíkur dugnaður sem þetta er!!  Gleðst með þér mamma mín - knús og kærleikur frá okkur öllum 

Dóttirin (IP-tala skráð) 4.6.2019 kl. 16:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband