16. júní - sunnudagur

Áttu að vera 19 km í dag en urðu 18,1.  Við lögðum af stað klukkan 7:55 og vorum búin að klára klukkan 14:10 en stoppuðum í 1 klst við kirkju og svo 10 mínútur á öðrum stað.

Ég vaknaði snemma og ég viðurkenni það að ég var svolítið kvíðin.  Átti ég að ganga eða átti ég ekki að gera það?  Það var sól og logn úti, ótrúlega fallegt veður og við gerðum bara allt klárt fyrir daginn og ég ákvað að láta reyna á það að ganga í dag.  Fengum fínan morgunverð hjá kjúklingabóndanum Hakon og við Ger kvöddum Larry sem hélt sína hefðbundnu Olavsleið og við héldum okkar leið áleiðis  til strandar.  

Í dag reyndum við að velja bestu leiðirnar fyrir fæturna og Hakon bóndi benti okkur á fallega leið meðfram ánni sem rennur í nágrenninu þar sem hann býr.  Þetta munu vera um 3 km og þetta var ótrúlega falleg leið í skógi að hluta og þar uxu risastórir burknar.  Þá varð mér hugsað "já það eru fallegir litir í þessu græna" (mamma mín).  Ég tók lyfin mín reglulega á leiðinni og ég viðurkenni það alveg að ég fann til í hnénu, en ekki eins mikið og ég átti von á.  Það er svo merkilegt að það er erfiðast fyrir mig að standa upp, stíga í fótinn og byrja, en svo þegar ég er byrjuð þá er eins og það lagist.  Skil þetta ekki.  En auðvitað voru alltaf verkir, þetta er eins og vond tannpína og maður getur ekki alltaf ráðið við þetta.  Þetta er spurningin um að vera skynsamur eða þrjóskur.  En ég notaði stafina mína í allan dag og þeir hjálpuðu.  

Við gengum um fallegar sveitir, lítil umferð, kýr lágu í hópum í sólinni, já það er víst hvíldardagur í dag.  Um tíuleytið komum við til bæjarins Levanger og þar sáum við opna sjoppu - við þangað inn og keyptum okkur ís.  Sá var góður - salt og karamellubragð, nammi namm, ég gleymdi bara að taka snappið!  Frá sjoppunni gengum við í átt að kirkjunni í bænum og hún var opin.  Fallegir mildir grænir og rauðbrúnir litir inni.  Altarismyndin var fallegur gluggi og skírnarfonturinn var hörpuskel sem hvíldi í höndum englastyttu.  Þetta var allt svo fallegt og gott að koma þarna inn.  Við stoppuðum ekki lengi þó því áfram urðum við að halda í gegnum bæinn og komum að tjaldsvæði við sjóinn.  Þar var margt fólk, ungt og gamalt, í tjöldum og húsbílum.  Sumir höfðu nestiskörfu, aðrir sátu á ströndinni og fóru í sjóinn, syntu þar.  Krakkarnir léku sér í sandinum og allir voru að njóta sólar.  Þessi bær liggur eins og í boga meðfram ströndinni, niður að sjó og upp í litlar hæðir, mjög fallegur.  Og bara rétt handan við hornið utan við bæinn komu bændabýlin, heyskapur, allt að gerast.  

Áfram héldum við, við vorum ekkert mikið að stoppa því það er alltaf svolítið erfitt fyrir mig að byrja upp á nýtt.  Rúmlega hálf tólf komum við að annarri kirkju, svolítið úti í sveit.  Það var Alsdalhaug kirkjan.  Við settumst á bekk undir kirkjuveggnum í sólinn og hitinn um 28 gráður.  Inni í kirkjunni var messa og skírn, fjögur lítil kríli fengu þar nöfnin sín.  Við ákváðum því bara að bíða í rólegheitum og fá okkur að borða.  Þegar messu lauk komu allir út og mjög margar konur voru í þjóðbúningum - gaman að sjá það.  Okkur var boðið upp á kaffi og kex í sólinni úti en við vorum búin að nesta okkur og smelltum okkur inn í kirkjuna til að mynda.  Ég greip prestinn og fékk mynd af okkur saman - alltaf gaman að hitta fólk og spjalla.  Eftir góða stund þarna inni héldum við áfram og útsýnið var alltaf jafn fallegt, sjórinn, býlin og bæirnir.  Litlar og stórar eyjar í sjónum, skemmtibátar af ýmsum stærðum ýmist bundnir við bryggju eða þá einn og einn sigldi út á sundin blá.  

Þegar við vorum að nálgast gististaðinn komum við að afgirtri girðingu þar sem voru kýr með kálfa.  Kálfarnir hoppandi og skoppandi að leika sér, kýrnar litu allar upp, horfðu á okkur og er við vorum komin framhjá þá tóku þau á rás og eltu okkur eins langt og þau komust - ótrúlegar þessar skepnur.  Og nú birtist Laberget gistihúsið okkar.  Það stendur á fallegri hæð og sjórinn bara rétt fyrir neðan en ofan við húsið hinum megin við götuna er lítil fjallshlíð þakin trjám.  Ég var afskaplega fegin og líka glöð og þreytt að komast inn - þetta gekk hjá mér í dag.  

Á morgun kemur nýr dagur og hvað gerist þá kemur í ljós, geng ég eða fæ bílfar, það er spurning.  Það er spáð rigningu næstu daga - ég skal senda ykkur hana.  Ég vona að þið hafið gleðilega þjóðhátíð á morgun, hér verður litli fáninn minn að duga.  Mér líður bara vel, ætla snemma í rúmið, hafið það sem best.  Ég geri mitt besta til að hafa það gott, þetta styttist með hverjum deginum.  Í lokin þetta:  "hlúðu að því sem þér þykir vænt um".

Þreytt, sólbrennd (svolítið) en glöð yfir deginum.    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Mikið vildi ég geta tekið þessa fallegu burkna og sett í lóðina mína :)  Yndislegt mamma mín, þú ferð bara eins og þú getur á þínum tveimur og lætur svo aka þér afganginn.  Þetta hefst.  Kærleikskveðja frá okkur öllum 

Dóttirin (IP-tala skráð) 17.6.2019 kl. 19:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband