Eftirköstin.

Jæja, það kom í ljós þegar ég kom heim að það var brot í sköflungi og því ekki skrýtið að ég fyndi til. Trúlega hefur komið sprunga í hann í pallaleikfimi í apríl, sem opnast svo eftir tæpar þrjár vikur á göngu en þá fór ég að finna mikið til.

Ég sleppti dögum vegna þessa, leiðinlegt en það var ekkert í stöðunni annað á þessum tíma.  En þrátt fyrir allt er ég ótrúlega glöð að hafa getað gengið síðasta daginn á þrjóskunni. Nú er ég búin að vera með hækjur frá 10. júlí og vonandi losna ég við þær 24. júlí þegar ég hitti lækni aftur og fer í myndatöku.

Sumarið verður eitthvað öðruvísi en ég reiknaði með, en vonandi á ég eftir að jafna mig og getað haldið áfram að njóta gönguferða. 


22. júní - lokadagur.

Það var farið snemma í háttinn í gærkvöldi,  19.30. Og ég svaf vel til 06.30.  Þá var tekin tími í að koma sér á fætur, hægt og rólega. Tók nokkur dansspor fram og tilbaka til þess að koma sársaukastuðlinum á hnénu mínu í eins gott horf og hægt var. 

Eftir smástund skrölti ég um,  nærðist og gekk frá dótinu í pokann. Það var þokkalegt veður,  vindur og sól af og til  en dökk ský vofðu yfir.

Við Ger lögðum af stað o8. 30,  hann var búinn að finna leið sem gæti stytt leiðina úr 16.km í 14. km, munar um það þegar hvert skref er erfitt.  Leiðin okkar á þessum síðasta degi  var úr einum bænum í annan, eða kannski bara úr einu úthverfi í annað.  Malbikið var að mestu undir fótum og ég orðin sjóuð með það að undirlagi.

Við röltum þetta í rólegheitunum, aðeins tekið vatnssopastopp í strætóskýlum, og haldið áfram. Ég tók ekki áhættu á að setjast, þá væri ekki öruggt að ég héldi áfram. En það hvarflaði nú að mér þegar ég sá strætó að "hoppa" um borð, (mjög  freistandi), en Hvítárbakkaþrjóskan réði miklu um að það var ekki gert.

Kl. 12.30, já  eftir rúmlega 4. klst. göngu komum við að Niðarósdómkirkjunni og það var mikið glöð,  meir og þakklát kona sem stóð við steinstöpulinn með tölunni 0. á, ég var komin á leiðarenda og þetta hafði tekist.

 Eftir stund á torginu héldum við á pílagrímaskrifstofuna en hún var lokuð til kl.14.00. Við settumst því niður í setustofu pílagríma og hvíldum okkur.  Og þar birtust þau hollensku og það var skemmtilegt, spjölluðum og drukkum te. Ekki löngu síðar kom Larry og var glaður að fá gleraugun sín. 

 Klukkan tvö fórum við inn á skrifstofuna  fengum stimpla í vegabréfin okkar og aflátsbréfin góðu og ég stakk títuprjóni á Ísland á heimskortinu sem hékk uppi á vegg. Og þessi prjónn var sá eini sem kominn var á landið mitt eins og 2017, ekki margir landar að þvælast þessar leiðir gangandi.

Að þessu loknu fórum við á gististaðinn, sturta og hvíld í góða stund og kl.18.00 var pílagrímahelgistund í kapellu Niðarósdómkirkjunnar. Falleg og góð stund, 18 pílagrímar luku mislöngum göngum á  föstudag og í dag  frá 12 löndum,  nöfn landanna lesin upp og alltaf fer einhver sælutilfinning um mig þegar nafnið á landinu mínu,Ísland hljómar. 

Við Ger héldum að þessu loknu á veitingastaðinn sem við borðuðum á síðasta kvöldið fyrir 2 árum en þá vorum við þar ásamt Daníel frá Sviss og Lárusi mínum besta.

Þarna sátum við nú tvö, við sama borðið og 2017, borðuðum ljúffengan mat og rifjuðum upp ferðalagið.

Þessi dagur hefur verið takmarkið frá upphafi göngunnar  sem hófst 25. maí.  29 dagar að baki, hér verð ég fram á þriðjudag en þá tek ég flugið til Stokkhólms og verð þar í dekri í nokkra daga í góðum félagsskap. 

 

24. júní. 

Mér líður betur í hnénu eftir að hafa fengið sterk lyf og áburð og svo er ég ekki að burðast lengur með pokann á bakinu. 

Að lokum þetta:  Dag í senn, eitt andartak í einu,eilíf náð þín faðir gefur mér. 

 

Þakka ykkur sem hafið fylgt mér hér fyrir samfylgdina. Það var gott að vera ykkur samferða. 

Sjáumst síðar  - takk, takk.

Hamingjusöm göngukona.

 


21. júní - ekki göngudagur hjá mér.

Rigning og gott að kúra inni, geta hreinlega ekki gengið, (það er þetta með hnéð). Já ekki alveg sæla hjá mér, en það kemur dagur eftir þennan dag. 

Larry hinn ameríski hélt af stað kl. 6, Kirsten frá Þýskalandi lagði af stað kl. 7 og hollensku þremenningarnir biðu til 9.30, þá hafði stytt upp og ég var ein eftir. Það hefur verið mér svolítið erfitt að horfa á eftir pílagrímum leggja í hann og geta ekki verið með,  en kannski er þetta prófsteinn hversu þrjósk ég er. 

Ég dundaði mér hérna í rólegheitunum innanhúss enda ekki sérlega hvetjandi að haltra um úti. Um tvöleytið birtist Ger, rennandi blautur, búinn að ganga í rigningunni frá 8.30 og þar af í 3. klst. í illfærum skógi.  

Karlgreyið var mjög þreyttur og sagði að ég hafi tekið rétta ákvörðun um að ganga ekki þessa tvo síðustu daga. (Alltaf að hughreysta mig, ég átti enga möguleika á að ganga)

Við erum búin að tryggja gistingu fyrir okkur í Þrándheimi og gott að það er frá. 

Ekkert markvert gerðist það sem eftir lifði þessa dags, ég  var að reyna að undirbúa mig fyrir morgundaginn, nudda hnéð og taka verkjalyf reglulega. Það er það eina sem er reglulegt hjá mér, annað er bara svona eftir hendinni. 

En ég er farin að hlakka til endalokanna á göngunni. Það verður ljúft að eiga nokkra daga í Stokkhólmi með góða mínum - ég hlakka svoooo til. 

Í lokin þetta: Hver vegur að heiman er vegurinn heim.

Ég er á leiðinni....bjartsýn og vongóð um morgundaginn. 


20. júní, fimmtudagur.

Engin ganga hjá mér í dag og á morgun. 

Þegar ég opnaði augun kl. 6. í morgun hellirigndi og þá hætti ég við að ganga þá 5. km sem ég hafði hugsað mér að gera.  Ég talaði við Stein húsráðanda hér og spurði hvort hann vissi um einhvern sem gæti ekið mér til Hell. Það vildi svo heppilega til að hann átti tíma hjá tannlækni kl. 9.45 og ég gæti fengið far með honum. Nú var fyrsta "brekkan" sigruð, ég kann nefnilega ekkert á neitt í sambandi við lestar. Ég kvaddi Ger sem hélt út í rigninguna kl. 7.30.

Og við Stein fórum af stað til Hell kl. 9.20. Þar þurfti ég að bíða í hálftíma, ekkert annað að gera en að njóta sólarinnar sem nú sendi geisla sína til mín. Á lestarstöðinni beið líka ungur maður og ég ákvað að spyrja hann aðeins um þetta lestardæmi. Hann upplýsti mig heilmikið um hvernig þetta virkaði og mér leið mun betur. " önnur brekka sigruð ". Þessi ungi maður var ættaður frá nyrstu héruðum í Noregi og bjó þar til átján ára aldurs og hann langar að heimsækja Ísland. 

Jæja,  inn í lestina komst ég og þá þurfti ég að vita hvenær hún yrði í Vikhammer, en þar ætlaði ég út. Starfsmaður í lestinni sagðist láta mig vita þegar að því kæmi og ég fékk ódýrara far þar sem ég er senior. "þriðja brekkan sigruð ".  Þetta gekk eins og í lygasögu. Og ég fór út á réttum stað,glæsilegt hjá mér og mínum . Nú stóð ég þarna á lestarpallinum eins og ég væri ein í heiminum, hugsaði svolítið og hringdi í Olav bónda og hann sagði mér að bíða við Coop verslunina uns hann kæmi.  "fjórða og síðasta brekkan sigruð ". Og ég var bara þokkalega ánægð með mig. 

Bærinn þeirra hjóna   Olavs og Teresu stendur hátt uppi yfir Vikhammer og mikið var gott að þurfa ekki að ganga þangað. Afi og amma Olavs bjuggu þarna og svo tóku foreldrar Olavs  við og þegar Olav tók við af þeim fluttu þau gömlu í lítið fallegt hús hér á jörðinni. 

Hér er ekki lengur hefðbundinn búskapur, heldur er búið að innrétta stóran íþróttasal á eftir hæð gripahúss sem áður var og neðri hæðin er bæði með stórt eldhús og svefnpokagisting.

Þau hjón eru bæði kennarar og eru með börn og unglinga í sérkennslu , krakka sem ekki aðlagast hinu venjulega skólakerfi. Þau nota hesta sem þau eiga við kennslu og ýmsar óhefðbundnar leiðir til að ná til krakkanna. Hér eru allar byggingar mjög fallegar og vel hugsað um allt, ekki erfitt að koma auga á það. Og útsýnið er ótrúlega fallegt, Þrándheimsfjörður og byggðin í Vikhammer, já það er hægt að gleyma sér hér. 

Ég fékk litla hyttu  - en það varði aðeins í nokkra klukkutíma, Olav hafði tvíbókað og nú var þriggja manna "hópur" kominn og að sjálfsögðu flutti ég mig bara í litinn sal, þar verða fjórir pílagrímagöngur í nótt og allt í góðu með það. Olav var alveg miður sín, alltaf að koma til mín og biðjast afsökunar á þessu. Það fjölgaði sem sagt um Kirsten frá Þýskalandi,  Maríu frá Svíþjóð og Larry títtnefnda  frá USA. Og í litlu hyttuna komu þrír pílagrímar frá Hollandi, Daniela, maðurinn hennar og ung stúlka með þeim. Við hittum Daníelu í Munkeby og hin tvö komu og hittu hana fyrir tveimur dögum. Larry varð heldur betur undrandi þegar hann sá mig hérna, því ég var einum degi á eftir honum samkvæmt planinu. 

Við settumst öll út í sólina og spjölluðum og við erum full tilhlökkunnar að ljúka göngunni. 

Olav bóndi ók göngufólkinu svo niður í bæ, þar var verslað og keyptar pizzur enda flestir svangir. Og Daniela hin hollenska bað manninn sinn um að senda mér orku til að reyna að laga hné mitt,(hann er einhvers konar heilari),hann lagði hendur sínar um hnéð í einhverja stund en ég er ekkert betri. En vill maður ekki reyna ALLT ef maður finnur til??

Og kvöldinu lauk með því að Olav kom með langan járnrörbút og lét heilarann hafa. Hann tók sig til og spilaði á bútinn, bara líkt og þeir gera í Perú. Þetta var skemmtileg og það var farið snemma í rúmið eftir ljúfa tóna.

Á morgun verð ég ein eftir, hin ljúka göngunni en ég bíð eftir Ger.

Gott að hvílast, góður dagur að kveldi kominn. 

Í lokin þetta: Dagurinn í gær er liðinn, morgundagurinn er vonandi óvænt ánægja. Dagurinn í dag er gjöf.

Ein sem hlakkar til að sjá ykkur. 


19. júní - miðvikudagur, 26. dagur í göngu

Við áttum pantað far með bát frá Frosta til Steinvikholmen klukkan 10 og því var ég pínu stressuð.  

Vaknaði í Tautra eyjunni klukkan 5, já það tekur mig dálítinn tíma að koma hnénu í gang.  Svona að dunda mér við það í rólegheitum, skipti um á rúmi og gerði tilbúið fyrir næsta gest.  Þá dröslaðist ég niður á fyrstu hæð, hitaði kaffi og von bráðar birtist Ger.  Morgunverðurinn kláraður, komið við í kirkju systranna, settum seðla í bauk og kvöddum rétt fyrir klukkan 7.  

Dásamlegur staður, systurnar yndislegar, ein kom til mín í gær og lét mig hafa ísmola í poka, verkjalyf og krem sem þær búa til sjálfar til að slá á verkinn í hnénu.  Já það var yndislegt að vera þarna, hefði bara viljað vera lengur.  Sól og logn og það gekk ágætlega að ganga þessa 7 km að bryggjunni.  Við vorum komin þangað klukkutíma á undan áætlun, rölti bara um í rólegheitum því það er ekki gott að sitja of lengi, það bara gengur ekki upp fyrir hnéð.  

Ef við færum ekki með bátnum yrðum við að fara með leigubíl og lest til að nálgast Olavsveginn sem við fórum af fyrir þremur dögum.  Þegar við komum í land, handan fjarðarins sem við erum núna, þá bíður okkar bíll og flytur okkur til Stjordal.  Sit ég því og bíð eftir bátnum, við vorum 1 klst og 45 með þessa 7 km og klukkan er bara rúmlega 9.  Frá Stjordal göngum við svo til Ersgard gististaðarins.  

Siglingin gekk vel, allir með björgunarvestin rétt sett á sig og ferðin tók rúman hálftíma.  Skipperinn var með lærling sem ætlar að leysa hann af þegar hann fer í frí, það var kona sem býr í Tautra eyjunni.  Það var gott veður og þá leið mér betur í bátnum, alltaf svolítið óróleg þegar ég þarf að fara á sjó.  Þegar siglingunni lauk (cruiseferðinni) beið leigubíll eftir okkur og ók með okkur til Stjordal.  Í Stjordal búa í kringum 25 þúsund manns.  

Eftir að hafa gert upp við leigubílstjórann leituðum við að kaffihúsi.  Fundum þetta fína bakarí, drifum okkur inn og keyptum kaffi og dísætar tertusneiðar.  Verðlaun fyrir 7 kílómetrana, það verður að vera þannig.  Við settumst út í sólina og horfðum á þessar dásemdartertur, stórar sneiðar, kaffið gott - 1125 krónur á mann.  Það þætti ekki mikið heima.  Eftir slórið okkar var haldið af stað út úr bænum.  Við komum að Værnes kirkju og þar var að hefjast útför.  Ekki datt okkur í hug að fara inn en röltum í kirkjugarðinum sem er mjög stór miðað við þá garða sem við höfum farið hjá, afskaplega fallegur kirkjugarður.  Ung kona kom til okkar og gaf sig á tal við okkur.  Hún vinnur á safni þarna.  Smá spjall við hana, stimpill í aflátsbréfið og hún benti okkur á gönguleið meðfram ánni sem þarna rennur og það var gott að losna við umferðina og malbikið.  

Við komum að steinstöpli með merki Olavsvegarins og þar stóð að væru 47 km til Þrándheims - kemur í ljós hvort þetta er rétt.  Leiðin lá núna í gegnum misþétta og gisna runna, fallegt og friðsælt.  Hittum hundaeiganda með Lassy hvolp.  Hann spurði hvaðan við kæmum, hvar við hefðum byrjað að ganga og fleira og fleira.  Smellti mynd af þeim félögum og áfram héldum við og nú kom hver sveitabærinn á fætur öðrum.  Allt svo snyrtilegt og fallegt.  

Tveir litlir kálfar náðu athygli minni - ungviðið er alltaf einstakt, fallegt og yndislegt.  Loksins sáum við Ersgard gististaðinn. Fín gisting, gamalt hús og hér er mikið umlykis.  Laxveiðileyfi seld, hópar í gistingu, já allt mögulegt.  Við gengum aðra 7 km frá Stjordal til Ersgard þannig að 14 km í dag - er bara sátt við það. Ég hef tekið eftir því að það er mikill munur á snyrtimennsku hér í Noregi annarsvegar og Svíþjóð hinsvegar.  Miklu færri yfirgefin hús hér, engir gamlir ónýtir bílar í haugum sjást hérna og einhvern veginn meiri regla á öllu.  

Og svo er þetta með framhaldið hjá mér!  Næstu tvær leiðir eru mikið upp og niður og inni í skógi og það er erfitt fyrir hnéð mitt að ganga þannig.  Svo ég sleppi þeim.  Staðan er því svona:  Ger gengur þessar leiðir en ég tek 5 km göngu í fyrramálið á lestarstöð í litlum bæ sem heitir Hell, samkvæmt mínum bókum er þetta nafn stytting á orðinu hellir og á ekkert skylt við enska þýðingu á þessu orði.  Á morgun á ég bókaða gistingu tvær nætur í Vikhammer.  Þar ætla ég að hvíla fæturnar þar til 22. júní.  Þá ætlum við Ger að ganga síðasta spölinn til Þrándheims, og það á eftir að takast, ég veit það.  En ég verð að sætta mig við að geta ekki gert þessa tvo daga núna, geri mitt besta til að vera skynsöm þó að það sé rosalega erfitt.  Jæja klukkan hér er 17:30 og ég sit hér í sólinni úti.  Styttist í kvöldmatinn og vonandi verður næsti dagur góður fyrir okkur öll.  Í lokin þetta:  "bros er stysta leiðin milli manna" (og ég ætla að brosa á morgun og vona það besta).

Þokkaleg - bara furðanlega róleg og sátt við þessa ákvörðun.

 


18. júní þriðjudagur - 25. dagur í göngu

Fyrst aðeins frá gærkvöldinu.  Pöntuðum kvöldmat hjá Anne Grete og Per Arne, húsráðendum á Hellberg herberge.  Klukkan sjö var boðið til veislu, steiktur lax með öllu - mmmm svo gott en rúsínan í pylsuendanum var - já það var rabbarbaragrautur.  Eitthvað sem lét huga minn hverfa til elsku ömmu minnar á Hvítárbakka.  Grauturinn var svo góður að ég fékk mér tvisvar á diskinn.  Sofnaði því vært fljótlega upp úr níu en vaknaði um þrjúleytið við að rigningin buldi á þakinu.  Ég sneri mér bara á hina hliðina og treysti á góða fylgdarmanninn minn eins og venjulega.  

Vaknaði aftur rúmlega sex og þá var hætt að rigna.  Við gerðum allt klárt fyrir gönguna, krem á hnéð og lyf tekin inn og farið í veislumorgunverð hjá þeim hjónum.  Sátum í rólegheitum yfir heimagerðum sultum, fjórum tegundum, heimagerðum eplasafa ásamt öllu mögulegu.  Það var sko engin hætta á að við færum með innfallnar kinnar eða maga frá þeim.  Við Ger sömdum við Per að keyra okkur c.a. helminginn af gönguleiðinni - allt gert til að ég sé nú ennþá með í ferðinni.  Það fór að rigna þegar við lögðum af stað en það stóð ekki lengi.  Per ók okkur að Logtun kirkjunni og þar kvöddumst við.  Við fórum inn í kirkjuna sem var mjög falleg og sérstök steinkirkja.  Altaristafla sem var skorin út 1652 og máluð 1655 - ótrúlega falleg.  Það er talið að þessi kirkja hafi verið byggð í kringum 1500.  Svo sáum við þarna skilti utan á húsi sem á stóð Tourist information, og við þangað.  Ætluðum að reyna að fá stimpil í vegabréfið okkar en allt lokað.  Svo ég smellti bara einni mynd af þessari krúttlegu byggingu.  

Leiðin í dag var falleg, víðsýn.  Við sáum út um allt, til Þrándheims, stór svæði um allar jarðir með ýmisskonar ræktun, kartöflur, kál, gulrætur og allt á góðri leið að vaxa í blíðunni.  Við vorum bara harla káta því sólin skein ekkert of mikið, alltaf annað slagið og útsýnið var eins og á fallegu póstkorti.  

Nú fórum við að sjá til Tautra eyjunnar en þangað var ferðinni heitið.  Leiðin að henni eru 3 km frá landi, uppfylling, brú og uppfylling.  Það gekk nú bara furðuvel að koma sér yfir, ekkert verið að horfa beint niður út fyrir vegriðið.  En staldrað við og notið - horft til lands og til Tautra.  Á þessari brú er læst rafmagnshlið og við urðum að ýta á takka og sjá - það kom grænt ljós - Sesam opnist þú.  Svo var lokað á eftir okkur - sem sagt rautt og grænt umferðarljós báðum megin.  Þetta er nefnilega einbreið brú og þarna var heilmikil umferð meðan við röltum þessa þrjá kílómetra.  

Það kom mér á óvart hvað er mikil byggð á eyjunni, mörg íbúðarhús og mikil garðræktun.  Tautra eyjan sem er í Þrándheimsfirði er þekkt fyrir klausturminjar og Maríuklaustur sem stofnað var 1999 en byggingin sjálf var tekin í notkun 2003 og fullgerð 2006.  Þar munu búa 14-15 nunnur frá amk. 7 löndum.  Þegar við vorum komin út í eyjunni ákváðum við að fara fyrst á veitingastað þar og fá okkur að borða.  Og veitingastaðurinn er í þveröfuga átt við gististaðinn okkar í Maríuklaustrinu.  En þetta var allt í fínu lagi, við vorum heldur í fyrra fallinu, sólin skein og við fengum góðan mat á Klostergarden.  Það passaði vel að setjast niður, klukkan var að verða 12.  

Eftir góða hvíld og tíma þarna í sólinni röltum við að rústum klausturs sem er frá 1207.  Við tókum myndir þar og skoðuðum okkur um og svo lauk ferðum okkar á þessum hluta af Tautra.  Nú var 1,9 km að Maríuklaustrinu og klukkan að ganga 14.  Þegar við komum að dyrunum  á klaustrinu hringdum við á takkaborði og fengum rödd sem vildi vita erindið.  Allt stóð þetta heima, við gerðum grein fyrir okkur og við áttum bókaða gistingu. Von bráðar birtist lítil, krúttleg, brosandi nunna.  Hún var voða kát, spurði hvaðan við værum og fylgdi okkur í aðra byggingu þar sem við gistum.  Ég skal segja ykkur það, bara VÁ, þetta var æði, heilt hús fyrir okkur á tveimur hæðum.  Eldhús fullt matar - uppbúin rúm - allt frítt!!  Eina sem við mættum gera í fyrramálið væri að taka af rúmunum og setja nýtt á.  Ég borga nú með gleði einhverjar krónur fyrir allt þetta.  

Nunnan sem fylgdi okkur hingað, systir Gilchrist, elskuleg nunna, kemur frá Kanada, frá Montreal eins og hún sagði mér.  Hún sagði okkur að við værum velkomin í kirkjuna og vera þar við vespers og completorium, það verður gaman að upplifa það.  Nú erum við hér í rólegheitunum, það er frekar hráslagalegt að líta út á fjörðinn.  Flissandi öldugjálfur og rigning.  Svo styttir upp og sólin fer að skína.  Meira hvað heppnin er með okkur.  

Ég er svona þokkaleg á göngu, góð ef ég sit eða ligg en það er alltaf erfitt að taka fyrstu skrefin.  Þá hugsa ég til þeirra sem gengu hér fyrr á öldum við misjafnar aðstæður og þá hætti ég að vorkenna sjálfri mér.  Ég vona bara og bið að ég geti klárað þessa göngu þó að hver dagur sé styttur.  

Það er svo lítið eftir.  Verðum hér í nótt, förum svo á næsta gististað Esgard, daginn þar á eftir förum við til Falden og svo er það Vikhammer og Þrándheimur.  Sendi ykkur hlýjar kveðjur heim.  Hlakka mikið til að hitta ykkur aftur.  Í lokin ætla ég að tileinka veru minni hér í klaustrinu móður Teresu og orðum hennar:  "Guð er vinur þagnarinnar.  Tré, blóm, gras vex í þögn.  Sjáið stjörnurnar, tunglið og sólina hvernig þau hreyfast í þögn."

Glöð kona í sveitum Noregs.         


17. júní - mánudagur, 24. göngudagur

Rigning og logn klukkan 6 í morgun.  Við fengum okkur morgunverð um hálfátta leytið, hann var tilbúinn í eldhúsinu, stelpurnar í gististaðnum höfðu gert allt klárt í gærkvöldi.  

Klukkan átta kom forstöðumaðurinn John og við gengum frá greiðslum og hann ætlar að keyra mig áleiðis til næsta gististaðar.  Ger lagði því einn af stað klukkan hálf níu og ég tók því rólega til klukkan 11.  Þá lögðum við af stað akandi og nú var orðið bara ágætt veður.  

Við ókum fram á Ger þar sem hann var að fá sér að borða og allt í góðu hjá honum.  John lét mig út á gatnamótum og sagði að það væri c.a. 8 km fyrir mig að ganga til Helberg gististaðarins.  Nú var alveg stytt upp og smá sólarglæta, fínt gönguveður.  Ég gekk því í rólegheitunum, stoppaði oft, tók nokkrar myndir, borðaði nestið mitt og regnbuxurnar fóru í pokann.  Nú var ég komin á malarveg, af malbikinu, meðfram sjónum, fallegir bústaðir og íbúðarhús og lítil þorp í fjarska.  Þrándheimsfjörður blasti við mér í allri sinni dýrð - dásamlega fallegt.  

Ger hafði sagt mér í morgun áður en við lögðum af stað að leiðin yrði öll á malbiki, sem og hún var hjá mér í byrjun, en nú fór ég að velta þessu fyrir mér.  Hvort ég væri komin of langt, hefði gengið framhjá gististaðnum.  Ég hafði samband við Ger sem var einhverja kílómetra á eftir mér og það er ekki alltaf auðvelt að eiga samræður við þá sem eru ekki alltaf með þýðingar á enskum orðum á hreinu.  Ýmist var hann undan mér eða á eftir, farinn framhjá skilti með malarvegi.  Ég reyndi að lýsa því sem ég hafði fyrir augum og hann sá þetta allt saman og þannig gekk þetta í dálítinn tíma.  Ég ákvað því að ganga til baka.  Gæti verið að hann hefði farið framhjá mér án þess að ég yrði þess vör á meðan ég var að dunda mér á malarveginum?  Nei það gat bara alls ekki verið.  Ég rölti til baka og eftir dágóða stund birtist hann við gististaðinn sem ég hafði gengið framhjá því hann var ekkert merktur nema með Pilgrimsleden herberge.  Og bílstjórinn minn hann Jon hefur eitthvað misskilið þetta þegar hann sagði að það væru 8 km til gististaðarins.  

Svo ég var bara komin langleiðina á gististaðinn sem við eigum að vera í á morgun.  En allt endaði þetta nú vel.  Gangan mín í dag var ekkert óskaplega löng, einhverjir 5 km, en ágætt ef maður er ekki heill heilsu.  Nú erum við á Herberge gististaðnum við Þrándheimsfjörð og á morgun ætlum við til eyjarinnar Tautra.  

Ég ætla að semja við gistibóndann hérna og vita hvort hann geti skutlað mér áleiðis á morgun.  Það væri rosa fínt að taka kannski 8-10 km því leiðin er 23 km.  Ég er bara ágæt, þarf helst alltaf að vera á röltinu og ef ég sest niður og sit of lengi þá leiðir verkurinn alveg beint upp í hné og ég draghölt en þegar ég er komin á skrið þá er ég bara alveg ágæt.  

Nú skín sólin, blankalogn úti og ég sit inni og vona að þið eigið góðan og ljúfan dag.  Og hamingjuóskir til stelpunnar minnar og mannsins hennar með 19 ára brúðkaupsafmælið - það var góður dagur fyrir 19 árum, gleymist ekki.  Í lokin þetta:  "besta leiðin til að kæta sjálfan sig er að kæta aðra".

Er alltaf að reyna að vera skynsöm og safna kröftum fyrir hnéð mitt, ætla að láta þetta lagast og ég ætla mér að klára - 5 gistinætur eftir.   


16. júní - sunnudagur

Áttu að vera 19 km í dag en urðu 18,1.  Við lögðum af stað klukkan 7:55 og vorum búin að klára klukkan 14:10 en stoppuðum í 1 klst við kirkju og svo 10 mínútur á öðrum stað.

Ég vaknaði snemma og ég viðurkenni það að ég var svolítið kvíðin.  Átti ég að ganga eða átti ég ekki að gera það?  Það var sól og logn úti, ótrúlega fallegt veður og við gerðum bara allt klárt fyrir daginn og ég ákvað að láta reyna á það að ganga í dag.  Fengum fínan morgunverð hjá kjúklingabóndanum Hakon og við Ger kvöddum Larry sem hélt sína hefðbundnu Olavsleið og við héldum okkar leið áleiðis  til strandar.  

Í dag reyndum við að velja bestu leiðirnar fyrir fæturna og Hakon bóndi benti okkur á fallega leið meðfram ánni sem rennur í nágrenninu þar sem hann býr.  Þetta munu vera um 3 km og þetta var ótrúlega falleg leið í skógi að hluta og þar uxu risastórir burknar.  Þá varð mér hugsað "já það eru fallegir litir í þessu græna" (mamma mín).  Ég tók lyfin mín reglulega á leiðinni og ég viðurkenni það alveg að ég fann til í hnénu, en ekki eins mikið og ég átti von á.  Það er svo merkilegt að það er erfiðast fyrir mig að standa upp, stíga í fótinn og byrja, en svo þegar ég er byrjuð þá er eins og það lagist.  Skil þetta ekki.  En auðvitað voru alltaf verkir, þetta er eins og vond tannpína og maður getur ekki alltaf ráðið við þetta.  Þetta er spurningin um að vera skynsamur eða þrjóskur.  En ég notaði stafina mína í allan dag og þeir hjálpuðu.  

Við gengum um fallegar sveitir, lítil umferð, kýr lágu í hópum í sólinni, já það er víst hvíldardagur í dag.  Um tíuleytið komum við til bæjarins Levanger og þar sáum við opna sjoppu - við þangað inn og keyptum okkur ís.  Sá var góður - salt og karamellubragð, nammi namm, ég gleymdi bara að taka snappið!  Frá sjoppunni gengum við í átt að kirkjunni í bænum og hún var opin.  Fallegir mildir grænir og rauðbrúnir litir inni.  Altarismyndin var fallegur gluggi og skírnarfonturinn var hörpuskel sem hvíldi í höndum englastyttu.  Þetta var allt svo fallegt og gott að koma þarna inn.  Við stoppuðum ekki lengi þó því áfram urðum við að halda í gegnum bæinn og komum að tjaldsvæði við sjóinn.  Þar var margt fólk, ungt og gamalt, í tjöldum og húsbílum.  Sumir höfðu nestiskörfu, aðrir sátu á ströndinni og fóru í sjóinn, syntu þar.  Krakkarnir léku sér í sandinum og allir voru að njóta sólar.  Þessi bær liggur eins og í boga meðfram ströndinni, niður að sjó og upp í litlar hæðir, mjög fallegur.  Og bara rétt handan við hornið utan við bæinn komu bændabýlin, heyskapur, allt að gerast.  

Áfram héldum við, við vorum ekkert mikið að stoppa því það er alltaf svolítið erfitt fyrir mig að byrja upp á nýtt.  Rúmlega hálf tólf komum við að annarri kirkju, svolítið úti í sveit.  Það var Alsdalhaug kirkjan.  Við settumst á bekk undir kirkjuveggnum í sólinn og hitinn um 28 gráður.  Inni í kirkjunni var messa og skírn, fjögur lítil kríli fengu þar nöfnin sín.  Við ákváðum því bara að bíða í rólegheitum og fá okkur að borða.  Þegar messu lauk komu allir út og mjög margar konur voru í þjóðbúningum - gaman að sjá það.  Okkur var boðið upp á kaffi og kex í sólinni úti en við vorum búin að nesta okkur og smelltum okkur inn í kirkjuna til að mynda.  Ég greip prestinn og fékk mynd af okkur saman - alltaf gaman að hitta fólk og spjalla.  Eftir góða stund þarna inni héldum við áfram og útsýnið var alltaf jafn fallegt, sjórinn, býlin og bæirnir.  Litlar og stórar eyjar í sjónum, skemmtibátar af ýmsum stærðum ýmist bundnir við bryggju eða þá einn og einn sigldi út á sundin blá.  

Þegar við vorum að nálgast gististaðinn komum við að afgirtri girðingu þar sem voru kýr með kálfa.  Kálfarnir hoppandi og skoppandi að leika sér, kýrnar litu allar upp, horfðu á okkur og er við vorum komin framhjá þá tóku þau á rás og eltu okkur eins langt og þau komust - ótrúlegar þessar skepnur.  Og nú birtist Laberget gistihúsið okkar.  Það stendur á fallegri hæð og sjórinn bara rétt fyrir neðan en ofan við húsið hinum megin við götuna er lítil fjallshlíð þakin trjám.  Ég var afskaplega fegin og líka glöð og þreytt að komast inn - þetta gekk hjá mér í dag.  

Á morgun kemur nýr dagur og hvað gerist þá kemur í ljós, geng ég eða fæ bílfar, það er spurning.  Það er spáð rigningu næstu daga - ég skal senda ykkur hana.  Ég vona að þið hafið gleðilega þjóðhátíð á morgun, hér verður litli fáninn minn að duga.  Mér líður bara vel, ætla snemma í rúmið, hafið það sem best.  Ég geri mitt besta til að hafa það gott, þetta styttist með hverjum deginum.  Í lokin þetta:  "hlúðu að því sem þér þykir vænt um".

Þreytt, sólbrennd (svolítið) en glöð yfir deginum.    


15. júní - laugardagur

Ekki gekk ég þennan daginn, ákvað að taka einn dag í viðbót í hvíld.  Það var fallegt veður, sólarlaust, og við þrenningin borðuðum morgunmat saman áður en þeir lögðu af stað út í daginn. Ég held áfram að vera skynsöm og fer akandi til Munkeby um hádegið.  Kom þangað klukkan 12:30 eftir að hafa ekið um fallegar sveitir með góðum bílstjóra.  Hér gistum við í Munkeby herberge.  Þetta er falleg jörð með gömlum húsum.  Miklar byggingar og allt svo fallegt.  Þarna hefur fjósi verið breytt í gistiheimili en ég fékk þetta gamla, sem er æðislegt.  

Kallarnir (strákarnir) komu svo um klukkan 13:30.  Þeir voru bara brattir eftir rúma 18 km en þeir sögðu að leiðin hefði verið mikið upp og niður og ég er ekki mikið fyrir það þessa dagana.  Núna sit ég hér úti í sól og blíðu, þvotturinn hangir úti á snúrunni og ég er vongóð.  Ég er miklu betri í dag en í gær og ætla að byrja á að ganga 8 km á morgun, til að sjá til.  Á morgun verður breyting á leið okkar Ger en Larry gengur áfram hina óbreyttu Olavsleið.  Það er mynd í myndaalbúminu "vika fjögur" sem sýnir hvaða leið við ætlum að fara og á myndinni er leiðin okkar með grænum punktalínum.  Við göngum til Levanger sem er meira til vesturs og leiðin liggur með Þrándheimsfirði og út í eyjuna Tautra.  Á leiðinni þangað munum við gista á tveimur stöðum áður en við komum til Tautra en í eyjunni verðum við eina nótt og förum svo með bát til lands á ný daginn eftir.  

Það er hægt að sigla með bátnum beint til Þrándheims en við ætlum að fara aftur inn á hefðbundnu Olavsleiðina.  Við byrjum á því að gista í Ersgard.  Þessa leið teljum við betri fyrir mig, vonandi getum við gengið þetta og okkur langar að skoða þessa litlu eyju.  Þar mun verða ýmislegt skemmtilegt og merkilegt að sjá.  Ég er bara spennt, hlakka til og vona það besta.  Í lokin þetta:  "eins og vorblær vonin hlý, vefji þig örmum sínum.  Svo þú megir sjá í því, sól á vegum þínum."

glöð, vongóð, bjartsýn kona í dag í sólinni.

 

 


14. júní - föstudagur - hvíldardagur

Við erum enn hér í Stiklestad þremenningarnir og ég hvíli auma hnéð.  Fór snemma í háttinn í gær og svaf vel og þegar ég vaknaði og leit út um sjöleytið var gott veður.  Það var sólarlaust og logn, hefði nú verið gott að ganga í dag.  Ég náði sambandi við lækni í morgun í síma og hann ráðlagði mér að spara mig, allavega í dag, bera bólgueyðandi gel á auma blettinn og taka verkjalyf, forðast sem mest upp og niður klifur ef hægt er.  Eftir morgunmatinn og læknaviðtalið tókum við þá ákvörðun að fara með leigubíl til Verdal sem er 4 km hér í burtu.  Við þurftum að komast í hraðbanka og hafa seðla á reiðum höndum fyrir gistingarnar sem eftir eru.  Allt gekk það vel og ég fór í apótekið og keypti allskonar krem og lyf og vonandi hjálpar það eitthvað.  

Þegar ég kom aftur fór ég bara inn í herbergi að hvíla mig og ætla að hvíla mig fram að kvöldmat.  Ef ég verð ekki góð á morgun þá tek ég bíl til Munkeby, sem er næsti gististaður.  Þannig er staðan á mér í dag, ekki að svekkja mig á þessu meira, þetta gæti verið verra - svo miklu miklu verra.  Svo fékk ég gott símtal áðan að heiman, þá líður manni alltaf betur, þegar maður fær góð símtöl.  Læt vita af mér á morgu, vona að þið hafið það gott í sólinni.  Í lokin þetta:  "það sem þú átt í vasanum er ekki mikilsvert, eingöngu það sem þú átt í hjartanu".  

Pílagrímakonan sem vonar það besta.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband