11. júní - þriðjudagur

18. göngudagur og 24,2 kílómetrar.  

Larry hafði útvegað okkur frelsandi engil til að aka okkur í morgun.  Hann flutti okkur 8 km út í sveit svo við þyrftum ekki að ganga á malbikinu eftir daginn í gær.  Við vöknuðum eldsnemma enda farið í draumalandið klukkan 20 kvöldið áður.  

Gangan okkar hófst svo klukkan 8:50 á yndislegum stíg inni í runnum, sól og fallegt veður.  Gaman að sjá sólargeislana leika sér í gegnum laufið milli trjánna.  Falleg lillablá blóm að opnast og urðu hvít í sólinni.  Fiðrildi flögrandi, fuglar syngjandi, Gúgú fuglarnir, hrein dásemd.  Við gengum á svokölluðum Karls Jóhanns vegi en þessi vegur var byggður af hermönnum á 19. öldinni og verkamönnum.  Stór og mikill steinn er á þessari leið og í hann er hoggið 1834 en þá var þessi vegur trúlega vígður.  Stuttu síðar gengum við að landamærum Svíþjóðar og Noregs í sól og blíðu.  Nákvæmlega klukkan 10:20.  Þetta var svolítið sérkennilegt.  Varðan á landamærunum er búin til úr steinum sem eru eins og flögur.  Við vorum búin að ímynda okkur að þetta væri stórt og mikið en þetta er bara ekkert svo stórt, eins og sést á myndunum.  En tilfinningin var alveg æðisleg - þetta hafði tekist og gengið áfallalaust.  Að leggja Svíþjóð að velli frá austri til vesturs var bara alveg frábært, gleði og meiri gleði og þarna stoppuðum við í rúmar 40 mínútur.  Á vörðunni þarna stendur Svíþjóðarmegin Sveriga 1929 og hinummegin Norge 1929.  Og svo tók Noregur við.  

Leiðin lá upp og niður, fallegir dalir, stór gljúfur, litlar tjarnir, fallega formuð fjöll, mjúkar línur þar.  Fjöll í fjarska, öll í stórum trjám.  Það var létt að ganga, gott fyrir fæturna.  Við gengum fram á minnisvarða þar sem sagt er vera hæsti punktur á Olavsleiðinni, 2000 fet yfir sjávarmáli.  Allt í einu birtist pílagrímur rétt fyrir framan okkur.  Hann var frá Belgíu og gengið frá Selanger til Östersund í fyrra og var að taka seinni helminginn núna.  Annars höfum við ekki orðið mikið vör við mannaferðir, bara við Ger, sænska Agneta sem við hittum aftur í gær og Larry, ameríkaninn sem við vorum með í dag.  Svo þessi leið er alveg kjörin fyrir fólk sem vill frið og ró.  

Við héldum áfram um góða stíga og svo komum við að gatnamótum þar sem við gátum valið.  2 km á steyptum vegi og umferð eða 4 km á þessum mjúka í skóginum.  Ég valdi skógarstíginn því það áttu að vera um 4 km en urðu 5.  Já þetta var seinfarið, klifrað upp, rétt skref fyrir skref upp og niður, bleyta og drulla.  En það hafðist og er niður var komið tók við vegur með leiðinlegum ofaníburði í langan tíma.  Allir þreyttir og svo kom í ljós að við urðum að ganga 750 metra til baka þegar við vorum búin að ganga yfir göngubrú sem dúaði og hreyfðist í hverju skrefi.  Ekki alveg það sem ég vil en þetta hafðist og við komum á gististaðinn klukkan 15:40.  

Þar úti voru stólar og borð, kaffi, te, súpur í pökkum og helluborð ef við vildum fá okkur eitthvað.  Þarna sátum við í sólinni, skórnir teknir af þreyttum og sveittum fótum, og létum okkur líða sem best.  Svo kom gestgjafinn sem var hinn sami og keyrði okkur í morgun.  Tómas, ættaður frá Þýskalandi, hefur verið hér í 14 ár.  Ég held að hann sé indjáni, sítt svart hár í fléttu, fjaðrir og dót sem minna á heim indjána eru hér og staðurinn heitir Appalousa Rendezvous.  Já ég er alveg viss um að hann er af indjánaætt.  

Það er gott að vera komin í hús, geta glaðst yfir því að hafa klárað svíþjóðargönguna og nú eru noregsdagar framundan.  Vonandi svolítið auðveldari, allavega meira niður í móti, þó það sé ekki alltaf gott.  Smá eymsli eru að hrjá mig í öðru hnénu en vonandi verður það í lagi á morgun, sjáum bara til.  Jæja gott fólk, 2/3 hlutar leiðarinnar eru búnir.  Ég er bara kát með það.  Nú verður langur dagur á morgun.  Við göngum frá Sul til Vuku, 27 kílómetrar.  Meira um það síðar og í lokin þetta:  "brostu, það er ókeypis lækning".

Þakklát kona leggst snemma í pokann sinn, góða nótt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Til hamingju með að ljúka Svíþjóð mamma mín - stórkostlegt alveg.  Gangi allt áfram vel og gangið á Guðs vegum.

Dóttirin (IP-tala skráð) 11.6.2019 kl. 22:43

2 identicon

Aldeilis að verða spennandi hjá þér Rúna mín. Náði ekkert að fylgjast með þér um helgina, skrapp í Ísafjarðardjúpið, þar er ekki gott netsamband. Nú er strikið þitt heldur betur að lengjast og Noregur tekinn við. Gangi þér vel með framhaldið kæra vinkona.:-)  Kveðja, Gunna. 

Guðrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 12.6.2019 kl. 09:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband