13. júní - tuttugasti dagur göngu - eða ekki göngu!!

Jæja þar kom að því þennan morguninn að ég tók skynsamlega ákvörðun, að þiggja far til Stiklestad með Kai og hvíla mig þar í dag og ef til vill á morgun líka.  

Það var rok og rigning fyrst í morgun þegar ég kom út.  Gangan í dag eru 10 kílómetrar, sem ég sleppi, já svona er þetta stundum - hefur ekki gerst fyrir mig áður.  Ger og Larry gengu báðir og Ger lagði af stað á undan og var líklega kominn dálítið langt þegar Larry lagði af stað.  

Kai og ég ókum til lítils bæjar sem heitir Verdal, en þar var unglingurinn hans að fara í lokapróf í menntaskóla.  Svo ég fékk bara ágætis bíltúr út úr þessu, fram og til baka.  Þegar við komum til Stiklestad þá ók Kai mér upp í skála sem er byggður eins og þeir voru á víkingaöldinni.  Eina sem vantaði fyrir mig þar voru föt eins og voru á þeim tíma, hefði alveg verið til í að vera í svoleiðis.  Inni í skálanum var maður sofandi þegar ég kom inn.  Hann settist upp og bauð góðan daginn. Það var fullorðinn maður á besta aldrei eins og ég, þjóðverji.  Hann er að ganga í öfuga átt og ekki þennan hefðbundna Olavsveg.  Við spjölluðum dálítið saman og svo rölti hann sér niður á veitingastað í morgunmat.  

Ég settist upp í eina "kojuna" (hægt að kalla það svo) og hvíldi mig í c.a. klukkutíma.  Auðvitað er ég svolítið leið að geta ekki haldið mínu striki en ég hef það gott.  Ef ég á möguleika á að halda áfram og klára eftir tveggja daga hvíld þá verð ég sátt.  Þannig að Hvítárbakkaþrjóskan lét undan fyrir skynseminni, held ég sé bara aðeins að þroskast og kannski kominn tími til.  Allavega mun ég vera hér í tvær nætur.  

Og ég get bara ekki þakkað Monu og Kai fyrir alla hjálpina, verkjalyfin (mín voru búin) og hvað þeim var umhugað um að mér liði sem best.  Sannir vinir pílagríma.  Eftir hvíldina í kojunni byrjaði ég að rölta aðeins um í rólegheitum, finna hvernig mér liði í fætinum.  Það gekk alveg ágætlega, ég náttúrulega er með verkjalyf og kannski er það þess vegna sem þetta gengur ágætlega.  

Hér í Stiklestad snýst allt um víkingatímann og Ólaf helga.  Líf hans og dauða hér á Stiklestad 1030.  Hér er lítil kapella helguð honum frá 930 og mikil uppbygging hér í ýmisskonar húsnæði og Kai, bjargvætturinn minn, er þar aðal maðurinn í að smíða allt mögulegt eftir gömlum aðferðum.  Kapellan var lokuð og er víst bara opin einhverja örfáa daga á ári.  

Ger hringdi svo til mín milli 10:15 og 10:30 og þá var hann að birtast hér á svæðinu svo ég rölti niður í stóru kirkjuna og við hittumst þar.  Hún var lokuð svo við fórum upp á gististaðinn og hann kom sér fyrir og sagði mér frá göngunni í morgun og var bara glaður yfir því að ég skildi hafa farið í bíl.  Klukkan 11 fórum við niður í kirkju sem er steinkirkja frá 1180 og hún er reist á þeim stað þar sem talið var að Ólafur helgi hefði verið drepinn (eftir því sem sagan segir).  Steinninn sem Ólafur mun hafa dottið á eða legið við er hann lést er undir altarinu (segir sagan að þetta sé steinninn).  Málverkin á hliðarveggjum kirkjunnar eru ótrúlega falleg og vel með farin.  Þetta eru 30 verk sem segja sögur úr biblíunni og hollenskur maður talinn hafa málað þau 1688.  Ég sendi nokkrar myndir af þeim inn á bloggið (stelpan mín bjargar því eins og alltaf).  

Kirkjan var löguð um 1930 og lítur mjög vel út.  Veggirnir hennar eru meira en meter á þykkt og það sést vel á myndunum mínum af gluggunum (vonandi sjáið þið það).  Þetta er svo fallegt hús, eitthvað svo hlýtt, einfalt og notalegt.  Og hér er líka lítil Orthodox kapella og á svæðinu öllu eru amk þrjátíu byggingar, bæði gamlar og nýjar.  Það hefur mikið verið gert upp af þessum gömlu.  Árið 2030 stendur til að hafa heljarinnar hátíð hér.  Við Ger röltum aftur uppeftir eftir að hafa skoðað kirkjuna.  Larry var mættur á svæðið og þeir voru bara glaðir með gönguna sína í morgun.  Og allir sáttir að taka hvíldardag svo ég eigi möguleika á að geta haldið áfram.  Við sjáum til hvernig þetta fer.  Allavega er sólin farin að skína hérna núna eftir hellirigningu í morgun.  Svo þannig er dagurinn minn í dag, ég er bara sallaróleg og sátt og vonandi - vonandi - get ég haldið áfram.  Í lokin þetta:  "gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup".

Konan í rólegheitum - og nú væri gott að fá hlýjar hugsanir frá ykkur.  Þarfnast þeirra svo sannarlega núna.  Hafið það sem best þið öll,

kær kveðja!   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dugnaðarforkurinn. Skynsemin verður stundum að taka yfirhöndina. Trúi á þig mín kæra  :-) ER að byrja í sumarfríi. Ömmustrákurinn minn  Páll verður stúdent á þann 17. Hlakka til. :-)

Kveðja Gunna

Guðrún Pálsdóttir (IP-tala skráð) 14.6.2019 kl. 11:28

2 identicon

Stundum þarf að láta undan og leifa skynsemnni að ráða. Þú ert dugnaðarfokur og búin að sigra svo mikið, vonsndi tekst þér að klára þessa leið

knús yfir hafið

Unnur

Unnur Guðlaugsd (IP-tala skráð) 14.6.2019 kl. 15:00

3 identicon

Gangi þér sem allra best elsku Rúna mín og reyndu að fara vel með þig.  Risafaðmlag til þín.  Sigga H.wink

Sigga H (IP-tala skráð) 14.6.2019 kl. 18:21

4 Smámynd: Torfhildur R Gunnarsdóttir

Takk elskurnar fyrir kveðjurnar og hvatninguna, gleður hjartað. Þetta fer allt einhvern veginn vel það er ég viss um. Innilegar hamingjuóskir til þín og þinna elsku Gunna mín með flotta Palla ykkar. 

Torfhildur R Gunnarsdóttir, 14.6.2019 kl. 19:27

5 identicon

Stundum þarf að láta undan og leifa skynsemnni að ráða. Þú ert dugnaðarfokur og búin að sigra svo mikið, vonsndi tekst þér að klára þessa leið

knús yfir hafið

Unnur

Unnur Guðlaugsd (IP-tala skráð) 15.6.2019 kl. 17:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband