25. maí - laugardagur

Ég svaf nokkuð vel, hlýt að hafa verið þreytt. Þegar ég leit út var allt blautt en hætt að rigna.  Það er logn úti og tré um allar hlíðar, ég held að þetta verði góður dagur.  Við vorum bara róleg, fórum af stað um hálf ellefu.  Komum við í kirkjunni í Selanger.  Þar var hópur af fermingarbörnum á æfingu sem áttu að fermast daginn eftir. Við fylgjumst með dágóða stund og fengum mörg hlýleg og falleg bros frá þeim.

Þaðan röltum við á pílagrímaskrifstofuna og vorum komin þangað um 10.30 en hún opnaði ekki fyrr en 11.00

Ger tók í hurðina og jú, hún var opin. Inni var ung stúlka sem bauð okkur uppá kaffi og kökur sem við þáðum.  

Klukkan 11.00 kom Helena sem er djákni og einhverskonar yfirmaður þarna og spjallaðu og spurði út í gönguna okkar

Áður en við lögðum í hann vildi hún endilega taka af okkur mynd til að setja á síðuna þeirra.  Þegar við vorum búin með veitingarnar og myndatökuna, skoðuðum við rústir af kirkju sem er frá 13 öld - ótrúlega merkilegt að sjá og hefur vafalaust verið stór og falleg.

Leiðin  í dag leiddi okkur  um fallegar sveitir, margir misgrænir litir í náttúrunni.  "Svo fallegt allt þetta græna!" sagði elsku mamma mín alltaf þegar við vorum í bíltúr og hún sá grænu litina úti og hún orðin veik ef Alsheimer.                    Já mér varð hugsað til hennar.  

Húsin hér eru ólík þeim sem við sáum og gistum í á Guðbrandsleiðinni.  Byggingarlagið á mörgum mjög fallegt og mikið um gula liti á þeim. Það er líka talsvert af húsum sem hafa verið yfirgefin og eru að grotna niður.-sorglegt að sjá

  Þegar við vorum búin að ganga 8.km í dag komum við að fallegu húsi. Þar við innkeyrsluna var skilti sem á stóð:"Pilgrim welcome to Gisselslasen - free coffee or þrá- welcome in". Og á skiltinu héngu fánar Canada og Tékklandis, þessi dagur var þjóðhátíðardagur þessara landa. Já, Tommy sem þarna býr ásamt Sigrid konu sinni, bauð okkur inn í te og brauð. 

Það var gott að setjast niður og spjalla við þau og njóta veitinganna sem þau bjóða pílagrímum sem eiga leið hjá. 

Og það gladdi þau þegar þau heyrðu að ég kæmi frá Íslandi, ég var nefnilega fyrsti Íslendingurinn sem kom til þeirra. Tommy gaf okkur penna að skilnaði og ég sagðist senda þeim íslenskan fána þegar ég kæmi heim.

 

Jæja, áfram var haldið og nú loksins komu skógarstígar,falleg vötn, kusur sem horfðu undrandi á okkur, hristu hausinn þegar ég reyndi að baula til þeirra. 

Loksins vorum við komin til Matfors, bæinn með veitingahús og stóra súpermarkaði og þar versluðum við svolítið.  Verðlagið hérna er bara svipað og heima, ekkert ódýrara.  Á meðan við vorum inni í búðinn kom hellidemba, heppin við.  Svo stytti upp þegar við fórum út að ganga aftur og sólin skein.  Nú fór ég að finna hina og þessa verki út um allt, hugsaði hlýtt til köldu sturtunnar í kvöld.  Já ég var orðin þreytt, búin að ganga 19 km og eftir voru 7,1 km.  Þessi dagur endaði í 26,1 km og meirihlutinn á steyptu.  Og það er alltaf þannig að síðustu metrarnir eru alltaf erfiðastir.  Þegar við sáum skilti sem á stóð Solgarden þá var nú heldur betur kátt í "hópnum"!  Fallegur staður, frábært lítið sumarhús sem við fengum og Mai-Britt var svo elskuleg þegar hún tók á móti okkur.  Hún var líka hissa þegar hún heyrði að ég væri íslensk - já fyrsti Íslendingurinn þar líka, ég er greinilega að slá í gegn.  Húsið er hlýtt og notalegt og umhverfið dásemdin ein.  Eftir góða máltíð og einn 3,5% öl skrifa ég þessar línur og býð góða nótt.  Smá heilræði í lokin:  "Það er dýrt að lifa á þessari jörð en það er innifalin ókeypis hringferð um sólina á hverju ári".

Þreytt en sæl.

Pílagrími farin að sofa

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Eins gott að hafa á hreinu að ölið var 3,5 % hahahahahahahahaha

Elska þig mamma mín - umhverfis jörðina þúsundfalt

Dóttirin (IP-tala skráð) 26.5.2019 kl. 23:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband