15. júní - laugardagur

Ekki gekk ég þennan daginn, ákvað að taka einn dag í viðbót í hvíld.  Það var fallegt veður, sólarlaust, og við þrenningin borðuðum morgunmat saman áður en þeir lögðu af stað út í daginn. Ég held áfram að vera skynsöm og fer akandi til Munkeby um hádegið.  Kom þangað klukkan 12:30 eftir að hafa ekið um fallegar sveitir með góðum bílstjóra.  Hér gistum við í Munkeby herberge.  Þetta er falleg jörð með gömlum húsum.  Miklar byggingar og allt svo fallegt.  Þarna hefur fjósi verið breytt í gistiheimili en ég fékk þetta gamla, sem er æðislegt.  

Kallarnir (strákarnir) komu svo um klukkan 13:30.  Þeir voru bara brattir eftir rúma 18 km en þeir sögðu að leiðin hefði verið mikið upp og niður og ég er ekki mikið fyrir það þessa dagana.  Núna sit ég hér úti í sól og blíðu, þvotturinn hangir úti á snúrunni og ég er vongóð.  Ég er miklu betri í dag en í gær og ætla að byrja á að ganga 8 km á morgun, til að sjá til.  Á morgun verður breyting á leið okkar Ger en Larry gengur áfram hina óbreyttu Olavsleið.  Það er mynd í myndaalbúminu "vika fjögur" sem sýnir hvaða leið við ætlum að fara og á myndinni er leiðin okkar með grænum punktalínum.  Við göngum til Levanger sem er meira til vesturs og leiðin liggur með Þrándheimsfirði og út í eyjuna Tautra.  Á leiðinni þangað munum við gista á tveimur stöðum áður en við komum til Tautra en í eyjunni verðum við eina nótt og förum svo með bát til lands á ný daginn eftir.  

Það er hægt að sigla með bátnum beint til Þrándheims en við ætlum að fara aftur inn á hefðbundnu Olavsleiðina.  Við byrjum á því að gista í Ersgard.  Þessa leið teljum við betri fyrir mig, vonandi getum við gengið þetta og okkur langar að skoða þessa litlu eyju.  Þar mun verða ýmislegt skemmtilegt og merkilegt að sjá.  Ég er bara spennt, hlakka til og vona það besta.  Í lokin þetta:  "eins og vorblær vonin hlý, vefji þig örmum sínum.  Svo þú megir sjá í því, sól á vegum þínum."

glöð, vongóð, bjartsýn kona í dag í sólinni.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Elsku hjartans mamma mín, ég trúi því að þú eigir eftir að komast í gang aftur en mestu skiptir samt að þú hlustir á líkamann og takir einn dag í einu bara.  Þú ferð til Þrándheims hvort sem það verður á tveimur jafnfljótum eða fáir far.  Þú hefur farið svo langt nú þegar og ert algjör hetja.  Hugsa hlýtt til þín á morgun og hlakka til að heyra í þér.

Dóttirin vongóð með mömmu (IP-tala skráð) 15.6.2019 kl. 20:02

2 identicon

Þú ert bara frábær og svo skynsöm mín kæra systir.Vonandi kemstu í labbið fljótt og ef ekki þá það.💖💖Knús til þín.💖😃💖

gunnþórunn gunnarsdóttir (IP-tala skráð) 16.6.2019 kl. 10:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband