13. júní - tuttugasti dagur göngu - eða ekki göngu!!

Jæja þar kom að því þennan morguninn að ég tók skynsamlega ákvörðun, að þiggja far til Stiklestad með Kai og hvíla mig þar í dag og ef til vill á morgun líka.  

Það var rok og rigning fyrst í morgun þegar ég kom út.  Gangan í dag eru 10 kílómetrar, sem ég sleppi, já svona er þetta stundum - hefur ekki gerst fyrir mig áður.  Ger og Larry gengu báðir og Ger lagði af stað á undan og var líklega kominn dálítið langt þegar Larry lagði af stað.  

Kai og ég ókum til lítils bæjar sem heitir Verdal, en þar var unglingurinn hans að fara í lokapróf í menntaskóla.  Svo ég fékk bara ágætis bíltúr út úr þessu, fram og til baka.  Þegar við komum til Stiklestad þá ók Kai mér upp í skála sem er byggður eins og þeir voru á víkingaöldinni.  Eina sem vantaði fyrir mig þar voru föt eins og voru á þeim tíma, hefði alveg verið til í að vera í svoleiðis.  Inni í skálanum var maður sofandi þegar ég kom inn.  Hann settist upp og bauð góðan daginn. Það var fullorðinn maður á besta aldrei eins og ég, þjóðverji.  Hann er að ganga í öfuga átt og ekki þennan hefðbundna Olavsveg.  Við spjölluðum dálítið saman og svo rölti hann sér niður á veitingastað í morgunmat.  

Ég settist upp í eina "kojuna" (hægt að kalla það svo) og hvíldi mig í c.a. klukkutíma.  Auðvitað er ég svolítið leið að geta ekki haldið mínu striki en ég hef það gott.  Ef ég á möguleika á að halda áfram og klára eftir tveggja daga hvíld þá verð ég sátt.  Þannig að Hvítárbakkaþrjóskan lét undan fyrir skynseminni, held ég sé bara aðeins að þroskast og kannski kominn tími til.  Allavega mun ég vera hér í tvær nætur.  

Og ég get bara ekki þakkað Monu og Kai fyrir alla hjálpina, verkjalyfin (mín voru búin) og hvað þeim var umhugað um að mér liði sem best.  Sannir vinir pílagríma.  Eftir hvíldina í kojunni byrjaði ég að rölta aðeins um í rólegheitum, finna hvernig mér liði í fætinum.  Það gekk alveg ágætlega, ég náttúrulega er með verkjalyf og kannski er það þess vegna sem þetta gengur ágætlega.  

Hér í Stiklestad snýst allt um víkingatímann og Ólaf helga.  Líf hans og dauða hér á Stiklestad 1030.  Hér er lítil kapella helguð honum frá 930 og mikil uppbygging hér í ýmisskonar húsnæði og Kai, bjargvætturinn minn, er þar aðal maðurinn í að smíða allt mögulegt eftir gömlum aðferðum.  Kapellan var lokuð og er víst bara opin einhverja örfáa daga á ári.  

Ger hringdi svo til mín milli 10:15 og 10:30 og þá var hann að birtast hér á svæðinu svo ég rölti niður í stóru kirkjuna og við hittumst þar.  Hún var lokuð svo við fórum upp á gististaðinn og hann kom sér fyrir og sagði mér frá göngunni í morgun og var bara glaður yfir því að ég skildi hafa farið í bíl.  Klukkan 11 fórum við niður í kirkju sem er steinkirkja frá 1180 og hún er reist á þeim stað þar sem talið var að Ólafur helgi hefði verið drepinn (eftir því sem sagan segir).  Steinninn sem Ólafur mun hafa dottið á eða legið við er hann lést er undir altarinu (segir sagan að þetta sé steinninn).  Málverkin á hliðarveggjum kirkjunnar eru ótrúlega falleg og vel með farin.  Þetta eru 30 verk sem segja sögur úr biblíunni og hollenskur maður talinn hafa málað þau 1688.  Ég sendi nokkrar myndir af þeim inn á bloggið (stelpan mín bjargar því eins og alltaf).  

Kirkjan var löguð um 1930 og lítur mjög vel út.  Veggirnir hennar eru meira en meter á þykkt og það sést vel á myndunum mínum af gluggunum (vonandi sjáið þið það).  Þetta er svo fallegt hús, eitthvað svo hlýtt, einfalt og notalegt.  Og hér er líka lítil Orthodox kapella og á svæðinu öllu eru amk þrjátíu byggingar, bæði gamlar og nýjar.  Það hefur mikið verið gert upp af þessum gömlu.  Árið 2030 stendur til að hafa heljarinnar hátíð hér.  Við Ger röltum aftur uppeftir eftir að hafa skoðað kirkjuna.  Larry var mættur á svæðið og þeir voru bara glaðir með gönguna sína í morgun.  Og allir sáttir að taka hvíldardag svo ég eigi möguleika á að geta haldið áfram.  Við sjáum til hvernig þetta fer.  Allavega er sólin farin að skína hérna núna eftir hellirigningu í morgun.  Svo þannig er dagurinn minn í dag, ég er bara sallaróleg og sátt og vonandi - vonandi - get ég haldið áfram.  Í lokin þetta:  "gefstu ekki upp, velgengni í lífinu er langhlaup".

Konan í rólegheitum - og nú væri gott að fá hlýjar hugsanir frá ykkur.  Þarfnast þeirra svo sannarlega núna.  Hafið það sem best þið öll,

kær kveðja!   


12. júní - miðvikudagur

Nítjándi dagur á göngu, 23,4 kílómetrar.  

Gengum frá gistiheimili indjánans til Vuku.  Við Ger lögðum af stað klukkan 6:45 í þurru og sólarlausu veðri.  Larry ætlaði að láta aka sér hálfa leiðina því eins svo oft áður var mikið um malbik og hann er ekkert sérlega hrifinn af því.  En við félagarnir ákváðum í morgun að ganga malbikið mín vegna, það væri styttra og ekki miklar upp og niður göngur og þetta var ákveðið vegna þess að hægra hnéð er aðeins að kvelja mig og vonandi gengur þetta til baka.  

Veðrið lék við okkur, allhvass vindur í bakið, umferðin ekkert of mikil og þéttur skógur á báða vegu lengi framan af.  Þegar maður er svona "einn" með Guði þá er nú ýmislegt sem kemur í hugann, t.d. að fá smá aðstoð við að minnka sársauka í hné, þakka fyrir hvíldina síðastliðna nótt og að fá að vakna til nýs dags.  Ég hlakka til hvíldar í Stokkhólmi þegar þessu líkur.  Við stoppuðum þó reglulega og hvíldum okkur, alveg nauðsynlegt.  

Á leið okkar í dag sáum við kýr og kindur og bjölluhljómurinn ómaði frá þeim svo fallega, bara eins og á Jakobsveginum á Spáni.  Þegar nær dró Vuku bænum opnaðist landið, stór og falleg býli, stórar grænar sléttur og nýræktir.  Mikið að gerast hjá bændum allsstaðar þar sem við fórum hjá.  Við áttum leið framhjá bæ einum Stene Garde og þar kom Ger auga á bekk og borð.  Hann sveif því á mann sem var þarna á hlaðinu og við fengum leyfi til að tylla okkur.  Og ekki nóg með það, maðurinn Egil, náði í kaffi, mjólk og bolla og konan hans, Ase, bættist í hópinn í hlýjunni því nú hafði lygnt og sólin skein.  Þarna sátum við lengi og þau sögðu okkur ýmislegt um staði sem við eigum eftir að ganga hjá og þetta varð hið besta kaffiboð.  Yndisleg stund með þeim hjónum.  Ase kom með krem, lét mig fara inn á klósett og bera á hnéð, þetta var eitthvað bólgueyðandi frá Tælandi.  Ég held að það hafi bara virkað vel.  Við kvöddum þessi elskulegu hjón eftir myndatöku og gengum síðustu þrjá kílómetrana niður í fallegan dal.  

Efst í hæðinni áður en við gengum niður blasti Vuku bærinn við, fallegur, lítill bær.  Þegar niður var komið kíktum við í búðina, það var keypt í matinn og smá nesti fyrir morgundaginn.  Við hittum Larry í búðinni en hann gekk 14 km í dag og við förum öll til Stiklestad á morgun, ef allt gengur vel.  

Við erum komin í gistinguna og hún heitir Auskin Kreative Senter.  Ótrúlega fallegt allt, hreint og vel um gengið.  Yndisleg hjón Mona og Kai.  Hún kom með kaldan bakstur á auma hnéð og lét mig hafa það hér inn í rúm, ég er ekki frá því að mér líði betur.  Hún er öll af vilja gerð að hjálpa mér og ég er afskaplega þakklát.  Þessi gististaður er svolítið fyrir utan bæinn og hún kom til mín áðan hún Mona og spurði hvort ég vildi koma að skoða handverksverkstæði þeirra hjóna.  Við, ég, Ger og Larry fórum með og hittum manninn hennar, þar sem hann var að vinna/leika sér.  

Þvílíkt ævintýri sem er þarna inni.  Kai er handverksmaður á Stiklestad, þar sem Ólafur helgi var drepinn.  Hann fræddi okkur um ýmislegt sem þar er í gangi. 

Þarna áttum við heillanga stund með þeim og ótrúlega gaman að fræðast um það sem þetta fólk er að gera.  Kai ætlar að taka bakpokann minn til Stiklestad í fyrramálið svo ég þarf ekkert að bera á morgun, bara nota göngustafinn, vonandi get ég klárað þetta.  Þetta eru ekki nema 11 eða 12 kílómetrar.  Nú er kvöldmaturinn að baki, heitur og góður kjúklingaréttur og svo er að hvíla sig til morguns.  Í lokin er það þetta:  "eitt mesta leyndarmál lífsins er, að allt sem einhverju máli skiptir - er það sem við gerum fyrir aðra".

Hlakka til að hvíla mig og vonandi verður líkaminn góður á morgun,

góða nótt elskurnar.


11. júní - þriðjudagur

18. göngudagur og 24,2 kílómetrar.  

Larry hafði útvegað okkur frelsandi engil til að aka okkur í morgun.  Hann flutti okkur 8 km út í sveit svo við þyrftum ekki að ganga á malbikinu eftir daginn í gær.  Við vöknuðum eldsnemma enda farið í draumalandið klukkan 20 kvöldið áður.  

Gangan okkar hófst svo klukkan 8:50 á yndislegum stíg inni í runnum, sól og fallegt veður.  Gaman að sjá sólargeislana leika sér í gegnum laufið milli trjánna.  Falleg lillablá blóm að opnast og urðu hvít í sólinni.  Fiðrildi flögrandi, fuglar syngjandi, Gúgú fuglarnir, hrein dásemd.  Við gengum á svokölluðum Karls Jóhanns vegi en þessi vegur var byggður af hermönnum á 19. öldinni og verkamönnum.  Stór og mikill steinn er á þessari leið og í hann er hoggið 1834 en þá var þessi vegur trúlega vígður.  Stuttu síðar gengum við að landamærum Svíþjóðar og Noregs í sól og blíðu.  Nákvæmlega klukkan 10:20.  Þetta var svolítið sérkennilegt.  Varðan á landamærunum er búin til úr steinum sem eru eins og flögur.  Við vorum búin að ímynda okkur að þetta væri stórt og mikið en þetta er bara ekkert svo stórt, eins og sést á myndunum.  En tilfinningin var alveg æðisleg - þetta hafði tekist og gengið áfallalaust.  Að leggja Svíþjóð að velli frá austri til vesturs var bara alveg frábært, gleði og meiri gleði og þarna stoppuðum við í rúmar 40 mínútur.  Á vörðunni þarna stendur Svíþjóðarmegin Sveriga 1929 og hinummegin Norge 1929.  Og svo tók Noregur við.  

Leiðin lá upp og niður, fallegir dalir, stór gljúfur, litlar tjarnir, fallega formuð fjöll, mjúkar línur þar.  Fjöll í fjarska, öll í stórum trjám.  Það var létt að ganga, gott fyrir fæturna.  Við gengum fram á minnisvarða þar sem sagt er vera hæsti punktur á Olavsleiðinni, 2000 fet yfir sjávarmáli.  Allt í einu birtist pílagrímur rétt fyrir framan okkur.  Hann var frá Belgíu og gengið frá Selanger til Östersund í fyrra og var að taka seinni helminginn núna.  Annars höfum við ekki orðið mikið vör við mannaferðir, bara við Ger, sænska Agneta sem við hittum aftur í gær og Larry, ameríkaninn sem við vorum með í dag.  Svo þessi leið er alveg kjörin fyrir fólk sem vill frið og ró.  

Við héldum áfram um góða stíga og svo komum við að gatnamótum þar sem við gátum valið.  2 km á steyptum vegi og umferð eða 4 km á þessum mjúka í skóginum.  Ég valdi skógarstíginn því það áttu að vera um 4 km en urðu 5.  Já þetta var seinfarið, klifrað upp, rétt skref fyrir skref upp og niður, bleyta og drulla.  En það hafðist og er niður var komið tók við vegur með leiðinlegum ofaníburði í langan tíma.  Allir þreyttir og svo kom í ljós að við urðum að ganga 750 metra til baka þegar við vorum búin að ganga yfir göngubrú sem dúaði og hreyfðist í hverju skrefi.  Ekki alveg það sem ég vil en þetta hafðist og við komum á gististaðinn klukkan 15:40.  

Þar úti voru stólar og borð, kaffi, te, súpur í pökkum og helluborð ef við vildum fá okkur eitthvað.  Þarna sátum við í sólinni, skórnir teknir af þreyttum og sveittum fótum, og létum okkur líða sem best.  Svo kom gestgjafinn sem var hinn sami og keyrði okkur í morgun.  Tómas, ættaður frá Þýskalandi, hefur verið hér í 14 ár.  Ég held að hann sé indjáni, sítt svart hár í fléttu, fjaðrir og dót sem minna á heim indjána eru hér og staðurinn heitir Appalousa Rendezvous.  Já ég er alveg viss um að hann er af indjánaætt.  

Það er gott að vera komin í hús, geta glaðst yfir því að hafa klárað svíþjóðargönguna og nú eru noregsdagar framundan.  Vonandi svolítið auðveldari, allavega meira niður í móti, þó það sé ekki alltaf gott.  Smá eymsli eru að hrjá mig í öðru hnénu en vonandi verður það í lagi á morgun, sjáum bara til.  Jæja gott fólk, 2/3 hlutar leiðarinnar eru búnir.  Ég er bara kát með það.  Nú verður langur dagur á morgun.  Við göngum frá Sul til Vuku, 27 kílómetrar.  Meira um það síðar og í lokin þetta:  "brostu, það er ókeypis lækning".

Þakklát kona leggst snemma í pokann sinn, góða nótt.


10. júní - mánudagur

23,4 kílómetrar.  

Við þrjú, ég, Ger og Larry vorum snemma á fótum klukkan 6.  Það lá fyrir að ganga á malbiki í mikilli umferðaræð í mestallan dag.  Frá Tannforsen til Medstugan.  

Við nærðumst og gengum frá í bústaðnum og út í dag sem var grár, þokuslæða til fjalla og smá úði á okkur.  Ég var í úlpu, með buff um hálsinn og ullarvettlinga í allan dag.  Það var vindur, kalt, engin sól, hráslagalegt.  Fólksbílar, húsbílar, mótorhjól og stórir flutningabílar þutu hjá og við máttum sannarlega passa okkur.  Við vorum nefnilega ekki með neinn sérstakan göngustíg í dag, það var bara gatan.  

Útsýni höfðum við í byrjun yfir Tannsjön vatnið sem er mikið fiskivatn og þar voru tveir karlar á sitthvorum bátnum að reyna að fá hann.  Á vegi okkar á leiðinni í dag urðu þrjár hlaðnar steinbrýr frá miðri 18. öld.  Það munu vera til við landamæri Svíþjóðar 20 aðrar álíka brýr.  Ég tyllti mér á eina, einn stöpula á brúnni yfir Asan, en hún var með þrjá boga sem vatn lekur gegnum og er 46 metra löng.  Ég er alltaf svolítið veik fyrir hlöðnum brúm, þær eru svo fallegar og hafa mikla sögu. Ef þær gætu sagt frá.  

Ekki var þessi dagur með mikla tilbreytingu fannst okkur, vegur, endalaus vegur, skógur á báðar hendur þannig að lítið sást.  Hvergi neinir bekkir til að setjast á þannig að Ger bankaði á eitt hús við veginn, hafði komið auga á konu þar fyrir innan og hún bauð okkur að setjast á bekk fyrir utan húsið.  Það var kærkomin hvíld að sitja þar við húsið og borða og láta líða úr sér smá stund.  

Ég get sagt ykkur það að þegar við komum á áfangastaðinn Medstugan klukkan tvö í dag vorum við öll ofboðslega fegin.  Medstugan er fallegur staður, það er snjór í fjöllum ekki svo langt frá okkur, vatn út um gluggann og á liðast niður og við komin inn í hlýjuna.  

Þessi dagur var sá erfiðasti og leiðinlegasti til þessa og vonandi verða ekki fleiri þannig.  Svo bloggið er stutt í dag, vonandi bjartari dagur að morgni með fallegu útsýni.  Hafið það gott elskurnar, hvar svo sem þið eruð, hugsa heim, hlakka til, nú fer þetta að styttast.  Sautjándi dagurinn í dag.  Í lokið þetta:  "leiðin er ekki staður til að masa heldur til að hlusta".

Konan, þreytt í fótum en glöð að enn einn dagur fékkst gefinn. 


9. júní - hvítasunnudagur

Við gengum frá Fjallgarden hótelinu til Tannfossen, 23,2 kílómetrar.  Flottur staður.  

Það hellirigndi í nótt, stytti upp klukkan hálf sjö, sól og logn.  Morgunmatur á hótelinu klukkan átta, svo gott að ganga að borði með öllu mögulegu, góðu og orkuríku.  Klukkan 8:30 hófum við göngu niður slönguveginn og fórum að gömlu Are kirkjunni sem var reist um 1100.  Eina miðalda steinkirkjan í fjöllum Skandinavíu.  Klukkuturninn var settur á kirkjuna 1750.  Þetta er fallegt hús og við gátum skoðað hana að innan, opin var hún.  Stytta er af heilögum Ólafi er þar inni, búin til úr tré og hann hafður með hatt á höfði - ekki kórónu.  

Við gengum frá kirkjunni og leiðin lá um græn svæði, yfir brautarteina og meðfram Aresjön vatninu allt til lítils bæjar Duved.  Þar keyptum við inn til næstu daga og ég reyndi að velja allt sem léttast.  Komum við hjá kirkjunni í bænum, hún var læst.  Falleg ljósgrá timburkirkja frá 1894 með þremur turnum.  Við tókum myndir og fengum okkur hádegissnarl.  

Á leið okkar þegar við héldum áfram voru fullorðnir menn á hjólaskíðum, ekki slegið slöku við þó enginn sé snjórinn.  Krakkar í fótbolta, úti að hjóla, já líf í litla bænum.  Við héldum nú áfram göngunni og næsti áfangastaður var minnimerki um stríð sem háð var 1718-19.  Þar létust eða frusu í hel meira en 3000 hermenn.  Þetta er kallað minnisvarði um Carolean death Arch.  Ég á eftir að lesa meira um þetta þegar ég kem heim - mig langar að vita meira um hvað þetta var.  

Sólin skein, smá andvari og malbik, er bara farin að venjast því svolítið en ekki þessum hita.  Nú varð okkur gengið framhjá stórum golfvelli og þá var von um kaffi.  Við gatnamótin niður á gatnamótunum hittum við Larry frá San Diego.  Hann er einn á ferð, lét skipuleggja gönguna fyrir sig og byrjaði gönguna í Are í morgun.  Hann sagði að gott kaffi og sætt væri í golfskálanum og við þangað.  Hann gistir á sama stað og við næstu tvær nætur.  

Við Ger áttum góða hvíldarstund við kaffidrykkju áður en síðustu 8 kílómetrarnir yrðu kláraðir.  Það var allt á malbiki og er á leið göngu var mér orðið svo heitt að ég tók aðra vatnsflöskuna mína og hellti úr henni yfir höfuðið á mér, vá hvað það var gott og hressandi, stelpan mín hún kannast við þessa líðan.  

Klukkan 15:30 komum við í Tannfossen, lítill bústaður en notalegur og allt til alls nema netið.  Þá var Larry mættur þar og við spjölluðum öll mikið saman á milli þess sem einhver skolaði af sér ferðaryk og svita.  Þá var komið að því að skoða stærsta foss Svíþjóðar, Tannfossen fossinn.  Hann var í 650.m göngufæri frá okkur og þvílíkur foss, ég var orðlaus.  Samkvæmt minni bók var talað um 800 cubis metrar á sekúndu.  Ég veit ekkert hvað það þýðir.  Vegur var lagður upp að fossinum 1906 og hingað kemur fjöldinn allur af ferðafólki, innlendu og erlendu, enda ótrúlegur foss að sjá og heyra drunurnar og kraftinn.  

Við gengum til baka og á leiðinni, já hvað haldið þið, það fór að hellirigna.  Við náðum að taka þvottinn inn og þá var allt í góðu.  Svo bíðum við Ger eftir því að vita hvort við getum fengið far í bíl með Larry á þriðjudagsmorgun 10-15 kílómetra.  Eina gistingin sem er í boði á þriðjudag, það svarar aldrei neinn þar.  Svo nú verðum við að bíða og sjá.  

Í lokin þetta:  "það er gott að geta glaðst af öllu smáu, leiftrandi daggperlur á laufi, lækjarins niði".

Pílagrími, glöð að skríða í pokann sinn.      


9. júní - hvítasunnudagur

Sæl öll, það er hér ritarinn sem heilsar (sumsé dóttir hennar Rúnu, Særún).  Mamma hringdi, hún er í góðu formi en verður netlaus í dag og á morgun.  Hún er núna stödd í Tannforsen (þessi staður er ekki á kortinu góða sem leiðin er merkt inn á en hlýtur að vera nálægt einhverju kennimerki þar).  Á morgun fer hún svo til Medstugan.  Þau hafa verið að reyna að ná sambandi með öllum tiltækum ráðum við gististað milli Medstugan og landamæranna en þeim er ekki svarað svo þau þora ekki að treysta á að fá gistingu þarna.  Ef svo færi að enga gistingu væri að fá myndu þau þurfa að ganga yfir 30 kílómetra í stað yfir 20 og það er bara of mikið í hitanum sem þarna er núna.  Þau hittu ameríkana í Tannforsen sem er líka að ganga og hann mun láta sækja sig til Medstugan og aka um 10 km lengra og hefja göngu þar.  Þau fá vonandi far með þessum heiðursmanni sem þýðir að á þriðjudag munu þau fara yfir landamæri Svíþjóðar og Noregs :)  Spennandi.  Annars bað hún vel að heilsa og sendir kærleikskveðjur til allra.


8. júní - laugardagur

Gengnir voru 23,2 kílómetrar.  Við gengum frá Ristafallet Camping til Stora Are.  

Við nærðumst og klukkan 7:30 var lagt á brattann.  Hlýtt og fallegt og fuglasöngurinn sendi okkur fallega morgunkveðju.  Það var strax upp og meira upp í byrjun - erfitt já - en svo fórum við að sjá yfir landið.  Eftir um klukkutíma vorum við komin upp og þá gátum við séð árangur erfiðisins.  Það var sviti og ör hjartsláttur, sjóðandi fætur í skónum, allt var þetta sem fylgdi en það var gaman að fá að njóta þessa útsýnis sem blasti við okkur.  Ólýsanlega falleg náttúra, tré upp um allar hlíðar og öll fjöll, hús og sveitabæir kúrandi í hlíðunum.  E14 langt fyrir neðan, járnbrautarteinar og Indals áin, skýjahnoðrar á himni og af og til geislar sólarinnar.  Allt þetta fengum við þegar við vorum búin að erfiða þessa morgungöngu.  Við hefðum svo sem alveg getað gengið meðfram E14 umferðinni, stytt okkur leið og losnað við þessar uppgöngur en ég hefði ekki viljað skipta.  Þar að auki var alltaf mjúkt undir fæti, æðislegt, skógarstígar, tún, þéttir runnar, algjör sæla fyrir fætur og huga.  

En svo þurfti að fara aftur niður!  Já það getur nú líka verið erfitt, reynir á hnén og þarf að gæta sín svo ekki fari illa.  Ofan úr hlíðunum horfðum við á Aresjön í þessu dýrðarinnar veðri.  Það liðaðist áfram í fallegri grænni náttúrunni.  Framhjá einum bónabænum sem við gengum var búið að setja upp skilti þar sem var bannað að ganga, pílagrímar og hjólreiðafólk átti ekki að ganga þarna, þannig að við urðum að taka á okkur krók.  Það var svo sem allt í lagi.  Þegar við vorum búin að taka þennan krók á okkur komum við að stóru tjaldsvæði og þar var á stóru skilti auglýst kaffi og allt mögulegt og við ætluðum aldeilis að gæða okkur á því.  En nei, allt lokað.  Ég tók af mér pokann og sagði Ger að ég ætlaði aðeins að hvíla mig, allt í góðu með það.  

Meðan við hvíldum okkur þarna örskamma stund kom til okkar kona sem spurði hvort við værum að ganga Olavsveginn, við sögðum svo vera.  Hún var sænsk og heitir Agneta og hún var búin að taka eina og eina leið en hafði svo tekið strætó eða lest og þannig hafði þetta gengið hjá henni koll af kolli.  Hún var orðin slæm í hnénu og tók því þessa ákvörðun - að dúllast þetta í rólegheitunum.  Eftir svolítið spjall kvöddumst við og við héldum okkar leið og nú var gengið á grjóthörðum - já í alvöru - grjóthörðum malarvegi síðustu kílómetrana til Are.  Á þeirri leið barst ilmurinn af kúamykju sem dansaði til okkar í golunni.  Það var eitthvað svolítið heimilislegt við þetta.  

Og nú var farið að hitna vel.  Já sú gula braust fram úr skýjabólstrunum og skein yfir okkur og allt.  Nú var enginn skógur, bara örmjór stígur til hliðar við E14 - ekkert sérlega hressandi við það.  Are bærinn stendur á óskaplega fallegum stað og þetta er þekktur skíðabær.  Þar hafa meðal annars verið haldin nokkur heimsmeistaramót á skíðum.  Hingað flykkjast íbúar frá Stokkhólmi á skíði - það þykir eitthvað voðalega mikið fínt.  

Nú jæja, það var hvergi pláss fyrir okkar í gistihúsunum niðri í bænum og fengum við gistingu á skíðahótelinu Fjall hotelet sem er í 800 metra hæð fyrir ofan bæinn.  Áður en við fórum þangað var haldið á veitingastað og við fengum okkur að borða ásamt Agnetu, konunni sem gengur þetta í pörtum, hún birtist þarna allt í einu.  Ég var alls ekki tilbúin að leggja á mig 800 metra uppgöngu í þessum hita með pokann á bakinu.  Ger stökk til, stoppaði leigubíl og talaði við bílstjórann og það var samþykkt að hann næði í okkur eftir hálftíma.  Og þetta var nú meiri ökuferðin.  Slönguvegur liðaðist upp fjallið, krappar beygjur, mér leist bara ekkert á þetta.  En upp komumst við heilu og höldnu og inn á hótelið vorum við komin klukkan fjögur.  

Nú er bara verið að hvíla sig, sólin skín hér eins og hún hafi aldrei gert það áður, ég ætla aðeins að kíkja út á eftir.  Á morgun þurfum við að kaupa nesti fyrir fjóra daga því hvergi er hægt að kaupa nesti þessa fjóra daga.  Engar verslanir eða sjoppur, því verður keypt inn og þá þyngist nú pokinn eitthvað.  Er svolítið þreytt í fótunum í dag, læt þessu lokið í bili en annars er ég bara góð.  Í lokin þetta:  "hamingjan vex í okkar eigin garði og hana er ekki hægt að tína í öðrum görðum".

Bara góð - miðað við aldur. 


7. júní - föstudagur

Þetta er 14. göngudagur, 21,1 kílómeter.  

Gengum frá Mörsil til Ristafalled sem er nærri Hallandsgarden, aðeins lengra.  Fallegt veður þegar ég vaknaði, skýjað og logn þegar við kvöddum gististaðinn okkar klukkan 7:45.  Það var góður dagur framundan, stuttur og leiðin lá meðfram Indals ánni.  Á þeirri leið voru ýmsar minjar og munir frá því að þarna tjölduðu hermenn í einhverju stríði.  

Þessi á sem við gengum meðfram í dag verður að stóru vatni sem heitir Litlen og það er eitt mesta veiðivatn í Svíþjóð.  Þar var einn sem við hittum með lítinn hvutta og þeir félagar ætluðu að renna fyrir fiski.  Svo kom að því að við urðum að ganga E14, alla leið meira og minna til þorpsins Jarpen sem er frekar stór bær á mælikvarða þeirra sem við höfum verið að fara um.  Tylltum okkur þar við borð sem var úti við veitingastað og keyptum okkur kaffi.  Þar var þetta bara alveg eins og heima, ekki talað tungumál landsins og jafnvel ekki ensku.  Þannig að það er ekki alltaf allt verst heima!  

Eftir gott stopp var haldið af stað og nú komu þessir mjúku og leiddu okkur að fallegum rústum.  Þar hafði verið kirkja Undersaker kirkja.  Veggir hennar eru 1 1/2 meters þykkir, búnir til úr graníti og kalksteini.  Engin kirkja stendur þar lengur, aðeins veggirnir, en fallegt er þarna og einstaklega vel umhirt.  Við hliðina er kirkjugarður sem er líka mjög gamall.  Þarna dunduðum við okkur við að skoða og mynda og sólin var farin að skína.  Þá var derhúfan sett upp og þannig var þetta um tíma.  Eftir að við yfirgáfum þessar rústir gengum við einhverja kílómetra, kannski 2-3.  Þá komum við að Undersaker kirkjunni sem nú er notuð og hún er frá um 1800.  Stendur á fallegri hæð, mjög falleg að utan og læst.  Þannig er það um flestar kirkjurnar sem við förum framhjá.  

Nú var rölt í skógi, gott að hafa skuggann af trjánum, fiðrildi á flugi allt í kringum okkur og skýjabólstrar léttu mér lífið með því að loka fyrir þessa heitu gulu.  Það var samt heitt í allan dag þó ekki skini sólin eins og í gær.  Þegar við komum út úr þessum skógi blasti við okkur eftirlíking af miðaldar stafkirkju og þessi var byggð 1999 og er nefnd The pilgrim church - Pílagrímakirkjan.  Hún stóð þarna svo einföld og falleg og bauð okkur inn.  Já, hún var opin og þarna var gott að koma, margir fallegir munir að skoða.  

Þetta var notaleg stund sem við áttum þarna inni en áfram var haldið og nú fór heldur betur að heyrast hvinur í ánni sem við vorum alltaf að ganga með.  Það var komið að fossunum og þá var nú Ger aldeilis farinn að njóta sín.  Þegar hann sá neðri og efri Nylands fossana.  Þarna frussuðust þeir niður ótrúlega stórir og kraftmiklir og áin alveg rosalega breið.  Mér stóð bara ekki á sama um þennan ógnarkraft sem ég var að horfa upp á þarna.  Svo varð ég að mynda Ger því hann verður náttúrulega að eiga mynd af sér við alla þessa fossa.  Stærsti fossinn sem heitir Ristafallet er alveg ótrúlega stór.  Þarna var dvalið, skoðað og myndað í dágóða stund og gaman fyrir Ger að sjá þetta því hann hefur enga fossa og engin fjöll heima hjá sér, allt flatt.  

Áfram var haldið og nú vorum við komin á slóðir Ronju ræningjadóttur.  Þarna var eitthvað af myndinni um Ronju tekin upp og sagan var þarna allt um kring.  Nú sáum við gististaðinn okkar Ristafallet tjaldsvæði með tjöldum, veitingastað og sumarbústöðum og þarna ætlum við að vera í nótt.  Ótrúlega fallegur staður, stendur hátt uppi í hlíð, árniður og útsýnið alveg magnað.  Við komum þangað klukkan tvö og þá byrjaði að rigna og síðan komu þrumur og eldingar.  Ég er svo lánsöm, svo einstaklega lánsöm.  Mér finnst það alveg ótrúlegt hvernig við höfum sloppið við leiðindaveður.  Það er sannarlega vakað yfir okkur í þessu ferðalagi.  

Smá skilaboð til hennar Gunnu minnar Páls:  "Gunna mín, hann Ger er með utanumhalds myndina í stóru myndavélinni og ég fæ hana senda síðar, vonandi sést utanumhaldið á henni hahaha".  

Í lokin þetta:  "gerðu þitt besta til að gleðja þig og aðra - þá verður lífið betra og þér líður betur".  

konan sem nálgast takmarkið hægt og sígandi.   


6. júní - fimmtudagur

Frá Wangen til Mörsil.  Í dag voru það 28,6 kílómetrar.  

Það var glaðasólskin þegar ég vaknaði klukkan 6:15.  Allt gert klárt fyrir langan göngudag.  Morgunverðarborðið var sko vel úti látið - allt fullt af öllu mögulegu.  Það voru þakklátir pílagrímar sem lögðu af stað klukkan 7:15.  Í byrjun var ég í flísinu en það var ekki nema ein klukkustund - þá var það komið í pokann.  Þegar við gengum eftir malbikinu þá var sko flaggað fyrir mér á 6 ljósastaurum.  Já íslenski fáninn blakti fallega og ég held því fram að það hafi verið vegna mín, þó svo að það sé fjöldinn allur af íslenskum hestum á Wangen.  

Jæja leiðin lá til lítils bæjar, Alsen, eftir malarvegi.  Og nú var komið að því, upp og niður dæmi, og þannig var það meira og minna í allan dag.  Ganga upp til þess að fara niður og svo framvegis.  Leiðin var falleg og á hæstu hæðum blöstu við stór vötn, skógi vaxnar hlíðar og fell - fallega lituð hús og sveitabæir, hestar, nautgripir og fiðurfé.  Uglur sá ég fljúga svo fallegar og tignarlegar í loftinu.  

Á leiðinni okkar í dag þurftum við meðal annars að ganga eftir gömlum traktorsvegi, svolítið heimilislegt að sjá svona traktorstroðninga.  Á leið niður traðirnar, niður á E14 hraðbrautina, var kallað á eftir okkur:  "vil du ha kaffe?".  Ég sneri mér við og spölkorn frá stóð eldri maður.  Hann benti okkur á að koma upp eftir til sín og við tylltum okkur niður þarna úti hjá honum.  Þar var hann með borð, stóla, kaffibolla, hitakönnu, te og kaffi.  Svo dró sá gamli upp þessa dásemdar kanilsnúða.  Við Ger þáðum te og ég snúðinn að sjálfsögðu, Ger tók hálfan.  Þarna býr þessi maður aleinn, 79 ára gamall, og hann heitir Bjornfot.  Hann er þarna á stórri jörð með miklu og fallegu útsýni og tvö eða þrjú íbúðarhús þarna.  Við sátum þarna og spjölluðum við hann í hálftíma, hann sýndi okkur myndir, kort og bréf sem hann hefur fengið frá pílagrímum.  Og sá gamli lumar á pínulitlu sauna húsi fyrir utan hjá sér, hann kann að njóta lífsins þessi.  Ger ákvað að taka selfie á fínu myndavélina sína af okkur þremur og þá tók sá gamli sig til og færði stólinn sinn alveg upp að mínum og laumaði handleggnum sínum utan um þessa er hér segir frá.  Þá var brosað í laumi.  Honum var það svosem ekkert of gott að halda utan um mig þarna í smástund.  Góður karl og skemmtilegt að spjalla við hann.  Við kvöddum hann með þakklæti og héldum okkar leið.  

Enn hækkaði hitastigið, nú var það komið í 27 gráður.  Það sem eftir var leiðarinnar skiptust á skógarstígar og E14 og það var farið að styttast í lokin á göngunni.  Það er mér alltaf ótrúlega erfitt að ganga í steikjandi sól og hita.  Svitinn lak af mér og ég var að reyna að drekka vatn og vatnið var bara heitt.  Við vorum búin að bóka gistingu hjá Kerstin Strömberg presti.  Hún starfar sem prestur í Mörsil.  En áður fórum við í búðina því hún var í öfuga átt, við ætluðum ekki að ganga meira en við þyrftum, og versluðum svolítið.  Það eyðist nefnilega af því sem af er tekið, allavega hjá mér, og það er fínt.  

Tylltum okkur niður fyrir utan búðina eftir að hafa verslað og ég úr skónum.  Ég naut þess svo sannarlega í botn að borða ís - já þetta var bara heilög stund eftir allt erfiðið í dag.  Núna erum við komin í gistinguna rétt utan við Mörsil.  Það verður vonandi léttari og kaldari dagur á morgun.  Hér gengu yfir þrumur um allt yfir okkur og allt um kring áðan.  Mér er ekkert sérlega gefið um svoleiðis fyrirbæri - það er gott að þetta er allt yfirstaðið.  Jæja, það verður ljúft að skríða í pokann, hugsa heim og sofna.  Hafið það sem allra best og takk innilega fyrir skrifin ykkar, þið getið ekki ímyndað ykkur hvað það er gott að lesa þetta frá ykkur.  Í lokin þetta:  "að eiga vin er að standa ekki einn þegar eitthvað bjátar á, að eiga vin er líka gleði á góðri stund, gæfa í hversdagsleikanum".  

Þreytt kona í dag, búin að ganga samtals 296 kílómetra. 


5. júní - miðvikudagur

17,8 kílómetrar - tólfti dagurinn.  

Við gengum frá Vaplangord til Wangen, tveimur kílómetrum áður en við komum að Alsen.  Í gærkvöldi borðuðum við með Doris og Lars, hjónunum sem við gistum hjá og Göran, bróðir Lars, bættist í hópinn.  Þetta varð hið skemmtilegasta matarboð, kjötbollur úr Elgskjöti - smakkaðist vel.  Það var margt spjallað, þau hjónin búa á jörð sem langalangafi Lars átti og hér eru mörg stór hús, mikið af þeim eru í niðurníðslu en þau hjónin eru smám saman að endurgera húsið sem þau búa í og við gistum í.  

Það var farið á kristilegum tíma í rúmið, um níuleytið.  Svaf eins og engill og vaknaði undir morgun við sólina.  Það var ekkert stress á mér en við áttum morgunmat klukkan átta.  Allt var uppdekkað, allt til alls og meira en það því þau buðu okkur að taka með nesti.  Elskuleg hjón, kát og hress.  

Lögðum í hann klukkan hálf níu í kyrru, hlýju og fallegu veðri - stuttur dagur, 17,8 km.  Þegar við komum að gatnamótunum komum við að E14 hraðbrautinni og næstu kílómetrarnir voru á hraðbrautinni.  Úff en gott að fá malbikið í byrjun áður en þreytan segir til sín.  Við komum að skilti við veginn sem á stóð Islands hastar.  Þetta skilti benti á bæ sem stóð uppi í hlíðinni og þar býr íslendingur sem eftir því sem ég best veit heitir Guðmundur Einarsson, þarna býr hann með konu sinni og rekur þarna tamningarstöð.  Þetta er stærðarinnar býli, útsýni vítt og breitt, græn tún og fallegar byggingar.  Þessi bær er ekki langt frá Valne sem leið okkar lá um í dag. Ekki hitti ég þennan Gumma en íslensku hestana sá ég og það virtist fara vel um þá.  

Kílómetrarnir fimm á malbikinu voru tilbreytingarlitlir en þó sáum við eitt og annað sem gladdi augun.  Býflugur þeyttust um á milli blóma og hávaðinn eins og í þyrlu, þvílík læti, og stærðarinnar hlussur voru þær.  Fuglar syngja fyrir okkur alla daga í trjánum og nú erum við farin að sjá fjöllin, sem voru í fjarska fyrir nokkrum dögum, færast nær.  

Jæja eftir 5 km komum við að mjúkum stígum.  Til þess að komast þangað urðum við að ganga dálítið upp í móti og nú kom hin eina sanna Hvítárbakkaþrjóska í ljós, sem betur fer.  Ger vildi fara malbikið áfram, það væri styttra en ég sagðist heldur vilja góða stíga sem væru eitthvað lengri og hafa fæturna í lagi í stað þess að þurfa ef til vill að hætta eða hvíla einn dag eftir að ganga á malbikinu.  Hann sættist á þetta og sá ekki eftir því í lok göngunnar.  Þetta var frábært göngusvæði, bæir, skepnur á beit, hundar geltandi, galandi hanar og undurfallegt folald.  Allt var þetta á leiðinni minni.  Komum að litlum kofa í skóginum og þar héngu Elgslappir uppi (mynd af þessu fylgir í albúminu).  Sólin skein af og til, dögg í grasi, skóför og hjólför í moldinni, þögn í kyrrðinni.   Já það er bara alls ekki hægt að lýsa þessu, maður verður að upplifa það.  Á einu enginu sem við gengum hjá reyndi ég allt hvað ég gat til að finna fjögurra blaða Smára en það gekk ekki þó nóg væri af Smárunum um allt.  

Það var mjög hlýtt í dag þó ekki væri sól stanslaust og ég var meiripartinn af deginum á stuttermabolnum.  Ger kappklæddur eins og áður, ég skil ekki hvernig þetta er hægt og hann skilur ekki þetta með mig.  Svolítið gaman að velta þessu fyrir sér.  Jæja það komu dropar úr lofti rétt áður en við komum í náttstað.  

Komin til Wangen sem er bæði hótel, hostel, hús og litlar hyttur.  Þar er fjöldinn allur af hestum og meðal annars íslenskum og þarna gistum við í nótt.  Við áttum að gista í húsi með stúdentum sem hér eru staddir en stelpurnar í mótttökunni og kokkurinn sáu aumur á okkur því eitthvað mikið stendur til í kvöld hjá unga fólkinu og það yrði líklega lítill svefnfriður.  Við fengum því herbergi á hótelinu og morgunmaturinn mun bíða okkar í eldhúsinu því enginn verður kominn á morgunvaktina fyrr en klukkan átta.  Þannig að það verður bara allt sett í eldhúsið fyrir okkur í kvöld - við ætlum snemma af stað á morgun.  Langur dagur bíður okkar frá Vangen sem er uþb 2 km áður en við komum til Alsen og engin gisting er til fyrir okkur fyrr en við komum til Mörsil sem er 28 km héðan.  Svo nú reynir á fallegar hugsanir til okkar elsku þið.  

Nú er klukkan að ganga 8, kvöldmaturinn búinn, allt rólegt hér og fallegt að líta út á Alsen vatnið.  Þessi kona ætlar að ljúka þessu með þessum orðum:  "njóttu augnarbliksins, brostu framan í heiminn og elskaðu af öllu hjarta".  

Sæl, sátt, pínu lúin en á morgun kemur nýr dagur ef Guð lofar.    


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband