26. maí - sunnudagur

Vöknuðum snemma eftir góðan svefn og hvíld.  Logn en sólarlaust þegar við lögðum í hann klukkan 8:20, annan dag göngunnar.  Allur dagurinn var nokkurn veginn svona:  The long and winding road!  Öll leiðin á sama veginum, smá brekkur eða hallar af og til. 

Það sem braut upp þessa endalausu göngu voru kyrrðin, fuglasöngur, þytur í laufum trjánna sem umluktu okkur alla leiðina og svo hljóðin í skónum okkar.  Tvisvar fengum við smá rigningu og þá var regnhlífinni skellt upp, ekkert verið að fara í regnföt, hér var nefnilega logn.  

Komum til Stöde camping klukkan 12:40.  Þetta er svæði með litlum og stórum bústöðum sem hægt er að leigja.  Við höfðum pantað einn af þessum litlu en konan sem tók á móti okkur hefur trúlega fundið til með okkur, fundist við vera orðin gömul, svo hún lét okkur hafa stóran bústað.  

Aldeilis frábært fyrir okkur og mikið var hún ég glöð,, þegar hér var boðið upp á wi-fi.  Loksins gat ég farið að koma blogginu mínu af stað - takk Særún mín.  

Mér líður vel, finn til á hinum ýmsu stöðum, blöðrur hingað og þangað en þegar sturtuheimsókn er búin verður bara allt betra.  Hvað næsti dagur færir mér kemur í ljós.  

Í lokin: "Innan um erfiðleikana felast tækifærin".  

 

Kær kveðja

Rúna í Svíaríki


25. maí - laugardagur

Ég svaf nokkuð vel, hlýt að hafa verið þreytt. Þegar ég leit út var allt blautt en hætt að rigna.  Það er logn úti og tré um allar hlíðar, ég held að þetta verði góður dagur.  Við vorum bara róleg, fórum af stað um hálf ellefu.  Komum við í kirkjunni í Selanger.  Þar var hópur af fermingarbörnum á æfingu sem áttu að fermast daginn eftir. Við fylgjumst með dágóða stund og fengum mörg hlýleg og falleg bros frá þeim.

Þaðan röltum við á pílagrímaskrifstofuna og vorum komin þangað um 10.30 en hún opnaði ekki fyrr en 11.00

Ger tók í hurðina og jú, hún var opin. Inni var ung stúlka sem bauð okkur uppá kaffi og kökur sem við þáðum.  

Klukkan 11.00 kom Helena sem er djákni og einhverskonar yfirmaður þarna og spjallaðu og spurði út í gönguna okkar

Áður en við lögðum í hann vildi hún endilega taka af okkur mynd til að setja á síðuna þeirra.  Þegar við vorum búin með veitingarnar og myndatökuna, skoðuðum við rústir af kirkju sem er frá 13 öld - ótrúlega merkilegt að sjá og hefur vafalaust verið stór og falleg.

Leiðin  í dag leiddi okkur  um fallegar sveitir, margir misgrænir litir í náttúrunni.  "Svo fallegt allt þetta græna!" sagði elsku mamma mín alltaf þegar við vorum í bíltúr og hún sá grænu litina úti og hún orðin veik ef Alsheimer.                    Já mér varð hugsað til hennar.  

Húsin hér eru ólík þeim sem við sáum og gistum í á Guðbrandsleiðinni.  Byggingarlagið á mörgum mjög fallegt og mikið um gula liti á þeim. Það er líka talsvert af húsum sem hafa verið yfirgefin og eru að grotna niður.-sorglegt að sjá

  Þegar við vorum búin að ganga 8.km í dag komum við að fallegu húsi. Þar við innkeyrsluna var skilti sem á stóð:"Pilgrim welcome to Gisselslasen - free coffee or þrá- welcome in". Og á skiltinu héngu fánar Canada og Tékklandis, þessi dagur var þjóðhátíðardagur þessara landa. Já, Tommy sem þarna býr ásamt Sigrid konu sinni, bauð okkur inn í te og brauð. 

Það var gott að setjast niður og spjalla við þau og njóta veitinganna sem þau bjóða pílagrímum sem eiga leið hjá. 

Og það gladdi þau þegar þau heyrðu að ég kæmi frá Íslandi, ég var nefnilega fyrsti Íslendingurinn sem kom til þeirra. Tommy gaf okkur penna að skilnaði og ég sagðist senda þeim íslenskan fána þegar ég kæmi heim.

 

Jæja, áfram var haldið og nú loksins komu skógarstígar,falleg vötn, kusur sem horfðu undrandi á okkur, hristu hausinn þegar ég reyndi að baula til þeirra. 

Loksins vorum við komin til Matfors, bæinn með veitingahús og stóra súpermarkaði og þar versluðum við svolítið.  Verðlagið hérna er bara svipað og heima, ekkert ódýrara.  Á meðan við vorum inni í búðinn kom hellidemba, heppin við.  Svo stytti upp þegar við fórum út að ganga aftur og sólin skein.  Nú fór ég að finna hina og þessa verki út um allt, hugsaði hlýtt til köldu sturtunnar í kvöld.  Já ég var orðin þreytt, búin að ganga 19 km og eftir voru 7,1 km.  Þessi dagur endaði í 26,1 km og meirihlutinn á steyptu.  Og það er alltaf þannig að síðustu metrarnir eru alltaf erfiðastir.  Þegar við sáum skilti sem á stóð Solgarden þá var nú heldur betur kátt í "hópnum"!  Fallegur staður, frábært lítið sumarhús sem við fengum og Mai-Britt var svo elskuleg þegar hún tók á móti okkur.  Hún var líka hissa þegar hún heyrði að ég væri íslensk - já fyrsti Íslendingurinn þar líka, ég er greinilega að slá í gegn.  Húsið er hlýtt og notalegt og umhverfið dásemdin ein.  Eftir góða máltíð og einn 3,5% öl skrifa ég þessar línur og býð góða nótt.  Smá heilræði í lokin:  "Það er dýrt að lifa á þessari jörð en það er innifalin ókeypis hringferð um sólina á hverju ári".

Þreytt en sæl.

Pílagrími farin að sofa

 


Ferðalagið hafið

Jæja, ætli sé ekki best að byrja á byrjuninni, 24. maí.  Sit hér í flugstöðinni og klukkan er 05:55.  Fólk um allt og lífið er allskonar.  Það fer í gegnum huga minn núna "hvað bíður mín", " af hverju er ég með svona drauma sem taka á bæði andlega og líkamlega"?  Svörin sem ég hef er "þetta er svo gaman, forvitnilegt og heilmikil áskorun".  

Jæja, komin í vélina, smá töf því það er bilun í wc í vélinni.  Förum í loftið 8:20 og áætluð lending 13:03.  Þetta verður vonandi allt í lagi, ég get hvort sem er engu breytt þó ég vildi.  Gott flug, setið í hverju sæti, lent kl 13:02.  Ger beið eftir mér þegar ég kom út úr flugstöðinni og við fengum okkur kaffi.  Hann var búinn að kaupa lestarmiðana til Sundsvall.  Sú ferð tók 3 1/2 klst, kósý lest, rúmgott og fannst mér skrítið að þarna var seldur bjór um borð.  Þó svo mér þyki hann góður þá var orðið skrautlegt lífið í lestinni í lokin,hressir ungir menn voru búnir að fá sér aðeins of mikið öl.  Kannski eigum við eftir að upplifa þetta í borgarlínunni okkar?  

Það var rigning langleiðina, engin örvænting þó - fyrsti göngudagur framundan.  Ég gat aðeins blundað í lestinni og gott að slaka á.  Þegar við komum til Sundsvall tókum við strætó til Selanger.  Við fórum úr strætó og gengum einhverja hundruði metra að gististaðnum okkar.  Hann heitir Lilla appelgard.  Það var enginn heima en við vorum með skilaboð um hvernig við ættum að bjarga okkur.  Við vorum komin inn í hús um klukkan 7 um kvöldið eftir að hafa fengið leiðbeiningar um hvar þetta hús væri að finna frá Anne Li, konu sem býr þarna nálægt.  Alltaf einhver til að hjálpa pílagrímum á ferð.  Fengum okkur að borða og farið snemma í rúmið, langur dagur á morgun.  

Smá hugleiðing í lokin:  "Lífið er perluband augnablika - njóttu þeirra".

Kær kveðja til ykkar allra 

Konan, loksins byrjuð á ferðalaginu langa.   


Bloggfærslur 26. maí 2019

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband